Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 15:51:35 (2938)


[15:51]
     Frsm. 4. minni hluta efh.- og viðskn. (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort það boðar eitthvað, en hv. þm. Halldór Ásgrímsson talaði hér fyrstur og talaði þá fram að matarhléi. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði næstur og talaði þá fram að kaffi. Er þá ætlast til þess af mér að ég tali fram að kvöldmatarhléi?
     (Forseti (SalÞ): Forseti ætlast ekki til þess.)
    Nei, ég skal verða við þeim óskum forseta, enda stóð það ekki til.
    Ég vil aðeins segja út af orðaskaki hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og fjmrh. vegna skattamála, að ég get auðvitað tekið undir með hv. þm. Ég er ekkert feiminn við að viðurkenna það að álögur á fólk hafa verið stórlega auknar. Hvort sem menn nota orðið skattur eða nota orðið gjöld þá er það sem kemur úr pyngju fólksins í landinu mælikvarðinn á það hvað álögurnar hafa þyngst mikið. Þannig að ég tek alveg undir það að skattþol hins almenna borgara er spennt í botn og það fyrir löngu síðan, enda sjáum

við fréttir sem birtast í sjónvarpinu á þessum dögum. Til að mynda berast myndir frá mæðrastyrksnefnd þar sem ásóknin hefur aldrei verið meiri heldur en einmitt þessa dagana. Einhverjar skýringar eru á því. Það er vegna þess að staða fólks er miklu verri heldur en hún hefur verið um árabil. Það er einhver skýring á því sem fram kom á fundi þingmanna Reykjavíkur með borgarstjórn að það er hvorki meira né minna en 8% af íbúum Reykjavíkur sem þurfa að leita á náðir félagsmálastofnunar. Það segir okkur auðvitað sína sögu. Og það segir líka sína sögu, að skuldir heimilanna eru orðnar 120% af ráðstöfunartekjum. Þær eru komnir yfir 200 milljarða. Þetta hlýtur að segja okkur það að skattþolið er spennt til hins ýtrasta og fólk þolir ekki meira. Þær tilfærslur sem verið hafa frá fyrirtækjum yfir á einstaklinga eru löngu komnar í botn.
    Það sem alvarlegra er er að nú er verið að snúa til baka. Nú er verið að færa aftur yfir á fyrirtækin. Það er gert í formi tryggingagjalds sem er núna hækkað og það er gert í formi hins nýja veltuskatts sem heitir markaðsgjald og ég vil kalla upphafið að nýju aðstöðugjaldi. Þannig að menn eru að fara til baka. Það er búið að velta yfir á einstaklingana, nú snúum við ofan af og förum til baka yfir á fyrirtækin. Þetta er sniðug brella, en hún er ekki skynsamleg.
    Lokaorð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér áðan voru þau að hann væri reiðubúinn til að beita sér fyrir því, á hvern þann hátt sem hægt væri, að hverfa frá því að leggja skatt á ferðaþjónustu og samgöngur. Undir það tek ég með hv. þm. og það var aðalástæðan fyrir því að ég gat ekki orðið samferða meiri hluta efh.- og viðskn., eins og fram kemur í áliti mínu.
    Ég vil aðeins rifja upp að við 1. umr. sagði hv. formaður nefndarinnar að það mætti engu breyta í þessu máli, þetta væri allt niðurnjörvað og það yrði svona til málamynda til umræðu í hv. nefnd í 2--3 daga, ef ég man orðrétt hvernig hann tók til máls. Ég held að hugur hafi ekki alveg fylgt máli þarna því það bandalag sem formaður nefndarinnar og varaformaðurinn gerðu um þann sérstaka þátt frv. að breyta matarskattinum svokallaða var með eindæmum. Ég hef ekki upplifað annað eins síðan ég kom hér inn á þing 1987 og hef þó setið í þessari nefnd allan tímann. Ég hef aldrei upplifað annað eins bandalag og það má segja að öll umfjöllun í nefndinni hafi nánast verið um þennan eina þátt og hvernig væri hægt að vinda ofan af því, með ráðum og dáðum, þannig að menn voru jafnvel kallaðir inn aftur á síðustu stundu til þess að skoða brtt. frá minni hlutanum. Ég minnist þess aldrei að það hafi skeð, bara aldrei.
    Ég hef heldur ekki setið undir þeim stóryrðum sem hafa verið inni í nefndinni um afstöðu þeirra sem höfðu aðra skoðun á málinu heldur en þessara tveggja. Það voru engin smáyrði, það voru gífuryrði. Það voru gífuryrði um hversu vitlaust þetta allt væri. Og hvernig gagnálykta menn þá út frá slíkum málflutningi? Jú, auðvitað í þá veru að skoðun hinna sé einskis virði, hún sé bara vitlaus. Ég er oft á öndverðum meiði við félaga mína og aðra, en ég virði þeirra skoðanir og ég nota ekki gífuryrði um þær. En ég get verið fastur fyrir á mínum skoðunum og það er akkúrat það sem er í þessu máli. Þetta er mál sem ég hef barist gegn allt frá því að ég kom hér inn og matarskatturinn svokallaði var settur á undir því nafni í það minnsta, og þar áttum við samleið, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Og við leyfðum okkur að láta fólk skilja það að við dinglum ekki eins og flagg eftir vindi eða eitthvað slíkt, eftir því hvernig vindar blása í þjóðfélaginu. Við segjum ekki eitt í dag og annað á morgun eins og Framsfl. gerir nú. Við leyfum okkur að halda okkar skoðunum, vera trúir okkar stefnu og um það á ekkert að hafa nein gífuryrði. Það er bara okkar skoðun og það er það sem við teljum rétt. En hvort Framsfl. berst gegn því að matarverð verði lækkað í landinu er hans mál og ef hann vill fara með það inn í sína kosningabaráttu að matarreikningur heimilanna í landinu megi ekki lækka, heldur komi með sína tillögu um eitt þrep, sem mun ekki valda þeirri lækkun sem tvö þrepin munu hafa, þá er það auðvitað hans mál. Og það eru gleðitíðindi fyrir sjálfstæðismenn því að við höfum orðið varir við það svolítið að undanförnu að Framsfl. hafi verið að auka fylgi sitt þó að það hafi aðeins dalað að undanförnu. En guð hjálpi þeim ef þeir ætla með þessa stefnu inn í kosningabaráttuna fyrir utan trúverðugleikann með sína samþykkt, sem ég mun vitna hér aðeins í á eftir.
