Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 15:38:35 (2928)


[15:38]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það vekur áreiðanlega mesta athygli í umræðunum hér í dag, þessar deilur Alþb. og Framsfl. Ég ætla að leiða þær hjá mér að sinni, en það eru staðhæfingar sem komu fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns sem reka mig hingað í stólinn. Í fyrsta lagi virðist hv. þm. vera nokkuð viðkvæmur fyrir samanburði á skattahækkunum þessarar ríkisstjórnar og þeirrar fyrri og hann sagði, að sú ríkisstjórn sem nú situr hefði ekki lækkað skatta. Ég vil minna hann á að jöfnunargjaldið sem var hækkað í tíð fyrri ríkisstjórnar var aflagt nú og ég vil einnig minna á að það er verið að lækka skatt stórkostlega núna og gjaldeyrisskatturinn var lækkaður á sínum tíma.
    Loks sagði hv. þm. að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði lækkað jafnmikið 1988--1991 og 1991--1994 og það er alveg hárrétt. Það er sama lækkun ráðstöfunartekna sem á sér stað þessi ár, en munurinn er sá að kaupmáttur þjóðarteknanna lækkaði um 2,5% á mann 1988--1991, en um 10% 1991--1994. Með öðrum orðum, kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur nú á tíma þessarar ríkisstjórnar lækkað jafnmikið og kaupmáttur þjóðartekna á mann, en hjá fyrri ríkisstjórn lækkaði kaupmáttur ráðstöfunartekna fjórum sinnum meira en kaupmáttur þjóðartekna á mann. Þetta eru staðreyndir sem ég vildi koma til skila, en það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að hið háa kaupmáttarstig 1987 á auðvitað þátt í þessu. En það þarf að halda öllum tölum til haga til þess að samanburður komist réttur út úr þessari mynd.