Starfsleyfi fyrir THORP-endurvinnslustöðina

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 22:49:35 (2886)


[22:49]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. umhvn. fyrir það frumkvæði sem hún hefur sýnt með því að leggja fram þessa tillögu og lýsa yfir fyllsta stuðningi við hana. Ég tel að það sé algjörlega nauðsynlegt að þessi tillaga sé samþykkt á þessum degi og þess vegna hefði hún mátt vera samþykkt fyrr í dag því að ég tel að það skipti miklu máli að Alþingi Íslendinga sýni þegar í stað, samstundis og þessi ákvörðun hefur verið tekin, sinn eindregna vilja í þessu máli. Ég tel að það sé líka rétt að fram komi að ríkisstjórn Íslands hefur rætt þetta mál á fundi sínum í dag og þar var ákveðið að grípa til þeirra viðbragða að kalla breska sendiherrann á fund starfandi utanrrh. á morgun til þess að tjá honum þung mótmæli Íslendinga við þessu máli.
    Ég tel að það sé líka rétt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur mælt hér að reyna að ná sem víðtækastri samstöðu með þeim þjóðum sem eiga þarna hagsmuna að gæta og vil þess vegna upplýsa þingið um það að í umhvrn. í dag hafa verið send bréf til umhverfisráðherra Norðurlanda sem við höfum áður haft gott samstarf við í þessu efni og ég tel að það sé líka ráðlegt að reyna að leita samstöðu með öðrum þjóðum sem eiga aðild að Parísarsamningnum og þá kannski ekki hvað síst Írum sem eiga langmestra hagsmuna að gæta.
    Það er auðvitað svo að það er hálfkaldhæðnislegt þegar breski umhverfisráðherrann, John Gummer, með þessum hætti brýtur í rauninni öll þau siðferðilegu lögmál sem gilda, ekki einungis í samskiptum þjóða sem hafa unnið saman á alþjóðavettvangi, heldur brýtur líka þær grundvallarreglur í umgengni við umhverfið sem hafa verið að skapast á síðustu árum og sem m.a. Bretar tóku þátt í að undirstrika á Ríó-ráðstefnunni. Og það var einmitt þessi umhverfisráðherra Breta sem óskaði þess að Íslendingar ættu afturkvæmt í samfélag siðmenntaðra þjóða. Þá var hann að vísa í hvalveiðar Íslendinga. Nú tel ég að með þessari ákvörðun sinni hafi í rauninni Bretar nánast gengið úr samfélagi siðmenntaðra þjóða vegna þess að ég tel að það sem þeir hafa gert sé svo alvarlegt. ( Gripið fram í: Þetta eru stór orð.) Þessi niðurstaða sem breska stjórnin tók er afleit og ég varð fyrir miklum vonbrigðum með hana, ekki síst vegna þess að ég hef sem umhverfisráðherra átt í bréfaskiptum við breska umhverfisráðherrann og lýst hörðum mótmælum og miklum áhyggjum íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu máli og það er ekki langt síðan hann sendi bréf til baka og sagði að þetta yrði tekið til gaumgæfilegrar íhugunar. Niðurstaðan er sem sagt þessi: Það eru öll aðvörunarorð hundsuð.
    Það er engum blöðum um það að fletta að Sellafield og hin nýja stöð sem þar er að rísa er meginuppspretta geislamengunar í Norðurhöfum og þegar Bretar segja að öll mengun sem stafar af úrgangi sem frá stöðunni muni koma sé langt undir alþjóðlegum stöðlum, þá mega menn ekki gleyma því að hér er um að ræða efni sem sum hver eru mjög langlíf. Sum efnanna sem eru losuð frá Sellafield, að vísu sum í afskaplega litlum mæli, en það eru dæmi um efni sem hafa helmingunartíma upp á 16 millj. ára. Önnur efni sem við höfum verið að mæla eins og sesíum-137 hafa miklu skemmri helmingunartíma, einungis 30 ár, en það er eigi að síður svo að þarna er um að ræða efni sem safnast upp í náttúrunni og það sem skiptir líka miklu máli er það að mengunarhættan sem stafar af losun efna frá þessari stöð ógnar fyrst og fremst hagsmunum þeirra sem hafa engan hag af þessari endurvinnslu, þjóðum eins og Írum, Færeyingum, Íslendingum og Norðmönnum. Það eru þjóðir sem eru í fjarlægum heimshlutum sem eru að notfæra sér þessa stöð. Þannig hafa t.d. Japanir gert samning við stöðina til 10 ára og þegar greitt umtalsverðar fjárhæðir, 250 milljarða íslenskra króna eða 2,5 milljarða sterlingspunda.
    Nú er það svo að það er líka annars konar hætta sem stafar af þessari stöð vegna þess að það kann að vera að flutningar á úrgangi til stöðvarinnar og síðan geislavirkum efnum frá stöðinni geti líka valdið umhverfisspjöllum og það eru einmitt þessi atriði sem við höfum fundið að gagnvart Bretum. Við höfum ekki fengið frá þeim neinar upplýsingar um að það sé búið að setja sérstakar reglur til þess að tryggja að það verði dregið eins og hægt er úr einmitt hættu á flutningum til og frá stöðinni.
    Það er líka rétt að það komi fram að það voru Íslendingar sem á sínum tíma höfðu frumkvæði að því meðal þjóða sem eiga aðild að Parísarsamningnum að Bretar hæfu ekki starfrækslu þessarar stöðvar nema þeir legðu fyrst fram mat á umhverfisáhrifum á starfsrækslu stöðvarinnar. Það var í tíð hæstv. þáv. samgrh. Matthíasar Bjarnasonar. Á þessu sumri höfum við síðan ítrekað þessa ósk okkar. Bretar hafa kosið að hundsa hana.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson varpaði fram þeirri spurningu: Hvað er hægt að gera? Hann bendir á það að í ákvæðum Parísarsamningsins er mælt fyrir um gerðardóm ef einhver tiltekin þjóð telur að önnur þjóð sem aðild á að samningnum fullnægi ekki skilyrðum og hann spyr mig hvort ég telji að það sé unnt að notfæra sér þetta ákvæði. Ég tel að svo sé ekki, en það verður auðvitað skoðað. Ástæðan fyrir því að ég tel að svo sé ekki er sú að af þessum 13 þjóðum sem þarna eiga aðild voru einungis 9, ef ég man rétt, sem greiddu atkvæði með þessari tillögu í sumar. Bretar greiddu atkvæði gegn henni og samkvæmt ákvæðum samningsins þýðir það í raun að þeir eru ekki skuldbundnir af honum. En ég segi það hins vegar að þetta mál verður skoðað.
    Ég vil samt sem áður, virðulegi forseti, leggja áherslu á það að þó að flestir þeir og væntanlega allir sem hér eru staddir séu sammála um þá miklu ógn sem af þessu getur stafað í framtíðinni, þá megum við samt sem áður ekki mikla það svo fyrir okkur að menn telji að nú þegar sé okkur hætta búin, t.d. fiskimiðum okkar, af þeim úrgangi sem frá stöðinni er þegar að finna í hafinu. Það er svo að þrátt fyrir allt eru fiskimiðin við Ísland þau hreinustu sem til eru í heiminum.
    Það er mengun frá Sellafield við Ísland. Ég greindi frá því áðan að Sellafield er ein helsta uppspretta geislamengunar í Norðurhöfum. Það er meira að segja hægt að fá mælingar á því hversu mikil mengunin einungis frá þessari stöð er hér við land. Hafstraumar valda því að sesíum-137, og raunar önnur geislavirk efni, sem losuð eru út í hafið fara með hafstraumum norður fyrir landið. Það magn geislavirkra efna sem hægt er að mæla fyrir sunnan land er ekki komið frá þessari stöð. Það stafar af geislavirku úrfelli frá því að menn voru með tilraunir með kjarnorkusprengingar í andrúmsloftinu á milli 1950 og 1960. Munurinn á mælingunum fyrir sunnan land og fyrir norðan land sýnir því í rauninni það magn