    Þessi vinnubrögð í nefndinni fannst mér svolítið sérstök. Ég hef alltaf álitið að menn væru að kalla eftir umsögnum, hvort sem þær eru skriflegar eða munnlegar, til þess að víkka sjóndeildarhringinn. Menn færu ekki með því hugarfari í nefnd að það mætti engu breyta. Ég hef alltaf litið þannig á að þetta væri til þess að víkka sjóndeildarhringinn og eftir að umsagnaraðilar hafa skilað sínum umsögnum, munnlegum eða skriflegum, þá mundu menn leggja mat á málið, þegar þeir eru búnir að sjá það frá öllum hliðum. Það virðist því miður ekki vera svo.
    Það hefur ítrekað komið fram í nefndinni að ASÍ og VSÍ séu búin að ákveða þetta mál og ríkisstjórn að sjálfsögðu. Ég hef aldrei afhent ASÍ eða VSÍ mitt atkvæði hér á þingi, aldrei og mun aldrei gera. Ef kjarasamningarnir hefðu hins vegar verið bornir undir þingflokk áður en þeir voru samþykktir, þá hefði maður að sjálfsögðu verið bundinn af því. En úr því að það var ekki gert, þá er engan veginn hægt, alla vega vil ég ekki framselja atkvæði mitt í hendur þessara manna.
    Nú er komið svo langt að í annarri hv. nefnd, sem ég á sæti í, er vitnað til þess að meira að segja biskup sé búinn að samþykkja eitthvað. Maður spyr sig bara: Hvert er löggjafarvaldið að fara? Er það að yfirgefa þennan sal? Er það alfarið að fara yfir til ASÍ og VSÍ, biskups eða bara KSÍ? Hvar endar löggjafarvaldið? Ég mótmæli svona afstöðu manna sem fram hefur komið og afsali á sínu atkvæði og láta það koma fram við gesti inni í hv. nefnd að þeir hafi bara engin tök á málinu, þetta sé bara farsi sem þurfi að klára. Mér finnst þetta ekki boðleg vinnubrögð. Mér þykir vænt um sjálfstæði mitt sem þingmanns og mitt

atkvæði og ég vil ráðstafa því eftir minni samvisku en ekki eftir samvisku einhverra annarra aðila, ASÍ, VSÍ, biskups eða hvað sem það er.
    Virðulegi forseti. Ég skilaði hér stuttu áliti. Áður en ég kem að því vil ég aðeins líta á nefndarálit 3. minni hluta vegna þess að ég tek undir það sem þar kemur fram í upphafi og vil fá að lesa fyrstu línurnar, með leyfi forseta:
    ,,Minni hlutinn vill í upphafi átelja þau vinnubrögð sem núv. ríkisstjórn hefur nánast gert að reglu og felast í því að leggja flest mál fyrir þingið í formi bandorma þar sem ægir saman ákvæðum úr mörgum mismunandi lögum. Þetta frv. er þar engin undantekning því að þar er vafið saman í einn gorm ákvæðum til breytinga á eftirtöldum lögum:`` Síðan kemur hér upptalning á einum sjö lögum sýnist mér og síðan segir í áframhaldi, með leyfi forseta:
    ,,Engin haldbær skýring hefur verið gefin á þessum vinnubrögðum og má því ljóst vera að ef slíkur sóðaskapur við framlagningu mála líðst óátalinn og festist í sessi þegar ekkert sérstakt kallar á að menn stytti sér leið er illa farið.``
    Ég hlýt að taka undir þetta. Þetta hlýtur að koma niður á vinnubrögðum nefnda. Það getur ekki gert annað. Ég tel að þegar svona er gert og mál eru lögð með þessum hætti fyrir, þá skeður nákvæmlega það sem skeði inni í hv. efh.- og viðskn. Það skeður að umræðan ,,sentralíserast`` á eitthvert eitt tiltekið mál. Það er hættan við það að leggja frumvörp fram í bandormi. Það kemur niður á vinnubrögðum og það þýðir að vinnubrögðin verða verri fyrir bragðið. Hefur nú sumum þótt þau ekki alveg nógu góð þó að þetta komi ekki til viðbótar. Ég tek því undir þá gagnrýni að menn eiga að hverfa frá þessari stefnu. Menn eiga yfir höfuð að leggja metnað sinn í það að nefndastarf og löggjafarstarfið í heild sinni sé unnið með sem bestum hætti.
