Prestssetur

63. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 00:21:50 (2898)

[00:21]
     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Vegna þeirrar umræðu er hér hefur átt sér stað þykir mér rétt að koma með athugasemdir. Þessi tvö frv. sem eru hér til umræðu voru rædd í allshn. og fengu þar ágæta málsmeðferð að mínu mati. Það var reynt að verða við öllum óskum hv. nefndarmanna um upplýsingar og gögn.
    Þessi mál komu til nefndar úr þinginu þann 8. des. og hefði vissulega verið heppilegra að fá þau fyrr. Umsagnarbeiðnir voru sendar út þann 10. des. og hringt var sérstaklega í alla. Það var t.d. hringt í prófasta, en þeir voru líka búnir að margskoða frv.
    Þessi mál voru tekin fyrir á þremur fundum nefndarinnar þann 13. des. og á tveimur fundum þann 15. des. Ég get hins vegar tekið undir þau orð hv. þm. að það er ekki heppilegt að þurfa að vera undir tímapressu í tengslum við afgreiðslu mála hér á hinu háa Alþingi.
    Í nál. frá minni hluta allshn. er vitnað í aðeins örfáar umsagnir, en það voru fjölmargar sem bárust og allar jákvæðar, enda sést það líka á efni þeirra umsagna sem hér fylgja með að það er ekki lagst gegn málunum. Enn fremur segir í nál., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Í sumum umsagnanna er líka kvartað yfir því að bókun, sem kirkjuþing gerði við afgreiðslu málanna, fylgir ekki með frumvarpinu. Hefur henni verið stungið undir stól og fengu nefndarmenn hana aðeins í hendur í umsögn prófastsins í Borgarfjarðarprófastsdæmi. Í niðurlagi bókunarinnar segir: ,,Kirkjuþing treystir hinu háa Alþingi til að athuga þessa þætti gaumgæfilega er það fær þetta mál til meðferðar.````
    Ég veit ekki hvort einhver hefur stungið bókun kirkjuþings undir stól og held að það sé raunar of mikið gert úr þessu máli hér því kirkjuþing samþykkti sjálft bæði þessi frv. Það hefði þá átt að vera hlutverk þeirra aðila sem komu á fund nefndarinnar, m.a. frá kirkjunni, að benda á þessa bókun ef menn hefðu talið það hlutverk Alþingis að gera úttekt á ýmsum stórum málum eins og ástandi kirkjugarða og prestssetra.
    Varðandi þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir þá þykir mér rétt að víkja fyrst að 4. gr. frv.

