Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 10:33:47 (2916)

[10:33]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 405 um frv. til laga um breytingar í skattamálum frá 1. minni hluta efh.- og viðskn.
    Nefndin hefur fjallað um málið og á fundi hennar komu fjölmargir aðilar sem ég ekki mun lesa upp hér því að það er á aðra blaðsíðu upptalning af gestum, en ég vil geta frá hvaða embættum og samtökum fulltrúar mættu á fund nefndarinnar. Það var frá fjmrn., embætti ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, Þjóðhagsstofnunar, ASÍ, BSRB, BHMR, VSÍ, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Sambandi veitinga- og gistihúsa, Flugleiðum, Íslandsflugi hf., Flugfélaginu Erni hf., Samtökum iðnaðarins, Stéttarsambandi bænda, búnaðarmálastjóra, Kaupmannasambandi Íslands, Bílgreinasambandi Íslands, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Íslenskri verslun, Verslunarráði Íslands, Íþróttasambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands, Byggðastofnun, Félagi íslenskra ferðaskrifstofa, Félagi raftækjasala, Samtökum landflutningamanna, Almenningsvögnum bs., stjórnarnefnd um almenningssamgöngur í Reykjavík og Ferðamálaráði Íslands

    Auk þess bárust nefndinni umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Almenningsvögnum bs., ASÍ, BHMR, BSRB, Ferðaþjónustu bænda, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Félagi íslenskra ferðaskrifstofa, Íslenskri verslun, ÍSÍ, Kaupmannasamtökunum, Kristmanni Magnússyni, Landssambandi smábátaeigenda, Neytendasamtökunum, Olíufélaginu hf., Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Skeljungi hf., Sambandi veitinga- og gistihúsa, Samtökum iðnaðarins, Samtökum landflutningamanna, stjórnarnefnd um almenningssamgöngur í Reykjavík, Trausta, félagi sendibifreiðastjóra, Verslunarráði Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og VSÍ.
    Fyrsti minni hluti efh.- og viðskn. mælir með samþykkt frv. með þeim breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þskj. nr. 406. Þessar breytingar eru helstar eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir þeirri breytingu að samlagsfélög með ótakmarkaða ábyrgð geti ekki verið sjálfstæðir skattaðilar. Breyting þess efnis er gerð á 1. og 10. gr.
    Í öðru lagi er lögð til leiðrétting á 3. gr. frv. þannig að greinin nái til allra sem starfa á vegum Stjórnarráðsins við sendiráð Íslands, en ekki aðeins starfsmanna á vegum utanríkisráðuneytisins.
    Um þessa grein sem verið er að breyta á þennan hátt segir að breytingin í frv. feli í sér að tekjur af því tagi sem getið er um í greininni verða framtalsskyldar og reiknast inn í tekjuskattsstofninn en frádráttur verður heimill skv. 30. gr. laganna og tekjurnar því í reynd áfram skattfrjálsar. Þess ber að geta að tekjur af þessu tagi munu skerða rétt manna til tekjutengdra bóta skv. 69. gr. laganna. Það byggir ekki síst á því að bótagreiðslur samkvæmt B og C-lið 69. gr. eru tekjutengdar og þykir eðlilegt að allar tekjur manna hafi áhrif við ákvörðun þeirra bóta. Með þessari grein frv. er ákveðið að breytingin nái til allra sem starfa á vegum Stjórnarráðs ekki einungis á vegum utanrrn.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að taka inn í 3. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, orðin ,,ábyrgðir`` og ,,lánveitingar`` og víkka ákvæðið þannig út frá því sem gilt hefur fram til þessa, en í ákvæðinu eins og það er í dag er aðeins talað um viðskiptaskuldir. Orðið lánveitingar er einnig tekið upp í 2. mgr. 5. tölul. 74. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Einnig er gerð tillaga um þá efnisbreytingu á lokamálsl. þess ákvæðis, að ,,aðrar lánveitingar sem beint tengjast atvinnurekstrinum`` falla einnig þarna undir.
    Þeir stafliðir sem bætast við hljóða svo:
    Samkvæmt b-lið á brtt. við 3. lið orðast 3. tölul. svo:
    ,,Tap á útistandandi viðskiptakröfum, ábyrgðum og lánveitingum sem beint tengjast atvinnurekstrinum á því tekjuári sem eignir þessar sannanlega eru tapaðar.
    Útistandandi viðskiptakröfur og lánveitingar, sbr. 1. mgr. í árslok, sbr. 2. mgr. 5. tölul. 74. gr., er heimilt að færa niður um allt að 5% og telja þá fjárhæð til frádráttar skattskyldum tekjum.``
    D-liðurinn er um að við 4. tölul. bætist ný málsgrein er orðast svo:
    ,,Sannanlega tapað hlutafé sem verðbréfasjóðir, skv. lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, og fjárfstingarfélög skv. 29. gr. laga nr. 9/1994 hafa fjárfest í á því tekjuári er hlutafé tapast.``
    Í fjórða lagi er kveðið á um að tekinn sé af allur vafi um að skattrannsóknarstjóra ríkisins beri í hvívetna að gæta ákvæða laga um meðferð opinberra mála í samskiptum sínum við þá aðila sem til rannsóknar eru, en þeirri reglu hefur verið fylgt í starfi hans hingað til.
    Í fimmta lagi er lagt til að loðdýrabændum sem fengið hafa niðurfærslu skulda hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins skv. lögum nr. 108/1992 og ríkisábyrgðasjóði verði heimiluð sérstök fyrning eigna sem tengjast loðdýrabúskap. Ákvæði þetta er sett inn vegna þeirrar tekjufærslu er til varð hjá umræddum aðilum við niðurfærslu skulda og geta þeir þannig fyrnt eignir að því marki að gjöld vegi upp tekjur.
    Í sjötta lagi er lagt til að 16. gr. falli brott. Sú grein var ekki lögð til sem efnisbreyting á lögunum heldur sett fram til að einfalda framkvæmd skattheimtu á fólksflutningafyrirtækjum sem njóta niðurgreiðslna opinberra aðila. Lagt er til að horfið verði frá þessari grein vegna ótta um að það kunni að verða túlkað íþyngjandi fyrir ýmsar opinberar stofnanir.
    Í sjöunda lagi er gert ráð fyrir þeirri breytingu á 18. gr. að flutningur á ökutækjum með ferjum, sem eru í beinum tengslum við fólksflutninga, verði færður niður í lægra skattþrepið eins og gildir um farþegana. Slíkt mun einfalda mjög alla skráningu og uppgjör. Þá er lögð til sú breyting á 30. gr. að hægt verði, með skriflegum samningi, að fela öðrum aðila að sjá um framtal, skil og uppgjör virðisaukaskatts. Í ljós hefur komið að verulegum erfiðleikum er bundið að fylgja hefðbundnum reglum vegna sérstakra viðskiptahátta og uppgjörsaðferða varðandi sölu flugfarseðla. Einföldun ákvæðisins felst í því að heimila flugfélagi að skila skattinum þó svo að sala fari fram í gegnum ferðaskrifstofur enda séu öll viðskipti tryggilega skráð í sölukerfi sem skattyfirvöld samþykkja.
    Í áttunda lagi er lagt til að 37. gr. verði felld brott, þannig að sömu reglur gildi sem hingað til um frádráttarbærni tryggingagjalds.
    Í níunda lagi leggur 1. minni hlutinn til að hætt verði við fyrirhugaða tolla á jurtaolíur, þar sem reikna má með að slík tollahækkun hafi óheppileg áhrif á samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda.
    Í tíunda lagi er lagt til að málningarvörur, einangrunarplast og þakpappi verði flutt úr 10% vörugjaldi í gjaldflokk 6% vörugjaldi í gjaldflokki A. Til að vega upp tekjutap ríkissjóðs vegna þessarar breytingar er lagt til að vörugjald af þeim vörum sem eftir standa í gjaldflokki B, þ.e. ýmsum byggingarvörum og snyrtivörum, hækki í 11% í stað 10%.