    Það nefndarálit sem ég stend að og er frá 4. minni hluta efh.- og viðskn. er stutt og það segir kannski töluvert um hug minni hlutans. Ég ætla því í ljósi þess að menn gefa sér góðan tíma að fá að lesa það upp, með leyfi forseta:
    ,,Einn helsti vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs síðustu árin hefur verið í ferðaþjónustu og hafa, að minnsta kosti hingað til, verið bundnar miklar vonir við hana. Gjaldeyristekjur sem þessi atvinnuvegur skilaði til þjóðarbúsins á síðasta ári jókst um 2,500 millj. kr. Áætluð neysla erlendra ferðamanna innan lands árið 1992 var metin á 7,4 milljarða kr. og fer upp í 8,3 milljarða kr. á þessu ári. Tekjur ríkisins af ferðaþjónustu eru því á bilinu 1--2 milljarðar kr. á ári. Það er álit 4. minni hluta að í þessari atvinnugrein liggi gífurlegir vaxtarmöguleikar sem ekki megi kasta fyrir róða. Í þeirri stöðu, sem atvinnulífið er í, er það auðvitað hreint glapræði að ráðast til atlögu við greinina. Miklu nær væri að vernda hana og styrkja. Ekki veitir af í þeirri hörðu samkeppni sem þessi iðnaður á í við erlenda samkeppnisaðila. Sú hækkun, sem fyrirhuguð skattlagning mun leiða af sér, mun trúlega draga úr komum erlendra ferðamanna til landsins og því draga úr gjaldeyristekjum, auka atvinnuleysið og setja rekstrargrundvöll aðila í greininni í verulega hættu. Það er því skoðun 4. minni hluta að þessi skattlagning muni snúast upp í andhverfu sína og leiða til stjórtjóns fyrir þjóðarbúið en ekki til tekjuauka. Með hliðsjón af þessu telur 4. minni hluti ekki stætt á öðru en leggja til að þessi þáttur frv. verði felldur. 4. minni hluti mun hins vegar ekki flytja neinar breytingartillögur við frv. en styður fram komnar breytingartillögur við þennan þátt þess.
    Virðisaukaskattur á innanlandsflug er vanhugsuð aðgerð og hefur sá skattur með réttu verið kallaður landsbyggðarskattur, enda liggur það í augum uppi að hann leggst þyngst á þá sem lengst búa frá höfuðborginni. Auk þess er þarna um að ræða stóraukna skattlagningu á íþróttahreyfinguna í landinu þar sem fáir nota innanlandsflugið meira en íþrótta- og ungmennahreyfingin. Þá mun þessi skattur tvímælalaust veikja stöðu innlendrar ferðaþjónustu og virka sem hvati til utanlandsferða. Það hefur verið upplýst á fundum nefndarinnar að líkleg afleiðing skattlagningarinnar er niðurfelling flugs til ákveðinna staða, t.d. Sauðárkróks, þannig að ljóst er að ekki einungis mun þjónustan hækka stórlega heldur verður hún stórlega skert.
    Fjórði minni hluti leggst gegn breytingartillögu 1. minni hluta um upptöku markaðsgjalds. Tekjur af því gjaldi eiga að renna til Útflutningsráðs. 4. minni hluti telur að aðilar að Útflutningsráði eigi að bera þann kostnað en ekki aðrar óskyldar atvinnugreinar. Markaðsgjaldið er veltuskattur sem leggst á allar atvinnugreinar í landinu. Því vaknar spurning um hvort aðstöðugjaldið sé að ganga aftur.
    Fjórði minni hluti styður upptöku tveggja þrepa virðisaukaskatts á matvæli enda hefur hann frá upphafi barist gegn matarskattinum. Sá frestur, til áramóta, sem gefinn er til að aðlaga sig hinu nýja kerfi, er á hinn bóginn allt of stuttur og styður 4. minni hluti því breytingartillögu 3. minni hluta um frestun á upptöku þessa nýja þreps um tvo mánuði þótt æskilegra væri að lengri frestur væri gefinn. Að lokum skal bent á að allur undirbúningur varðandi upptöku þessa skatts hefur verið í molum hjá ríkisstjórn, fjmrn. og skattyfirvöldum. 4. minni hluti lýsir fullri ábyrgð á því hvernig til tekst með framkvæmdina á hendur þessum aðilum.``
    Virðulegi forseti. Þetta var það álit sem 4. minni hluti leggur fram. Ég vil aðeins fá að tæpa á nokkrum atriðum, þ.e. ferðaþjónustuþættinum, matarskattinum svokallaða, 19. gr. frv., bifreiðagjöldum og markaðsgjaldi.
    Eins og kom fram í nefndaráliti 4. minni hluta og allir vita auðvitað er einn helsti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi í dag í ferðaþjónustunni. Það er því hlálegt og reyndar grátlegt ef menn ætla að fara að stuðla að því að kippa rekstrargrundvellinum undan þessari grein. Við munum með skattlagningu

stefna þeirri uppbyggingu, sem staðið hefur verið í nú um nokkurn tíma og er að skila ríkulega til þjóðarbúsins, í hættu. Við erum allt of háð því að tekjur þjóðarinnar koma úr einni körfu. Við erum með nánast öll eggin í einni körfu. Sú karfa geymir sjávarútveginn okkar.
    Hér í nótt vorum við að samþykkja mótmæli við opnun kjarnorkuverksmiðju. Hvað mundi nú gerast ef þar yrði slys og mikið magn slíkra efna rynni út í sjó og bærist á miðin okkar? Það sem mundi gerast væri það að íslenskt þjóðfélag mundi leggjast gersamlega í rúst því að margfeldisáhrifin af slíku væru ekki bara í sjónum heldur næðu inn á matvælaframleiðsluna í landi líka. Að vera með öll eggin í eini körfu er auðvitað ekki viðunandi ástand. Við erum búin að vera í þessari stöðu alla tíð, en við höfum verið meðvituð líka alla tíð. Nú erum við með tækifæri í atvinnugrein sem skapar miklar tekjur, geysilegar gjaldeyristekjur og fer vaxandi ár frá ári þó að um mjög harða samkeppni sé að ræða. Þá ætlum við að fara að leggja það til að skattleggja þjónustuna og gera henni erfiðara fyrir og taka þá áhættu að hún missi fótanna.
    Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur þeim sem að slíkri skattlagningu standa. Ég tel að hún sé röng og ég tel að hún muni snúast upp í andhverfu sína. Það verður tekjutap en ekki tekjuaukning af slíkri skattlagningu.