sem stafar frá Sellafield. Það kemur í ljós að það er helmingi meira af geislavirkri mengun að finna í hafinu fyrir norðan Ísland heldur en fyrir sunnan. Eigi að síður er það svo að ef við tökum t.d. þang, þá er um það bil tíu sinnum minna af geislavirkum efnum sem mælist í þangi við Ísland fyrir norðan land en t.d. við Norður-Noreg og í yfirborðssjó er munurinn tuttugufaldur. Ef við tökum fisk eins og þorsk, þá er munurinn þrefaldur til áttfaldur.
    Það er því nauðsynlegt að undirstrika það í þessari umræðu að íslenskur fiskur er þrátt fyrir þá mengun sem nú þegar stafar af þessari stöð einn sá hreinasti í heiminum.
    Virðulegi forseti. Eins og ég gat um hér áðan hefur íslenska ríkisstjórnin þegar ákveðið að grípa til mótmæla með því að kalla á fund utanrrh. breska sendiherrann og tjá honum hörð mótmæli stjórnarinnar. Ég vil líka að það komi fram að ríkisstjórnin hefur með bréfaskiptum við John Gummer mótmælt þessu harkalega og þá einkum því, virðulegi forseti, að Bretum hefur ekki tekist að sýna fram á að mengun geislavirkra efna muni ekki aukast, eins og þeir hafa haldið fram, þegar stöðin tekur til starfa. Sömuleiðis er það aðfinnsluvert að þeir hafa ekki sett neinar reglur sem draga úr hættum á mengunarslysum vegna flutninga til og frá stöðinni.