Prestssetur

63. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 00:02:59 (2897)


[00:02]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég skipa 2. minni hluta í virðulegri allshn. í þessu máli en skilaði ekki inn skriflegu áliti heldur kýs að flytja mitt álit munnlega. Það snýr fyrst og fremst að þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru í nefndum þingsins yfirleitt, ekkert frekar þessari tilteknu nefnd heldur nefndum þingsins yfirleitt.
    Það mál sem hér er til umræðu, frv. til laga um prestssetur, barst til nefndarinnar 13. des. og var afgreitt út úr nefnd þann 15. des. aðeins tveim dögum seinna. Engu að síður liggur það fyrir og kom fram í hv. nefnd að níu ár eru síðan vinna hófst við samningu þessa frv. Það kom jafnframt fram hjá þeim gestum sem komu á fund nefndarinnar, og ég vil gjarnan geta þess í framhjáhlaupi að það komu gestir í raun aðeins á einn fund nefndarinnar þar sem nefndin var fullskipuð. Þegar gestirnir komu í fyrsta sinn höfðu þegar verið boðaðir að mig minnir þingflokksfundir hjá stjórnarandstöðuflokkunum. Þessir gestir komu því aftur og voru aðeins einu sinni á fundi nefndarinnar. Þar kom fram að þetta væri stórmál í huga klerkastéttarinnar og kirkjunnar og að hér yrði um sögulega lagasetningu að ræða. Þrátt fyrir það verður að segja eins og er að þetta mál er algjörlega óunnið í nefnd.
    Ég vil að það komi fram að ég lýsti mig reiðubúinn til þess í hv. allshn. að taka þann tíma sem þarf til, þann tíma sem menn vildu setja í frv. og vinna það alveg í botn án tillits til þess að þetta væri hluti fjárlaga eins og gjarnan er notað á þessum síðustu dögum þegar þrýsta þarf málum í gegn. Þessi leikur er leikinn, bæði af stjórn þingsins og ráðherrum, ár eftir ár eftir ár, að setja mál seint á dagskrá og setja þau mjög seint inn í nefndirnar og síðan að þrýsta á nefndirnar undir yfirskini tímaskorts og ég tel einfaldlega að ef það á einhvern tímann að kenna mönnum lexíu og kenna mönnum að vinna málin vel þá verður að láta brjóta á þessu. Menn verða að hafa kjark til þess að brjóta þetta upp og gefa sér þann tíma sem þarf jafnvel þó það færi yfir jólaleyfi. Ég tel að ef menn gera þetta ekki þá læri menn aldrei og þessi leikur heldur áfram ár eftir ár eftir ár. Ég tel algjörlega nauðsynlegt að þetta sé gert og menn séu látnir horfa framan í kaldan veruleikann og afleiðingar þess að setja mál seint fram og stilla þingmönnum svona upp. Þingmenn eiga almennt ekki að sætta sig við þetta.
    Ég veit að ég er kannski að verða eins og gömul plata því ég er nánast alltaf að mæla fyrir því sem ég vil kalla betri vinnubrögð. En þetta verður að gera. Ég veit að margir þingmenn eru í hjarta sínu sammála og mörgum þingmönnum líður illa yfir því hversu illa unnin mörg frv. eru úr nefndum. Ég tel að við höfum dæmi fyrir því að mistök hafi verið gerð einmitt út af þessum tímaskorti.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ræðandi um þetta þá sakna ég þess að þingið sé ekki í tveimur deildum því þar voru auðvitað síurnar til staðar. Mál fóru í gegnum sínar þrjár umræður í fyrri deild og sínar þrjár umræður í seinni deild og jafnvel aftur í fyrri deild. Þar voru því síurnar sem ekki eru til staðar í dag.
    Á sama tíma og svona er gert þá mega mál óbreyttra þingmanna liggja í salti heilu þingin. Jafnvel þó þau komi fram á fyrstu dögum þingsins þá liggja málin í nefndum og fá aldrei að koma þaðan út. Við höfum dæmi fyrir því hér fyrir þremur árum þegar tæplega helmingur þingmanna, tæplega 30 þingmenn voru flm. að einu frv. og það fékk ekki að koma út úr nefnd. Greinilegur meiri hluti var fyrir málinu en ofbeldið var slíkt að málið fékk ekki að koma út úr nefnd. Þetta eru auðvitað ólíðandi vinnubrögð með öllu. Ég tel að það eigi að breyta þingsköpum í þá veru að öll mál eigi að koma út úr nefnd og það sé þingsins, þeirra sem sitja í þessum sal, að taka afstöðu til málsins en ekki einhverra níu þingmanna sem sitja í nefndum. Þeir hafa ekki fengið atkvæðisrétt hinna 54. Það eru 63 þingmenn sem eiga að taka afstöðu til mála en ekki 9 þingmenn og hvert einasta mál sem tímanlega berst á að koma út úr nefnd.