    Hins vegar má gagnrýna það hvernig menn ætla að fara að því að framkvæma þetta. Inni í ferðaþjónustunni eiga að vera þrjú þrep og þau flækjast hvert fyrir öðru og framkvæmdin er mjög óljós. Nefndinni hefur verið bent á fáránleika þessa kerfis ef það verður tekið upp. Það hefur verið bent á að það er mismunandi hvort það er virðisaukaskattur á t.d. hestaleigu. Ef 3--4 menn fara í útreiðartúr saman á leiguhesti, þá borga þeir ekki vask en ef þeir bæta einum manni við sem er leiðsögumaður, þá er kominn vaskur á það. Það er mismunandi skattlagning á því eftir því hvort bátur er 6 metrar eða meira eða undir 6 metrum. Það er mismunandi skattur eftir því hvort menn kaupa sér veiðileyfi, gistingu og fæði eða hvort menn kaupa sér gistingu, veiðileyfi og fæði. Þarna er auðvitað fáránleikinn í sjálfu sér. Hann birtist í þessu. Ég er hræddur um það að með slíkri skattlagningu muni draga úr komu erlendra ferðamanna hingað. Ég er nokkuð viss um það vegna þess að þessi samkeppnisheimur er mjög harður og ég tel að það sé alveg á mörkunum hvort menn koma hingað eða ekki. Þessi hækkun þó að hún sé ekki mjög mikil í prósentum talið getur riðið baggamuninn. Og það er áhætta sem við eigum ekki að taka. Það er búið að leiða hv. nefnd það fyrir sjónir að þetta er óskynsamleg ráðstöfun. Þá kem ég aftur að því sem ég sagði áðan, að eftir að hafa hlustað á aðila og fengið rök í málum, þá eiga menn að meta þau. Og mitt mat eftir það, og var reyndar áður en ég styrktist í minni trú og skoðun, er það að þetta er rangt.
    Afleiðingarnar geta auðvitað líka orðið þær að atvinnuleysi eykst því að störf tengd ferðaþjónustunni verða þá í hættu. Ég hefði talið að staða atvinnumála hér á landi væri ekki það beysin að menn ættu að taka slíka áhættu.
    Virðsaukaskattur á innanlandsflug hefur verið hér nokkuð til umræðu. Ég vil ekki vera að endurtaka of mikið það sem menn eru að segja. Ég lít á þetta eins og aðrir sem landsbyggðarskatt og auðvitað er það það. Auðvitað er það fyrst og fremst landsbyggðin sem notar flugið. Hér hefur Grímsey verið nefnd. Það má líka nefna Vestmannaeyjar. Þessi skattur ætti kannski ekki að heita landsbyggðarskattur. Hann ætti að heita Vestmannaeyjaskattur. Það væri ágætt að heyra hér í fulltrúum Suðurlands og ég tala nú ekki um hvernig þingmaðir Vestmanneyinga lítur á það. Ég segi fullum fetum: Þetta er alveg sérstakur skattur á Vestmanneyinga og Grímseyinga. Þeir einir hafa enga völ. Þeir keyra ekki. Göngin út í Vestmannaeyjar eru ekki komin enn þó þó að tillaga hafi verið lögð fram um slíkt.
    Ég veit hvernig íþróttahreyfingin er stödd. Ég veit hvernig íþróttafélögin úti í Vestmannaeyjum eru stödd. Ég veit að þetta verður mjög þung byrði á þau og sá skattur sem leggst á hreyfinguna í heild er sennilega meiri en það framlag sem kemur úr ríkissjóði til íþróttahreyfingarinnar þannig að framlagi frá ríkissjóði er bara þurrkað upp með einni ákvörðun. Svo koma menn iðulega á tyllidögum opnandi íþróttahús eða íþróttamót eða takandi á móti hetjum frá útlöndum og blása sig út hvað þeir eru velviljaðir í garð íþróttanna. Stundum eiga þeir pening ef unnin hafa verið einhver afrek. Það kannast allir við það þegar hlaupið er út á flugvöll til að taka á móti einhverju afreksfólki. Þá er allt í einu til peningur í vasanum. Ég segi það að hugur manna er ekki hreinn. Menn eru ekki að koma fram eins og þeir eru klæddir, ekki í garð íþróttanna. Það er alveg á hreinu. En þegar árangur næst, þá vilja menn eiga öll bein í öllum mönnum og eigna sér alla hluti. En svo geta þeir komið og lagt sérstakan skatt á íþróttahreyfinguna. Og það sem meira er. Hér er meira að segja í umræðunni að það eigi að koma fram tillaga um að auka framlagið til stjórnmálaflokkanna á sama tíma og mörgum góðum málum er vísað frá. Framlagið sem talað er um til stjórnmálaflokkanna er hærra en sértekjurnar vegna áfengissjúkra. Það er hærra en sjúkragjaldið. Það er greinilega ekki sama hver er eða hvað er.
    Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvernig framkvæmdin á virðisaukaskatt á flug á að vera. Ef aðili kaupir miða erlendis, þá er hann virðisaukaskattslaus ef hann flýgur til Íslands og eina ferð innan lands. Hann má sem sagt kaupa sér miða segjum Lúxemborg--Keflavík, Keflavík--Akureyri og til baka á 24 tímum. Hver á að skila þessum vsk. inn? Er það erlenda ferðaskrifstofan sem selur miðana úti í Lúxemborg? Telja menn að það sé hvati að hafa þessa 24 tíma þarna á? Ef menn vilja nú ferðast aðeins meira um landið, taka 2--3 daga, þá birtist þeim allt annað kerfi. Þá er allt í einu kominn virðisaukaskattur á. Ef menn ætla að halda við svona ákvæði, þá á auðvitað allur pakkinn sem seldur er erlendis að vera án virðisauka.

