Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 15:43:09 (2931)


[15:43]
     Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er náttúrlega ekkert svigrúm til að fara út í ráðstöfun ríkisútgjalda og viðamikla umræðu um þetta. Hitt er auðvitað ljóst, og hæstv. fjmrh. veit það, að hér er að nokkru leyti skollaleikur á ferðinni vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur dulbúið talsvert af sköttum í formi hækkunar á ýmiss konar gjöldum sem ekki eru flokkuð sem skattar í þessum skilningi. Og það er auðvitað ekki fyrr en þau kurl eru komin til grafar sem við fáum endanlegan og raunhæfan samanburð á þessu öllu saman. Samt er það svo að gagnrýni mín á hæstv. ríkisstjórn hefur ekki verið í raun hækkun skattanna heldur tilfærsla skattbyrðinnar, eins og ég vænti að hæstv. fjmrh. geti staðfest. Ég hef fyrst og fremst fjallað um og verið mikið umhugsunarefni þessi gífurlega tilfærsla skattbyrði yfir á almenning og ég viðurkenni að það eru ekki þær aðstæður í ríkisfjármálum á Íslandi að við getum talað af einhverju raunsæi um lækkun skatta. Auðvitað ekki. Það er ekki málið, heldur hitt hverjir bera skattana og hvernig byrðunum er dreift.