Almannatryggingar

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 18:13:47 (2861)


[18:13]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem hér kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. og tel að hann hafi undirstrikað það hér eins og aðrir sem hafa tekið þátt í þessari umræðu, hver nauðsyn það er að menn vandi sig á þessum vegslóða sem verið er að þræða hér í tengslum við þennan samning.
    Það sem kallaði á að ég bað um orðið í andsvari er að ég held að það sé mikil nauðsyn á því að á vegum ráðuneytanna verði rætt við embættismenn sem fjalla um þessi mál, eins og hv. 3. þm. Reykv. vék réttilega að, og það sé brýnt fyrir þeim hver staðan er og til hvers er ætlast í þessum efnum. Því það er auðvitað alveg augljóst að það eru ekki ráðherrarnir sjálfir sem sitja yfir þessum textum, ekki fyrst og fremst, heldur trúnaðarmenn þeirra og embættismenn í Stjórnarráðinu. Ég hygg að það hafi í þessu tilviki og ýmsum fleiri gætt tilhneigingar til þess, mjög ríkrar tilhneigingar eins og textinn náttúrlega ber vott um, að halda valdinu innan ráðuneytis, valdi sem á að vera Alþingis einnig eftir þeim samningi sem hér var lögfestur.