Hann á ekki að vera letjandi á ferðamenn til landsins. Hann á að vera hvetjandi ef eitthvað er.
    Menn hafa það auðvitað fyrir sér hvað flug hækkar. Ég held að ég hafi séð það í Vikublaðinu í dag, eða hvenær sem það kom út, að með virðisaukaskatti hækkar flug til Egilsstaða upp í 18.400 kr. Það hefur kannski verið komið inn á þetta hér í dag. Ég hef kannski ekki hlustað það grannt eftir því. En ég held að menn viti alveg hvað kostar t.d. að fljúga til Dublin, Newcastle, London, Amsterdam, Glasgow þegar sértilboðin eru í gangi. Það rétt losar 20 þús. kr. með þremur nóttum og morgunverði á ágætum hótelum. Og hvað halda menn nú, sérstaklega fyrir Reykvíking, sem ætlar að meta það hvað hann ætlar að gera ef hann vill fá smátilbreytingu með sínum maka t.d. og vill bregða sér frá í þrjá daga. Hann lítur á verðskrána og segir: 18.400 kr. til Egilsstaða, 21--23 þús. kr. til London og innifalið hótel og morgunmatur í þrjá daga. Hvert halda menn að þessi aðili fari? Hann fer að sjálfsögðu erlendis vegna þess að það er mikið ódýrara og það er meiri tilbreyting og það eru meiri möguleikar til verslunar og það mun ég koma inn á hér á eftir seinna. Þessi skattlagning mun því verða til þess að auka utanferðir. Ferðir til Egilsstaða, Akureyrar og annað slíkt detta hreinlega niður.
    Í Tímanum í dag er viðtal við ferðamálastjóra um virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Ég ætla að glugga í þá grein. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Innheimta virðisaukaskatts sem leggst á ferðaþjónustu um áramótin gengur tæplega upp að mati Magnúsar Oddssonar ferðamálastjóra. Hann segir að innheimta skattsins verði mjög flókin og bjóði upp á margar leiðir til undanskota. Magnús segir að verið sé að mismuna greinum og tekur sem dæmi að maður sem tekur sér far með rútu komi til með að greiða 14% skatt. Fari hann sömu leið með bílaleigubíl borgar hann 24,5% skatt, en fari hann þessa leið með leigubíl borgi hann engan skatt.
    Magnús Oddsson ferðamálastjóri segir að helsta röksemdin gegn skattinum sé sú áhætta að aukin skattheimta dragi úr vexti greinarinnar. Hann segir að auk þess hafi forsvarsmenn Ferðamálaráðs áhyggjur af framkvæmdinni sem þeim virðist að geti ekki gengið upp. ,,Ferðaþjónustan lendir eftir áramót í þremur skattþrepum, 0%, 14% og 24,5%. 14% skattur er lagður á línuna, en þeir þættir sem áður báru skatt verða áfram með 24,5% álagi. Að lokum eru ýmsar undantekningar frá skattinum og þeir þættir bera því 0% skatt.``
    Magnús segir að þessi mismunandi skattþrep kalli á mikið eftirlit skattyfirvalda og auk þess hafi Ferðamálaráð áhyggjur af því hvernig rekstrarskilyrði þjónustuaðila skekkist eftir því í hvaða skattþrepi þjónusta þeirra lendi.``
    En af hverju ætti skattheimtan ekki að ganga upp? Magnús tekur nokkur dæmi um framkvæmdina. Síðan fer hann hér yfir dæmið með bílaþáttinn. Að því loknu segir:
    ,,Í innanlandsflugi er þetta enn flóknara því að þar leggst enginn vaskur á flugfar þeirra sem eru að fljúga beint til eða frá útlöndum en á annað innanlandsflug leggst 14% skattur. 24,5% vaskur leggst á mat á veitingahúsum, en eftir áramót verður hann 14% af sama mat í verslunum. Á gistingu verður lagður 14% vaskur en þar eru orlofshús undanþegin og eins gisting í veiðihúsum. Þá er litið svo á að verið sé að kaupa veiðileyfi með gistingu innifalinni og veiðileyfin eru undanþegin skatti. Leiga á búfénaði er undanþegin skatti þannig að ef ég leigi mér hest í tvo tíma borga ég engan vask en ef bóndinn fer með mér borga ég 14% vask fyrir skoðunarferð og svona má lengi telja.
    Magnús segist óttast að menn muni leita ýmissa leiða til að losna við eða lækka skattinn. ,,Það kæmi mér ekki á óvart þótt hægt yrði að kaupa veiðileyfi með gistingu víða um land næsta sumar. Eins má gera því skóna að fáar hestaleigur bjóði þjónustu sína næsta sumar, en víða verði hægt að leigja hesta. Mér dettur líka í hug hvort bændasamtökin geti ekki gert Hótel Sögu að orlofsheimili bænda`` segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri.``
    Þarna fer Magnús reyndar yfir nokkur af þeim dæmum sem ég hef áður minnst á, en niðurstaðan af þessari upplesningu er fyrst og fremst sú hversu fáránleg þessi skattlagning er og hversu fáránlegt kerfið á að verða.
    Á fund nefndarinnar kom aðili frá Félagi raftækjasala. Hann var að tala þar máli síns félags að sjálfsögðu og var að benda á gjöld sem lögð voru á saumavélar fyrir allnokkru síðan og áttu að vera til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Niðurstaðan varð þveröfug og því tek ég þetta dæmi hér að ég tel að nákvæmlega það sama muni gerast í ferðaþjónustunni að niðurstaðan verði öfug. Árið 1986 hafði ríkissjóður tekjur af þessum innflutningi upp á 22 millj. Árið 1990 voru tekjurnar komnar niður í 10 millj. Þetta dæmi sýnir alveg í hnotskurn hvernig vopnin geta snúist í höndum okkar. Það fylgir texti og nánari rökstuðningur fyrir þessu hér sem ég ætla að geyma mér til seinni umræðna. Mér skilst að ég eigi möguleika á að tala tvisvar í viðbót.