    Ég vil taka það skýrt fram að þessi ádeila mín á vinnubrögð eru ekki á formann nefndarinnar. Þau eru á okkur sjálf sem sitjum í nefndinni, að láta þetta yfir okkur ganga. Það er það sem ég er fyrst og fremst að gagnrýna. Ég óska þess og vona að hugarfarsbreyting verði hjá þingmönnum og þeir fari að vinna þetta markvissar en gert hefur verið, en til þess þarf auðvitað að hafa stjórn þingsins og ráðherrana með í spilunum.
    Þess vegna var ég ekkert hissa þegar hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson þurfti að eyða svolitlum tíma til að ræða málið vegna þess að málið er gjörsamlega órætt. Ég tel að ræða hv. þm. hafi sannað það. Það voru fjölmargar spurningar sem vöknuðu eftir ræðu hv. þm. Ég tek alveg undir það með honum að nefndin getur enn tekið þetta til sín og nefndin getur enn lyft upp andlitinu og unnið þetta betur. Rök hv. þm. voru svo sterk fyrir málinu að það ætti nánast að vera skilyrði fyrir því, enda var það ein af óskum kirkjuþings og kom fram í ýmsum umsögnum þar sem skorað var á þingið að skoða málið vel og gefa sér tíma, ef ég man orðrétt, til að skoða málið en við urðum ekki við því.
    Það kom líka fram að umsagnaraðilar höfðu ekki tíma til að gefa umsagnir. Það hefur verið vitnað í umsögn Ríkisendurskoðunar sem sagði það orðrétt að hún hefði ekki fengið nægan tíma til þess að skoða málið efnislega. Einn umsagnaraðilinn fékk símbréf sama dag og hann átti að skila umsögninni. Hvernig eiga menn að skila umsögnum þegar þeir fá engan tíma? Það er eitt símbréf, svaraðu strax. Menn þurfa auðvitað ákveðinn tíma. Jafnvel þó þeir séu vel inni í málunum, þá þurfa þeir að tína til sín rök, setja þau saman og koma þeim skilmerkilega frá sér. Það er því alveg kristaltært að málið er algjörlega óunnið.
    Ég vil vitna aðeins í eina umsögn sem barst frá Austfjarðaprófastsdæmi og ætla að lesa, með leyfi forseta, örlítið upp úr þeirri umsögn. Þar segir:
    ,,Í 2. mgr. 3. gr. finnst mér skerðing á valdi sjóðstjórnar nokkuð mikil og þar að auki virðist mér að stundum yrði langdregið með afgreiðslur mála þar sem kirkjuþing kemur aðeins saman stutta stund á ári hverju.
    Vegna 5. gr. í frv. um kirkjumálasjóð spyr ég: Er gert ráð fyrir að kirkjuráð geri fjárhagsáætlun fyrir næstkomandi ár þar sem talað er um að fjárhagsáætlun skuli kynnt dóms- og kirkjumálaráðuneyti fyrir maílok og svo líka fyrir kirkjuþingi sem starfar alltaf síðla hausts eða í vetrarbyrjun? Eða er þessi fjárhagsáætlun fyrir hvert yfirstandandi ár? Þetta finnst mér vart nógu skýrt í frumvarpsgreininni.
    Mér finnst einnig að ákvæði um lífeyrisréttarstöðu þeirra, sem ákvæði til bráðabirgða í frv. um kirkjumálasjóð nær til, séu óljós og loðin og þurfi nánari skýringa við.
    Þá finnst mér að endurskoðunarákvæði eftir fjögur ár ætti að vera í frv. um prestssetur, svo sem er í frv. um kirkjumálasjóð því að vafalaust koma einhverjir agnúar í ljós þegar farið verður að framfylgja lögunum, svo fremi að þau verði að lögum.``
    Þetta las ég hér upp, hæstv. forseti, aðeins til að sýna fram á að það koma fram spurningar í umsögnum sem ekki hefur gefist tóm til að vinna í og leita svara við.
    Varðandi frv. sjálft þá tek ég undir gagnrýni hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar á 4. gr. þar sem veitt er opin heimild til að selja, eins og hv. þm. kallaði, öll stólasetur á einu bretti. Í dag eru heimildarákvæði í fjárlögum fyrir hverja smáeign sem ríkið á. Til að mynda er ein heimildagreinin upp á það hvort leyfilegt sé að selja fjós og útihús. Aðrir hafa minnst á 4 hektara lands og þar fram eftir götum. En hér á sem sagt á einu bretti að afhenda öll stólasetur í landinu. Opin heimild sem enginn veit í raun hvað þýðir eða enginn hefur náð utan um.
    Nú getur vel verið að þetta sé allt rétt og gott og eðlilegt að fara þessa leið en skýringar og svör hafa bara ekki komið til nefndarinnar. Röksemdir fyrir þessu hafa ekki fengist og meðan þær efasemdir eru til staðar er auðvitað mjög erfitt að samþykkja svona opna heimild. Hugsanlega hefði þetta skýrst í nefnd ef við hefðum gefið okkur betri tíma í það. Þess vegna styð ég þá brtt. sem fram kemur að á meðan þessar efasemdir eru og meðan málið hefur ekki verið nægjanlega skýrt þá verði að afla heimilda Alþingis fyrir slíkum sölum, eins og reyndar er í dag.
