Starfsleyfi fyrir THORP-endurvinnslustöðina

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 22:40:54 (2885)


[22:40]

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það mun reyna á það á næstu fjórum vikum hvort það tekst að hnekkja þeirri ákvörðun sem bresk stjórnvöld tilkynntu í gær um að veita THORP-endurvinnslustöðinni starfsleyfi. Hún mun taka til starfa að 28 dögum liðnum frá þessari yfirlýsingu nema það takist með sameiginlegu átaki þeirra fjölmörgu víða um heim sem hafa beitt sér á undanförnum árum gegn þessum áformum. Það hefur verið að fjölga í þeim hópi og koma til liðs aðilar sem mega sín nokkurs á alþjóðavettvangi og þar nefni ég m.a. stjórnvöld í Bandaríkjunum sem hafa alveg nýverið lýst áhyggjum sínum af því að uppsöfnun á plútoni og úrani frá þessari endurvinnslustöð geti leitt til dreifingar þessara efna til smíði kjarnorkuvopna og þarna er ekkert smámagn á ferðinni. Það er alveg ótrúlegt að kynna sér þær tölur sem liggja að baki þessari væntanlegu framleiðslu sem er þarna á ferðinni þar sem um er að ræða um 60 tonn af plútoni sem safnast upp en aðeins um 7 kg er talið að þurfi til þess að smíða kjarnorkusprengju af minnstu gerð. Nú er það auðvitað ekki svo að það sé hugmyndin að framleiða slíkar sprengjur á færibandi, en það er hættan á dreifingu þessara efna og að þau falli í hendur hryðjuverkamönnum, sem svo eru kallaðir, sem beiti þeim til hótana og ógnunar og það hlýtur að setja að flestum hroll sem átta sig á því að hér í nágrenni við okkur sé verið að setja slíka framleiðslu í gang.
    Hitt liggur jafnframt ljóst fyrir að mengun, losun í hafið vex tífalt frá þessari endurvinnslustöð frá því sem verið hefur um 1000%, ef reiknað er þannig og rúmfang hins geislavirka úrgangs eykst nær 200-falt að magni til og mest af því safnast upp á staðnum til losunar með einhverjum hætti þar í nágrenninu.
    Hvaða ráð höfum við Íslendingar til þess að stöðva þessi áform? Við erum einir af 13 þjóðum sem erum aðilar að Parísarsamningnum sem vísað er til í þessari þáltill. frá umhvn. og í Parísarsamningnum er kveðið mjög fast að orði, sérstaklega eftir ákvarðanir aðila að honum á sl. sumri sem frsm. nefndi, og það er ekkert svigrúm fyrir THORP-endurvinnslustöðina ef ákvæðum þessa samnings er framfylgt. Og spurningin er einvörðungu þessi: Tekst að beygja Breta sem eru aðilar að samningnum en hafa vissulega andmælt þeirri samþykkt sem tekin var með lögmætum hætti af aðildarríkjunum í júní sl.?
    Í þessum samningi frá 1986 er í 32. gr. og jafnframt enn ítarlegar í endurskoðuðum samningi frá haustinu 1992 svigrúm og ákvæði um gerðardómsmeðferð ef eitthvert þátttökuríki ekki unir framferði annars aðila að samningnum, þá geta menn krafist með skýrum reglum og fótfestu í þessum samningi gerðardómsmeðferðar. Og ég vil spyrja hæstv. umhvrh. að því hvort hann telji ekki koma til greina að beita þessum ákvæðum samningsins í sambandi við gerðardómsmeðferð ef í nauðir rekur og Bretar ekki láta undan þeim víðtæku mótmælum sem uppi eru og sem íslenska utanríkisþjónustan væntanlega kemur á framfæri þegar á morgun.
    Hér er um svo stórt og geigvænlegt mál að ræða fyrir okkur og fyrir aðrar þjóðir við Norður-Atlantshaf að við hljótum að grípa til allra tiltækra ráða til að fá þessari ákvörðun hnekkt. Það hefur oft verið látið hrikta í á diplómatískum vettvangi af minna tilefni. Er ástæða til þess að vera að halda úti sendiþjónustum í löndum sem ganga þannig fram? Það hafa oft verið kallaðir heim tímabundið sendimenn til þess að leggja áherslu á mótmæli viðkomandi ríkja og aðrar aðgerðir hljótum við einnig að íhuga. Það er satt að segja kaldhæðnislegt að það skuli vera umhverfisráðherra Breta, John Selwyn Gummer, sem áður var sjávarútvegsráðherra og landbúnaðarráðherra og kastaði ónotum í Íslendinga fyrir tveimur árum eða svo eins og lesa má í viðtali í endursögn Morgunblaðsins og beinni þýðingu þann 6. júní 1991, þar sem hann segist vilja halda Íslendingum í hópi siðmenntaðra þjóða með því að koma í veg fyrir að þeir gangi úr hvalveiðiráðinu og íhugi að hefja veiðar á hvölum. En Gummer þessi sat fund Alþjóðahvalveiðiráðsins þar sem Íslendingar tóku ákvörðun um að ganga úr því ráði.
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess að í framhaldi af samþykkt þeirri sem hér er á dagskrá, þá verði henni af stjórnvalda hálfu fylgt eftir af fyllsta þunga og auðvitað leitað samstöðu með þeim öðrum ríkjum sem eiga hér mikið í húfi, sem hafa lífshagsmuna að gæta eins og við eins og það er orðað í tillögunni. Við eigum að eiga vísa bandamenn meðal annarra Norðurlandaþjóða og einnig hjá næstu nágrönnum Breta, hjá Írum sem standa næst vettvangi og hafa mátt þola mengunina frá þeim rekstri sem fyrir hefur verið í Sellafield á undanförnum árum. Þarna þurfa menn að ná saman og beita afli samstöðunnar til þess að knýja bresk stjórnvöld til að láta af þessum áformum og endurkalla það starfsleyfi sem gefið var út í gær.