    Ég minntist aðeins á áðan hvaða afleiðingar virðisaukaskatturinn á innanlandsflug hefur á íþróttahreyfinguna. Ég vil ítreka það að hér er um stórhættulega stefnu að ræða vegna þess að hún mun fyrst og fremst bitna á yngra íþróttafólki hvort sem það eru einstaklingsíþróttir eða félög eða flokkaíþróttir. Það mun fyrst og fremst bitna á því og það mun þá bitna á því uppeldisstarfi sem íþróttirnar eru. Það mun vega að rótum íþróttahreyfingarinnar úti um allt land því að það eru ekki nema sárafá félög sem virkilega standa undir sjálfum sér í dag. Íþróttahreyfingin öll á í miklum fjárhagsörðugleikum og má síst af öllu við þessu. Og af því að fulltrúi Kvennalistans gengur nú hér fram hjá, þá er það mat íþróttahreyfingarinnar að þetta muni hafa mjög alvarleg áhrif á íþróttir kvenna. Því miður er það mat þeirra, að það muni bitna fyrr á þeim

en á karlmönnunum. ( Gripið fram í: Ekki að spyrja.) Ekki að spyrja.
    Í 1. umr. benti ég á þegar við vorum að ræða virðisaukaskattinn að það væri hægt að gera út á virðisaukaskatt og fyrir því væru óyggjandi dæmi að menn í verslun mynduðu minni útskatt en innskatt og fengju því endurgreiðslur úr ríkissjóði þegar þeir ættu í raun og veru að greiða virðisaukaskatt. Ég ætla ekki að fara aftur með það dæmi sem ég var með þá. Ef einhverjir hafa áhuga á geta þeir flett upp á því, en ég hef ekki orðið var við mikinn áhuga. Ég hef minnst á þetta í efh.- og viðskn. bæði á sl. ári og einnig núna við fjmrn. og þar nánast hrista menn hausinn. Menn gera sér grein fyrir þessu en vilja ekki taka á því. Það er auðvitað fáránlegt að svo komi menn og noti sýknt og heilagt það að skattsvik séu upp um alla veggi í þjóðfélaginu. Og síðan þegar þeim er bent á ákveðna glufu í kerfinu sem á að vera hægt að loka, þá hrista menn hausinn, sennilega af því að hún hefur ekki milljarðatöluna fyrir aftan sig. Ég tel þetta ekki stórt mál peningalega en þetta er gat og gat sem er nýtt.
    Skattsvikaumræðan öll er náttúrlega með eindæmum því að hún virðist öll snúast um það að skattsvik á Íslandi sem eiga að vera eitthvað um 11 milljarðar ef ég man þetta rétt, séu fyrst og fremst og nánast aðallega í þjónustu, iðnaði og verslun og þessar atvinnugreinar eru stimplaðar. Fólk er matað á því að þarna séu ekkert annað en skattsvikarar. Af hverju líta menn ekki á landbúnaðinn t.d.? Halda menn að þar séu ekki stunduð skattsvik? Halda menn að þar sé ekki selt fram hjá, hvort sem það er sauðfé, nautakjöt, hvítt kjöt, grænmeti, hrossaútflutningur eða blómarækt? Ég er alveg klár á því að þeir eru engu betri. En hér inni má ekki tala um landbúnað á þessum nótum. Það má ekki gera það. Ég held að það væri nær að skipuð væri sérstök nefnd sem hefði það verkefni að skoða skattsvik og undanskot í landbúnaði og í sjávarútvegi. Þessar tvær greinar eru ekki betri en hinar og sennilega verri eitthvað er. Hver hefur ekki fengið upphringingu á dyrabjölluna hjá sér og verið boðinn fiskur, rækjur, hörpudiskur, harðfiskur og meira að segja ferskur fiskur? Hafa menn fengið nótu fyrir þessu með virðisaukaskatti á? Nei. Ég held því að menn ættu aðeins að taka umræðuna út á víðara svið og hætta þessari stimplun á þrjár tilteknar greinar.
    Ég viðurkenni að það eru skattsvik víða í þjóðfélaginu og sennilega mest hjá einstaklingum. En þau eru vegna þess að fólk kemst nánast ekki af öðruvísi. Skattboginn er svo þaninn að fólk verður að gera það gegn betri vitund ef það á að framfleyta sér og það er kannski íhugunarefni. Er ekki nær að reyna að lækka eitthvað af þessum sköttum og auka eyðsluna og ná sköttunum í gegnum eyðsluna? Hvaða frumkvæði halda menn að komi frá fólki þegar ekkert fjármagn er til? Hvaða svigrúm hafa heimilin í landinu? Þau hafa ekkert svigrúm. Frumkvæðið getur aldrei orðið. Menn labba ekki niður í bankastofnun og fá veð í skuldunum sínum. Ég bið því menn að hugsa þetta aðeins betur. Af hverju eru skattsvik þjóðaríþrótt á Íslandi? Það er af því að kerfið ýtir fólki út í það. Hinir raunverulegu skattsvikarar verða alltaf til. En hinn almenni þegn þessa lands á hinum almennu launum getur ekki framfleytt sér á þeim og það er hinn kaldi veruleiki. Og svo eru menn sýknt og heilagt að auka álögurnar. Þeir eru að auka þrýstinginn á það að menn stundi skattsvikin. Það er afleiðing þjónustugjalda og hvað þetta allt heitir sem verið er að leggja á fólk. Það er afleiðingin.
