Prestssetur

63. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 00:00:46 (2896)


[24:00]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er tvennt sem er ekki það sama en mér finnst hæstv. ráðherra tala um í sömu andránni. Það er annars vegar verkefni og hins vegar eignir. Ég hef ekki í minni ræðu gert athugasemdir við það að verkefni væru færð til kirkju og tekjustofnar til að standa undir þeim verkefnum. Hins vegar hef ég athugasemdir við það og tel að menn séu líka að færa eignir ríkisins til kirkjunnar. Mér finnst að hæstv. dómsmrh. hafi í raun staðfest það með svari sínu áðan að verið er að færa eignir ríkisins og gera þær að eignum sem eru ekki eignir ríkisins. Það finnst mér vera það sem upp úr stendur í þessu svari.
    Mér finnst það ekki ganga að eignir sem ríkið á, eins og embættisbústaðir, skuli vera í forsjá annarra en ríkisins, eigandans. Það verður að vera alveg á hreinu að eignarhald og forræði eignanna fari saman. Menn geta ekki haft það á sitt hvorri hendinni. Það þykir mér ekki ganga upp í þeirri leið sem hér er lagt til að verði farin.
    Ég bendi einfaldlega á 3. og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða sem er um það að leggja eignir ríkisins til annars vegar Tónskóla kirkjunnar og hins vegar kirkjumálasjóðs. Þetta á ekkert heima í ákvæði til bráðabirgða þar fyrir utan og er bara dæmi um illa samið frv. Auðvitað á þingið að breyta þessu og ég skil ekkert í hv. allshn. að gera það ekki. Fyrr má nú vera þjónslundin við ráðherrann, virðulegur forseti.