Starfsleyfi fyrir THORP-endurvinnslustöðina

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 22:36:23 (2884)

[22:36]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. frá umhvn. um viðbrögð vegna starfsleyfis fyrir THORP-endurvinnslustöðina í Sellafield. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að mótmæla harðlega ákvörðun breskra stjórnvalda þann 15. desember 1993 að veita THORP-endurvinnslustöðinni fyrir geislavirkan kjarnorkuúrgang starfsleyfi og ganga þannig gegn samþykktum Parísarsamningsins um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum.
    Alþingi væntir þess að ríkisstjórnin grípi til skjótra og ákveðinna viðbragða vegna þessarar ákvörðunar sem gengur þvert á lífshagsmuni íslensku þjóðarinnar.``
    Í gær, þann 15. desember 1993 veittu bresk stjórnvöld THORP-endurvinnslustöðinni fyrir geislavirkan kjarnorkuúrgang starfsleyfi. Um leið höfnuðu þau kröfu tugþúsunda um opinbera rannsókn á fyrirhugaðri starfsemi, svo og frá fjölda sveitarfélaga og samtaka á Bretlandseyjum.
    Í yfirlýsingu sem breski umhverfisráðherrann gaf í breska þinginu í tengslum við veitingu starfsleyfisins kom fram að 42.500 einstakar athugasemdir bárust vegna stöðvarinnar. Þar af lýstu 63% sig andvíg því að THORP-stöðin fengi starfsleyfi.
    Áætlað hefur verið að starfsemi THORP auki tífalt það magn geislavirkra efna sem berast út í hafið og andrúmsloftið miðað við þá starfsemi sem nú er í Sellafield.
    Það þarf varla að fara mörgum orðum um það hve alvarlegt og afdrifaríkt þetta getur orðið fyrir okkur hér á Íslandi ef magn geislavirkra úrgangsefnia eykst í hafinu. Aðeins óveruleg aukning geislavirkni í hafinu umhverfis Ísland getur haft þær afleiðingar að orðspor fiskafurða frá Íslandi versnar jafnvel þótt geislavirknin væri langt undir þeim mörkum sem ógnar heilsu manna. Eitt lítið slys gæti haft hrikalegar afleiðingar.
    Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt því að starfsleyfi verði veitt fyrir endurvinnslustöðinni, svo og umhverfisráðherrar Norðurlanda og ríkja við Norðursjó. Þann 11. janúar 1993 sendu 42 alþingismenn bréf til breskra stjórnvalda þar sem mótmælt var fyrirhugaðri starfsemi THORP-stöðvarinnar. Þann 1. okt. 1993 sendu síðan allir þingmenn í umhvn. bréf til breskra stjórnvalda þar sem skorað var á þau að leyfa ekki fyrirhugaða starfsemi THORP-kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar. Bent var á það í bréfinu hve mikilvægir fiskstofnarnir væru þjóðinni og hve frekari losun geislavirkra efna í Atlantshafi væri mikil ógnun við lífríki hafsins og þar með ógnun við efnahagslíf hér á landi. Þessi margítrekuðu mótmæli frá Alþingi og ríkisstjórn á undirbúningsstigi THORP eru í senn óvenjuleg og sýna alvöru málsins.
    Starfsemi THORP stríðir gegn samþykktum Parísarsamningsins um varnir gegn mengun sjávar, en sérstök samþykkt um THORP-endurvinnslustöðina í Sellafield var gerð af aðilum samningsins á fundi í Berlín 14.--19. júní 1993.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt ákvað umhvn. einróma á fundi sínum nú í morgun að leggja það til við Alþingi að mótmæla ákvörðun breskra stjórnvalda um að veita endurvinnslustöð fyrir kjarnorkuúrgang starfsleyfi.
    Ég legg áherslu á það að tillaga þessi hljóti lokaafgreiðslu hér í kvöld til að undirstrika þá samstöðu sem ríkir hér á Alþingi í þessu örlagaríka máli. Fram hefur komið í fréttum að settur utanrrh. hefur kvatt sendiherra Breta á sinn fund á morgun og þá er æskilegt að hann hafi ályktun frá Alþingi í veganesti.
    Ég vil leyfa mér að lokinni þessari umræðu að vísa þessu máli til síðari umr. og hv. utanrmn.