    Varðandi virðisaukaskatt í tveim þrepum, þá sagði ég áðan að ég styð það að upptöku hans sé frestað vegna þess að ég geri mér alveg grein fyrir því að á örfáum dögum er gersamlega vonlaust fyrir fyrirtækin í landinu að söðla um. Það er gersamlega vonlaust. En ég geri mér líka grein fyrir því að þessi tillaga verður ekki samþykkt og skatturinn tekur gildi um áramót. Og þá lýsi ég fullri ábyrgð á ríkisstjórn, á fjmrn., á skattyfirvöld fyrir algeran sofandahátt. Þetta er búið að liggja fyrir síðan í vor og því var frestað til 1. sept. og svo aftur til áramóta. Og allir þessir þrír aðilar sváfu allan tímann af því að þeir vildu þetta ekki í raun og veru og þeir vilja þetta ekki enn. Sofandahátturinn mun því bitna á þeim aðilum sem síðan eiga að fara að vinna eftir þessu. Og það er algerlega á ábyrgð þessara aðila hvernig til tekst. ( Gripið fram í: Og verður dýrt.) Og verður dýrt þar fyrir utan.
    Hvernig hugsar t.d. ráðuneytið sér það að kaupmaðurinn á horninu vinni eftir þessu? Hvernig á hann að reikna út þessi tvö þrep þegar það kemur að gamla kassanum og það er stimplað inn? Þessi var með 24,5%, þessi með 14% og þriðji kannski með 0%? Hvernig á hann að flokka þetta upp hjá sér? Hvaða kerfi bjóða ráðuneytið eða skattyfirvöld upp á? Þau bjóða ekki upp á neitt. Þetta er flókið úrlausnar, ég veit það, og það hefði ekki veitt af því að menn færu að vinna vinnuna sína. Eru menn kannski að hugsa um að virðisaukaskattur verði greiddur af innkaupum? Ég veit það ekki. Ég hef ekki heyrt orð um útfærsluna á þessu. En í mínum huga kemur það vart til greina og sérstaklega ekki í matvöru sem nú til dags er dagsett með síðasta söludegi þannig að það er ekki endilega víst að varan seljist, það verði að henda henni og þá er fólk auðvitað ekki að borga af henni virðisaukaskatt fyrir fram. Hvernig á að útfæra þetta? Nú vantar hæstv. fjmrh. til að útskýra það. Hann er kannski einhvers staðar fyrir framan skerm og heyrir. Það er í sjálfu sér allt í lagi. Ég hef nóg tækifæri til að spyrja að því í tveim seinni ræðunum.
    Ég vil einnig spyrja: Er tollakerfið tilbúið? Ég geri mér alveg grein fyrir því að við innflutning geta verið vörur sem bera öll þessi þrjú skattstig. Við heyrðum ekkert í tollstjóraembættinu um hvernig ætti að framkvæma þetta. Ég þykist alveg vita að það verði að breyta tollskýrslum. Ætli það sé búið að því? Ég þykist líka vita að það þurfi að forrita kerfið í tollinum upp á nýtt. Ætli það sé búið að því? Ég er alveg klár á því að það er ekki búið vegna þess að fjmrn. upplýsti á fundi hjá okkur að þeir gætu ekkert gert fyrr en lögin væru samþykkt, jafnfáránleg og slík yfirlýsing er. Það er búið að liggja fyrir síðan í vor að það eigi að taka upp tvö þrep í virðisaukaskatti og fjmrn. segist ekkert geta gert fyrr en lögin eru samþykkt. Þvílík vinnubrögð. Og maður hlýtur að spyrja sig: Hvar er valdið? Er það embættismannanna? Ég skil ekki svona. Síðan ætla menn að koma og segja: Við dembum þessu á eftir nokkra daga. Ég fullyrði að það fer allt í kaos hjá þeim aðilum sem eiga að starfa eftir þessu. Og auðvitað eiga þeir að fá lengri frest. En á móti er það auðvitað gott á þessa aðila sem eru búnir að sofa allan tímann að þetta fari í kaos en það bitnar á þeim sem það ætti ekki að bitna á, því miður. Þess vegna styð ég að þessu sé frestað.
    Hitt er svo annað mál sem kom hér fram hjá hv. formanni efh.- og viðskn. vegna þess að hann gagnrýndi mig við 1. umr. fyrir það að ég væri með einhverjar árásir á kerfiskarla sem var reyndar misskilningur af hans hálfu. Núna kemur hann með bullandi árásir á kerfiskarlana. Hann fullyrðir það að það sé ekki hægt að koma þessu kerfi á svo að gott sé. Undanskotsleiðirnar verði slíkar og skattsvikin verði slík að kerfið nái ekki utan um þetta. Þetta finnst mér gagnrýni á kerfiskarlana. Auðvitað getum við komið hér upp slíku kerfi alveg eins og aðrar þjóðir. Virðisaukaskattur er í ýmsum þrepum í ýmsum löndum, allt frá tveim upp í held ég sex eða sjö. Ég skal ekkert segja hvernig til tekst, sérstaklega þar sem eru fleiri en tvö. En ég tel að það sé ekkert mál að starfa hér eftir tveimur þrepum. Það verða fæðingarhríðir og það verða erfiðleikar. En þegar þeir eru afstaðnir, þá tel ég þetta hið besta mál og ég tel að þetta sé geysilegt hagsmunamál heimilanna vegna þess að þegar þetta kerfi hefur ,,stabiliserað`` sig og fest sig í sessi, þá byrjum við að vinna að því að færa til fleiri nauðsynjavörur heimilanna. Hér var minnst á barnafatnað. Það verður næsta skref hvenær sem það skref verður stigið að loka þessum hring. Það sem snýr að heimilunum í landinu og helstu nauðsynjavörum fari í neðra þrepið og þá er mér alveg sama þótt efra þrepið verði hækkað á móti. Það er aukaatriði.
