Prestssetur

63. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 01:27:34 (2904)


[01:27]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Síðastliðin fimm ár hefur verið mikil viðleitni hér í þinginu sem m.a. hv. forseti hefur tekið þátt í og ég hef tekið þátt í og ýmsir fleiri að reyna að koma ákveðinni skipan, ég vildi gjarnan að hæstv. forseti hlustaði á þetta, ( Gripið fram í: Ekki trufla forsetann.) að koma á ákveðinni skipan varðandi fjármál ríkisins, eignamál ríkisins og aðra slíka þætti svo að horfið væri frá því að þau mál væru á stundum í þeim ruglanda sem var hér áður fyrr. Nú játa ég það eins og ég hef gert fyrr í þessari umræðu að ég fór ekki að kynna mér þetta frv. fyrr en undir ræðum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Ég sé að í athugasemdum við 4. gr. frv. segir:
    ,,Ákvæði þetta mælir fyrir um heimild sjóðstjórnar til kaupa og sölu á prestssetrum.``
    En síðan stendur hér í fylgiskjali frá fjmrn.:
    ,,Vakin skal athygli á, eins og gert er í athugasemdum við lagafrv. þetta, að kirkjunni eru ekki afhentar prestssetursjarðir og prestsbústaðir til eignar. Þær eignir verða áfram eign ríkissjóðs.``
    En hvernig er þá hægt að selja prestssetrin samkvæmt 4. gr. ef þau eiga áfram að vera eign ríkissjóðs? Þess vegna vil ég nú, virðulegur forseti, setja fram þá ósk til að þetta mál þurfi ekki að þvælast lengi fyrir hér í almennri umræðu hvort það er ekki hægt að gera hlé á þessari umræðu þannig að við fáum tækifæri til að ræða við hæstv. fjmrh., jafnvel utan þingsalarins, til að afla okkur skýringa á því hvaða hugsanir og hugmyndir liggja þarna á bak við áður en umræðan heldur áfram. Ég hef engan áhuga á að tefja málið hér í ræðustól en mér finnst ekki hægt að halda áfram með þetta mál fyrr en við a.m.k., sem viljum hafa einhverja samfellu í afstöðu okkar til meðferðar fjármála og eigna ríkisins, höfum haft tækifæri til að ræða formlega í þingsal eða utan hans við hæstv. fjmrh. Þess vegna beini ég þeim tilmælum til forseta að þessari umræðu verði frestað.