    Varðandi 5. gr. þar sem talað er um leigu fyrir prestssetur þá kom það fram í hv. nefnd að prestarnir líta í raun og veru ekki á þetta sem leigu. Þeir líta á þetta sem fyrningargjald, svo ég noti nákvæmlega þeirra eigin orð, sem renni í rauninni ekki í prestssetrasjóð heldur eigi að verja þessum svokölluðu leigum eða fyrningargjaldi til viðhalds á eignunum. ( Gripið fram í: Sérmerkt hverju fyrir sig.) Já, sérmerkt. Þá hlýtur maður að spyrja sjálfan sig: Hvað þýðir þá 7. gr. þar sem segir að tekjur prestssetrasjóðs séu m.a. leigutekjur af prestssetrum, þegar prestarnir sjálfir segja í raun og veru að þetta renni ekki í prestssetrasjóð? Þarna stangast hvert á annars horn. Þarna er enn eitt atriðið sem hefði þurft að upplýsa.
    Ég tel hins vegar almennt að prestar eigi að borga leigu eins og hún gengur og gerist á markaðnum í dag, markaðsleigu. Ég tel að það sé hollt fyrir presta, eins og reyndar aðra, að vera sem næst fólkinu og næst sínum umbjóðendum og þeir eigi að lifa í svipuðu umhverfi og fólkið sem þeir eru að starfa

fyrir. Fólk á almennum leigumarkaði borgar að ég held u.þ.b. 30--40 þús. kr. fyrir litla tveggja herbergja íbúð. Við höfum hér hins vegar nýjan lista yfir leigukjör presta og ég ætla að leyfa mér að skoða nokkrar tölur þar. Leigu á móti fermetrastærð húsnæðis. Menn geta síðan borið saman hvort þetta sé það sem gengur og gerist á markaðnum. Hér er eitt prestssetur sem er 128 m 2 , leigan er 11 kr. á mánuði. Ég er hræddur um að menn yrðu ekki í vandræðum með að leigja út húsnæði í Reykjavík á þessum kjörum. Hér er annað sem er 191 m 2 , leigan er 1 kr. ( Gripið fram í: Á ári eða mánuði?) Ein króna á mánuði! Hér er annað 245 m 2 , sama leiga 1 kr. Svona eru fjölmörg dæmi. 205 m 2 á 2 kr., 167 m 2 á 1 kr. En gegnumsneitt virðist leigan vera, ef maður tekur þessi öfgakenndu dæmi út sem eru þó 13, 13 dæmi um leigu 16 kr. og undir, þá virðist leigan vera svona kannski 7--8 þús. kr. Það er mín skoðun að prestar eigi að borga sína leigu eins og hver annar í þjóðfélaginu. Af sömu rökum tek ég undir þá brtt. sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og Anna Ólafsdóttir Björnsson flytja við 6. gr., þar sem vátryggingar- og fasteignagjöld eiga auðvitað að vera greidd af þeim sem hefur viðkomandi húsnæði á leigu. Það er það sem gengur og gerist á markaðnum.
    Varðandi 10. gr., þar sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og Anna Ólafsdóttir Björnsson eru með brtt. við sem gerir ráð fyrir að orðið ókeypis falli út, þá verð ég að segja það sama, þetta er óskoðað mál í nefndinni og er svolítið erfitt að leggja mat á það. En ég vil engu að síður leyfa mér að benda á umsögnina með greininni þar sem segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði þetta er sett til að taka af allan vafa um að skylt sé, eins og verið hefur, að leggja öllum lögboðnum prestssetrum samkvæmt lögum nr. 62/1990 til ókeypis lóðir.``
    Þannig að þetta er í núgildandi lögum. Jafnframt vil ég benda þingmönnum á að svipað ákvæði, kannski ekki alveg eins, en svipað ákvæði er í öðrum lögum, m.a. íþróttalögum frá árinu 1956, með síðari breytingum, en í 18. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Skylt er sveitarfélögum að leggja til endurgjaldslaust hentug lönd og lóðir undir íþróttamannvirki, sem styrkt eru úr íþróttasjóði eða íþróttanefnd viðurkennir. Heimilt er að taka land til þessa eignarnámi, ef þörf krefur.``
    Þetta bendi ég á aðeins til að sýna að svipuð lagaákvæði eru til staðar í dag.
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði mér ekki að hafa langt mál og hef ekki haft langt mál um þetta frv. Ég tel eins og aðrir sem hér hafa talað að málið þurfi miklu betri skoðunar við. Það er leiðinlegt til þess að vita þegar jafnstórt mál og sögulegt að mati klerkastéttarinnar er hér á ferðinni að þingið skuli afgreiða málið með þeim hætti sem raun ber vitni og það harma ég.