Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 12:55:21 (2920)


[12:55]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja það að víðast hvar eru tvö þrep í virðisaukaskatti þannig að það er ekki rétt sem maður gæti ætlað eftir að hafa hlustað á hv. þm. að það sé meginreglan.
    Í öðru lagi valdi ríkisstjórnin þá leið að reyna að koma á stöðugleika hér og vinnufriði sem við höldum og ég vona að við deilum ekki um það, ég og hv. þm., að það er nauðsynlegt til þess að við getum unnið okkur út úr þeim vandamálum sem við erum stödd í.
    Í þriðja lagi vil ég minna á það að í vor man ég ekki betur en forustumaður Framsfl., reyndar ekki sá sem flutti hér tölu, hafi lýst því yfir að hann væri ánægður með það að gerðir voru þessir samningar og ég veit ekki betur en það hafi m.a. verið byggt á því að í samþykktum Framsfl. var á þeim tíma a.m.k. yfirlýsing sem fól í sér að Framsfl. styddi tvö þrep í virðisaukaskatti.