Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 15:45:48 (2933)


[15:45]
     Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Austurl. fyrir þessar upplýsingar og í raun og veru var það nú svo að ég dró í sjálfu sér ekki í efa að um þetta mál væri samstaða í Framsfl. Ég fékk hér frammíkall þar sem nafn formanns Framsfl. bar á góma og ég játaði því þá eða viðurkenndi að mér hefði oft orðið hugsað til hans undanfarna daga. Annað var það nú ekki sem hann dróst inn í þessa umræðu.
    Og svo efnislega um brtt. 2. minni hluta, þá hef ég þegar sagt að á þeim er á mjög margan hátt geðþekkur svipur. Að sjálfsögðu er það svo að með þeim ráðstöfunum sem þar eru lagðar til til hliðar við niðurgreiðslur á matvælum eins og hækkun barnabóta og öðru slíku, þá ná menn fram ágætis tekjujöfnunarárangri. Ég viðurkenni það. Ég tel að hvorar tillögurnar sem heldur eru, 2. minni hluta og 3. minni hluta, hafi á sér mjög gott tekjujöfnunarsnið. Þær nálgast málið hins vegar að einu leyti frá mismunandi sjónarhóli og það er þetta, að í mínum tillögum er gert ráð fyrir að lækkun matvælanna verði í gegnum lægra skattþrep, en í tillögum hv. þm. og 2. minni hluta er gert ráð fyrir að það verði með niðurgreiðslum.