til laga um prestssetur, en með ákvæðum þeirrar greinar, um kaup og sölu prestssetra, er að öllum líkindum fyrst og fremst átt við að sjóðstjórn verði heimilt að bregðast við þeim aðstæðum að prestssetur ónýtist eða gangi úr sér eða þyki óhentugt og nýtt verði keypt í staðinn. Með öðrum orðum þá er væntanlega ætlunin að veita sjóðstjórn heimild til að varðveita verðmætin sem felast í prestsseturshúsunum. Ekki er um það að ræða að sjóðstjórnir fái heimild til að selja jarðir eða hús að geðþótta. Þriðja grein gerir reyndar ráð fyrir því að sjóðstjórn verði settar starfsreglur. Það gerir kirkjuþing og ákveðið er að prestastefnan, sem er samkoma vörsluaðila prestssetranna, muni fjalla um þær starfsreglur. Í þessum starfsreglum verður sjóðstjórninni settur rammi eða skýrar reglur um kaup og sölu. Því má halda að sá ótti sé ástæðulaus að með þessari grein sé gefinn möguleiki á því að rýra prestssetrin með því að láta réttindi, nytjar eða hlunnindi undan þeim ganga.
    Brtt. um að Alþingi staðfesti ákvarðanir sjóðstjórnar er óþörf. Með þessu frv. er þjóðkirkjunni falin tilsjón með prestssetrunum. Sú tilsjón er skilyrt að því leyti að hæstv. dóms- og kirkjumrh. mun staðfesta ákvarðanir um kaup og sölu. Það skilyrði byggir á þeirri staðreynd og því samkomulagi ríkis og kirkju, eins og oft hefur verið bent á í þessari umræðu, að nú starfa kirkjueignanefndir ríkis og kirkju að því að fá niðurstöðu um framtíðarskipan og jafnframt hlutverk kirkjueigna í landinu.
    Ef kalla á Alþingi Íslendinga til að staðfesta hverja nauðsynlega ákvörðun sjóðstjórnar þá er bókstaflega verið að ganga gegn meginhugsun frv. að kirkjan fái tilsjón með prestssetrunum og beri á þeim fulla ábyrgð. Það má líka spyrja hvort líklegt sé að kirkjuráð, kirkjuþing og prestastefna muni nokkurn tímann heimila þá meðferð á prestssetrum og jarðnæði er þeim fylgir er rýri þessar eignir og þar með kjör og stöðu viðkomandi sóknarpresta. Á það má einnig benda að það er hluti af embættisskyldu biskups og hæstv. kirkjumrh. að gæta þess að prestssetur rýrni ekki.
    Það eru víða fordæmi í lögum um heimildir sem þessar. Sérstaklega er rétt að benda á lög um íbúðarhús í eigu ríkisins nr. 27 frá 1968, 9. gr., en þar er gengið miklu lengra en í þessum frv. og vil ég, með leyfi virðulegs forseta, lesa hér upp 1. mgr. 9. gr.:     ,,Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins innan þeirra svæða, þar sem eðlilegur markaður hefur skapast fyrir íbúðarhúsnæði til kaups eða leigu, sbr. reglugerð, er sett verður skv. 11. gr., skal selja þegar í stað, er núverandi leigutakar þess hverfa úr því eða láta af embætti. Heimilt er þó að fresta sölu, ef slík frestun er bersýnilega hagkvæm fyrir ríkissjóð.``
    Þetta atriði, eðlilegur markaður, er í raun og veru háð mati ráðherra hverju sinni og gengur því mun lengra heldur en það ákvæði sem hér er um rætt.
    Varðandi tilvitnun í stjórnarskrá þá er ljóst að þegar dómstólar fjalla um slík tilvik þá er tekið tillit til þess hvernig þessi mál hafa verið framkvæmd. Það þarf heldur ekki að tíunda hverja eign í lagasetningu sem þessari. Ákvæði frv., hvað þetta snertir, eiga því að standast íslenskan rétt, enda ekki framsal á skattlagningarvaldi og ekki íþyngjandi fyrir borgarana. Þá er rétt að benda á það enn fremur að hægt er að þinglýsa kvöðum eins og varðandi virkjunarréttindi. Hér er um afmarkaðar heimildir að ræða í þessu frv. Allan V. Magnússon héraðsdómari svaraði því á fundi í nefndinni að frv. stangist ekki, eða réttara sagt, standist gagnvart 6. gr. fjárlaga, en hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson spurði sérstaklega um það atriði.
    Varðandi brtt. við 6. gr. frv. má nefna að ríkið greiðir skatta og skyldur vegna íbúðarhúsnæðis í eigu þess. Leigugjald tekur mið af því. Hér er því um að ræða hliðstæðu við fyrirkomulag sem gildir um ríkiseignir. Ef ætti að láta prestana greiða skatta og skyldur ruglast grunnurinn sem leiga er ákvörðuð út frá. Leigan yrði lækkuð og dæmið yrði einfaldlega flóknara.
    Það hefur enn fremur komið fram brtt. varðandi 10. gr. frv. þar sem rætt er um að sveitarfélag skuli leggja til ókeypis lóð undir íbúðarhús prestsins, ef um lögboðið prestssetur er að ræða. Í frv. er verið að staðfesta gildandi lög, sbr. m.a. 5. gr. laga nr. 62/1990, eins og tekið er fram í athugasemdum við 10. gr. Þessi grein hljóðar þannig, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna er skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Nú er presti skylt að hafa aðsetur í kaupstað eða kauptúni, og er þá sveitarfélagi skylt að leggja til ókeypis lóð undir íbúðarhús hans, ef um embættisbústað í eigu ríkissjóðs er að ræða.``
    Einnig má í þessu sambandi vísa til þess að þjóðkirkjunni er skylt að veita þjónustu á landsvísu en fríkirkjum og sértrúarhópum ekki. Það er ekki brotin jafnræðisregla stjórnsýslulaga enda nýtur þjóðkirkjan sérstakrar verndar í stjórnarskrá. Það eru enn fremur mörg fordæmi þess efnis í lögum eins og rætt er um í 10. gr. t.d. eru lög um skólakostnað, heilbrigðislöggjöf, heilsugæslustöðvarnar o.fl. Þessi lagasetning hefur verið réttlætt með því að sveitarfélagið nyti góðs af þessari þjónustu og sú röksemd á einnig við hér.
    Virðulegi forseti. Að lokum er það von mín að þessum tveimur frv., þótt fyrra frv. sé hér aðeins formlega til umræðu, verði vel tekið á hinu háa Alþingi og verði afgreitt sem fyrst sem lög, því hér er um merkileg mál að ræða og í samkomulagi milli ríkis og kirkju.