    Með þessu ákvæði er verið að koma til móts við og lækka vörugjald á þeim síðustu einingum innlendrar iðnaðarframleiðslu sem hefur haft íþyngjandi vörugjald á sinni framleiðslu.
    Í ellefta lagi er lagt til að lagfærð verði upptalning tollnúmera í gjaldflokki D í viðauka I við lög um vörugjald.
    Loks leggur 1. minni hlutinn til að við frv. bætist tveir nýir kaflar sem eiga rót sína að rekja til afnáms aðstöðugjalds sem tekjustofn fyrir sveitarfélög. Annars vegar kafli um breytingar á tekjugreinum laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands. Í stað aðstöðugjalds, sem var stofn til tekna til Útflutningsráðs er gerð tillaga um að tekið verði upp svokallað markaðsgjald sem lagt verði á veltu fyrirtækja. Sett er inn sérstakt ákvæði til að koma í veg fyrir að fyrirtæki velti þessu gjaldi beint út í verðlagið. Hins vegar er um að ræða nýjan kafla um breytingu á lögum nr. 36/1993, um kirkjugarða. Til að mæta tekjutapi kirkjugarða þjóðkirkjunnar vegna afnáms aðstöðugjaldsins er lagt til að kirkjugarðar fái í sinn hlut vissar fjárhæðir af innheimtu framangreinds markaðsgjalds.
    Undir nefndarálit þetta rita Rannveig Guðmundsdóttir, Guðjón Guðmundsson, Sólveig Pétursdóttir og Árni R. Árnason.