Almannatryggingar

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 17:33:26 (2853)

[17:33]
     Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Eftir að 2. umr. lauk í gær kom hv. heilbr.- og trn. saman að gefnu tilefni og ræddi nokkrar ábendingar sem fram höfðu komið við 2. umr. málsins. Það tókst gott samkomulag í nefndinni um þrjár brtt. við málið við 3. umr. og birtast þær á þskj. 416.
    Fyrsta brtt. á við 53. gr. frv. þar sem fjallað er um lögheimili bótaþega og er þar fyrst og fremst um að ræða samræmingu við önnur gildandi lög eða lög um lögheimili.
    Í öðru lagi varð samkomulag um að breyta 67. gr. frv. er varðaði gildistökuna, að í stað þess að

miða gildistökuna við gildistöku EES-samnings, þá er nú gerð tillaga um að gildistaka laganna verði 1. janúar árið 1994.
    Í þriðja lagi varð samkomulag um það í nefndinni í sambandi við 66. gr., sem mestar umræður urðu um við 2. umr. málsins, að greinin taki breytingum og hljóðar hún nú svo í tillögum hv. nefndar:
    ,,Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara. Þá er ráðherra heimilt að birta sem reglugerðir reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar, enda eigi ákvæði þeirra stoð í þessum lögum.``
    Um þessa útgáfu tillagnanna varð samkomulag í hv. heilbr.- og trn. Það er rétt að taka fram að þeir hv. nefndarmenn lýstu því yfir að hér væri fyrst og fremst um samkomulag að ræða um útgáfu og form ákvæðisins hvað varðaði 66. gr., en samkomulagið næði ekki endilega til efnisinnihaldsins. Ég vona að þessi skilningur sé réttur.
    Um þetta er ekki meira að segja, virðulegi forseti, og ég lýk máli mínu.