Staðan í atvinnumálum á Akureyri og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við henni

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 17:28:43 (2851)


[17:28]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hér hafa tekið þátt í umræðum og hæstv. ráðherrum fyrir svörin og forsrh. sérstaklega fyrir jákvæðar undirtektir varðandi það að taka upp jöfnunargjöld eða grípa til jöfnunaraðgerða gagnvart skipasmíðaiðnaðinum. Ég vil sömuleiðis taka undir með formanni iðnn. Það er góðra gjalda vert en ekki nóg og stórfellt endurfjármögnunarátak er í raun forsenda þess að fyrirtækin í greininni geti nýtt sér bætt starfsskilyrði. Ég taldi það tímabært, hæstv. forseti, að taka þetta mál upp og vekja athygli hæstv. ríkisstjórnar á hinni alvarlegu stöðu mála. Það er vissulega rétt að uppgangur í sjávarútvegi og uppbygging í mennta- og menningarmálum á Akureyri hefur bjargað miklu. En ég vænti þess að þær tölur sem ég nefndi hér áðan um hið gífurlega hrun í almennum iðnaði eða 800 störf sem tapast hafa úr nokkrum stærstu iðnfyrirtækjunum á um áratug segi sína sögu um það hvað Akureyri hefur mátt takast á við. Og það liggur í hlutarins eðli að Akureyrarbær getur ekki einn axlað þær byrðar trekk í trekk að endurreisa hvert fyrirtækið á fætur öðru, endurreisa jafnvel heilar iðngreinar í þágu landsmanna allra, ef hann fær ekki til þess neinn stuðning frá stjórnvöldum. Akureyrarbær hefur á undanförnum árum lagt stórfellda fjármuni í formi hlutafjár og ábyrgða inn í endurreisn ullariðnaðarins, endurreisn skinnaiðnaðarins, inn í varðstöðu um skipasmíðaiðnaðinn og svo mætti lengi telja. Bærinn hefur ekki bolmagn til þess að gera slíkt endalaust einn og óstuddur og það þjónar líka takmörkuðum tilgangi eins og t.d. í skipasmíðaiðnaðinum, ef ekki er skapaður starfsgrundvöllur fyrir atvinnugreinina.
    Ég endurtek svo að lokum spurningar mínar til hæstv. forsrh. Þeim getur hann svarað, hæstv. ráðherrann, með aðgerðum á næstu vikum. Og ég vil sérstaklega undirstrika það að ríkið sem eignaraðili að Slippstöðinni ber líka ábyrgð sem slíkt, ekki bara sem stjórnvald. Það skorti ekki viljann né áhugann þegar þurfti að setja aukið hlutafé í járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og það er vel og við studdum það. En hvers má Slippstöðin á Akureyri gjalda að hún skuli ekki njóta sömu fyrirgreiðslu?