Almannatryggingar

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 17:55:21 (2857)


[17:55]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er talsverð ástæða til að ræða þetta mál nokkuð ítarlega sem hér er uppi og

ástæða til þess í sjálfu sér að byrja á því að fara viðurkenningarorðum um það að hérna hafa menn í hv. heilbr.- og trn. brugðist vel við og einstakir þingmenn einnig. Ég vil líka segja að það er í raun og veru alveg ótrúlegt að málið skuli þó hafa verið komið svo langt að á síðustu stundu hafi einn þingmaður úr stjórnarandstöðunni brugðið fæti fyrir það eins og það lá þá fyrir, þessi ótrúlega 66. gr. Mér finnst það gefa tilefni til þess að velta fyrir sér starfsháttum Alþingis yfirleitt. Þá er ég ekki að tala um hv. heilbr.- og trn. út af fyrir sig heldur Alþingi yfirleitt og þau vinnubrögð sem hér eru tíðkuð.
    Með öðrum orðum, það liggur við borð a.m.k. að Alþingi hafi í gær og í dag samþykkt lög sem t.d. að mati hv. 3. þm. Norðurl. v. hefðu að því er þetta varðar ekki staðist stjórnarskrána. Menn hljóta að kippast við þegar svona tíðindi verða og velta því fyrir sér hvað má til varnar verða vorum sóma hér í þessari stofnun þannig að svona nokkuð endurtaki sig ekki og það sé tryggt að haldið sé á löggjafarmálefnum þannig að það sé ekki teflt á tæpasta vað að einu eða neinu leyti. Ég verð einnig að segja að þau orð, sem hv. 4. þm. Austurl. las upp úr greinargerð heilbrrn. með þessari grein, um að það kæmi til greina að lögfesta í formi reglugerðar eitthvað sem stendur þarna inni, eru ekki traustvekjandi.
    Nú háttar svo til að það eru til í landinu lög, sennilega 70 ára gömul eða svo, um lagastofnun ríkisins eða laganefnd ríkisins, minnir mig að það heiti, og það hefur oft verið rætt um hvort það ætti að setja hér upp við þingið laganefnd eða lagastofnun til að fara yfir mál, til að fara yfir stjórnarfrumvörp og fara yfir frumvörp sem þingið er að afgreiða. Það er oft allt of mikil fljótaskrift á þessum hlutum hérna og þessi tíðindi sem hér hafa orðið hljóta að hvetja til þess að menn vandi sig sem mest þeir mega framvegis. Ég vil segja fyrir mitt leyti að mér finnst að hugmyndin um lagastofnun Alþingis eða laganefnd Alþingis sé komin á dagskrá fyrir tilstuðlan þessa máls. Það má auðvitað ekki gerast að Alþingi fúski með hluti þannig að það sé alveg á jaðrinum við að standast ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins. Það má ekki gerast. Því finnst mér ástæða til þess sem þingmaður hér úti í sal, án þess að hafa átt neinn atbeina að þessu máli, að þakka öllum sem hafa komið að því og kannski ekki síst hv. 15. þm. Reykv. sem mér skilst að hafi sett skriðuna af stað að einhverju leyti --- og þá vil ég hvetja til þess að menn íhugi hvort ekki er rétt að reyna að ná um það einhverri víðtækri samstöðu hér í þinginu að það verði til lagastofnun, laganefnd, eða einhver aðili sem fer með þessi mál með vönduðum og traustum hætti. Hættan við svona stofnun eða nefnd er auðvitað sú að þingmennirnir hætti algerlega að vanda sig, en það gera þeir nú stundum þrátt fyrir allt nú orðið. Það er auðvitað hættan að menn leggi sitt traust, sitt vald og sína æru, liggur mér við að segja, í hendurnar á embættismönnum og það má náttúrlega ekki vera þannig því að lokum berum við sem hafandi atkvæði hér í þessari stofnun hina endanlegu ábyrgð.     Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti, af því að mér varð nokkuð brugðið þegar ég gerði mér grein fyrir því hvaða hætta var hér bersýnilega á ferðum.
    Nú er það svo að á síðasta þingi var fjallað um staðfestingarfrv. með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og þar var ein mjög opin reglugerðargrein. Ég man ekki hvort það var 4. eða 5. gr. þess frv. sem kvað á um það að ráðherra hefði heimild til þess að setja reglugerðir í viðeigandi málaflokkum. Þetta var alveg óvenjulega opin reglugerðarheimild sem þarna var í staðfestingarfrv. sjálfu, mjög litlu frv. eins og menn muna. Niðurstaðan af þessu varð sú, af þessari gagnrýni tel ég vera og af umfjöllun málsins í hv. utanrmn., að þessi grein, þessi víðtæka reglugerðarheimild í staðfestingarfrv. var felld niður og það er mjög mikilvægt atriði tel ég vera og taldi það vera stefnumótandi í sjálfu sér þannig að menn væru ekki að samþykkja opnar reglugerðarheimildir að því er varðaði þessa EES-samninga og EES-tilskipanir og allt það, heldur afgreiddu menn efni hvers máls fyrir sig. Af þessum ástæðum var það sem við t.d. í hv. menntmn. breyttum frv. um starfsréttindi. Frv. fól upphaflega í sér að það yrðu tekin inn á færibandi þau mál sem hugsanlega yrðu samþykkt á þessu sviði. Við felldum það niður og sögðum í nefndinni: Við samþykkjum þau ákvæði sem þegar hafa verið afgreidd í þessu kerfi Evrópsks efnahagssvæðis, en við tökum ekki inn í lögin opnar allsherjarheimildir heldur tökum við á málunum í hvert skipti þegar um efnislegar breytingar er að ræða. Ég taldi að þessi ákvörðun, bæði menntmn. og sjálfsagt fleiri nefnda sem ég þekki ekki eins vel til og utanrmn., hafi í raun og veru verið í þeim anda sem niðurstaðan er hér. Þess vegna tel ég að tillagan eins og hún var upphaflega frá heilbr.- og trn. hafi ekki verið í þeim anda sem menn ákváðu þegar þeir voru að afgreiða þessa hluti hér í fyrra. Því að þrátt fyrir þann mikla ágreining sem var um Evrópskt efnahagssvæði hér í fyrra þá skildi ég niðurstöðu Alþingis þannig að menn vildu ekki halda á þessum hlutum öðruvísi en þannig að þingið væri með opnum augum að afgreiða hvert mál fyrir sig, en ekki að taka inn óljósa kippu af alls konar málum sem þingið hefði aldrei komið nálægt.