    Síðan kemur hv. formaður efh.- og viðskn. og segir að Bretar séu búnir að ákveða það að falla frá undanþágu virðisaukaskatts á barnaföt. Þetta er ekki rétt. Það er ekki í þeirra fjárlögum núna fyrir árið 1994. Það hefur ekki einu sinni komist inn í þingið. Það hefur verið rætt í nefnd og mörg mál eru rædd í nefnd án þess að þau séu orðin að veruleika. En Bretar halda enn við þetta. Og af hverju halda menn að Bretar séu að ræða um þetta? Ég held að það sé vegna þess að þá vantar tekjur. Það held ég að sé grunnurinn undir því. Síðan á að setja á svið millifærslukerfi eins og sumir menn vilja gera hér.
    Mér þótti leitt að verða var við það að fulltrúar BSRB töldu það til mótraka upptekningu matarskatts að það kæmi barnmörgum fjölskyldum til góða. Mér fannst þetta sorglegt og sagði það reyndar við þá á fundinum. En þeir eru þó sammála Framsfl. Framsfl. vill ekki lækka matarverðið í landinu. Framsfl. er með tillögu um að fara niður í 23%, í eitt þrep. Halda menn að það skili sér út í verðlagið? Og ætla menn að bera það saman við 4, 5 og allt upp í 8% lækkun á ákveðnum vörum? Framsfl. er fyrst og fremst að vernda landbúnaðinn á Íslandi. Það er fyrst og fremst það sem hann er að gera, það yfirdekraða kerfi sem við höfum. Ég styð íslenskan landbúnað en ég styð ekki þá yfirbyggingu og þá sóun á fjármunum sem er þar í kring. Ég tel að þeir fjármunir sem við erum að verja til íslensks landbúnaðar skili sér að mjög takmörkuðu leyti til bændanna í landinu.
    Horfi menn hér á Mjólkursamsöluna. Er hún í einhverjum vanda? Milljarða fyrirtæki. Horfi menn á Bændahöllina. Bændastéttin er ekki í neinum vandræðum, en yfirbyggingin er slík, stjórnir, ráð og nefndir að það er með öllu óhæft. Það er þetta sem á að taka á.
    Ég geri mér alveg grein fyrir því að auðvitað fylgir verulegur kostnaður því að fara í tvö þrep. Það kallar á aukinn mannskap og það kallar á hert eftirlit. En hvað með það? ( Gripið fram í: ,,So what``?) Já, ,,so what`` á góðri íslensku að norðlenskum sið. Það liggur fyrir hvort eð er. Það lá fyrir að það ætti að auka starfskraftinn í skatteftirlitinu.
    Nei, virðulegi forseti. Matarskatturinn hefur verið baráttumál þess sem hér stendur allt frá upphafi og hann mun hvergi hvika í þeirri baráttu. Ég tel að aðalmálið sé að aðgerðin skili sér til þeirra sem minna mega sín. Rök sem koma fram um það að einhverjir tekjuhærri beri eitthvað úr býtum líka á ekkert að bitna á þeim sem minna mega sín. Það eru engin rök fyrir því að hjálpa þeim sem minna mega sín þó að aðrir hafi eilítið upp úr því í leiðinni. Það eru engin rök til að hætta við það. En það er gott að menn geri sér grein fyrir því og geti tekið á því annars staðar eða seinna. ASÍ hafði fullvissu fyrir því frá kaupmönnum að þessi lækkun mundi skila sér út í verðlagið og ég trúi því vel. Ég veit að þegar lækkun er orðin í þessari stærðargráðu, þá kemur hún fram. En þegar menn eru að tala um 1--1,5% sem eru hugsanlega einhverjir aurar í matarverðinu, þá er ég efins um að það skili sér. ( Gripið fram í: Hvað með virka samkeppni í þessu máli?) Aurasamkeppnin hefur ekkert að segja í þessu máli.
    Ég met líka afstöðu VSÍ. VSÍ styður þetta að sjálfsögðu, enda stóðu þeir að þessu. Þeir meta það mikils að það verði tveggja ára friður á vinnumarkaðinum. Ég tek undir það. Á þessum tveimur árum verður þetta kerfi búið að jafna sig og ná sér. Og ég fullyrði það að fólkið í landinu vill þessa aðgerð þrátt fyrir hamaganginn í BHMR, BSRB og fulltrúum Framsfl. En ég skil alveg hvað liggur að baki hjá fulltrúum Framsfl. ( JGS: Er það ekki fólkið í landinu, BHMR og BSRB?) Það er staðreynd að 30% útgjalda láglaunafólks fer til matarkaupa. Og við viljum taka á þeim þætti. Við viljum auka kaupmáttinn þar.
    Svo kemur Framsfl. og krefst þess að það verði gerð einhver sérstök úttekt og þessi hefðbundna nefndarleið valin, þessi klassíska frestunarleið til að koma sér hjá vanda. Ég á mjög erfitt með að skilja afstöðu Framsfl. og ég verð að fá að minna á, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, ályktanir 22. flokksþings Framsfl. Og mig langar að spyrja þá hv. þm. sem eru hér núna: Greiddu þeir atkvæði með þessari tillögu? Og hvernig í ósköpunum gátu þeir gert það þegar þetta er jafnrosalega vitlaust og þeir segja? Jafnrosalega vitlaust og stórhættulegt og hér vaði allt upp í undanskotum og skattsvikum og ekkert muni skila sér til neytandans. Hvernig gátu þeir stutt þetta? Hvernig gátu þeir gert þetta? (Gripið fram í.) Mér leikur hugur á að vita hvort þeir þingmenn Framsfl. sem hér eru stóðu að þessu og hvort það er þá bara norska skýrslan sem breytti þessu. Ég segi bara, guð hjálpi mér að Framsfl. komst ekki til valda með þessa stefnu sem þeir eru svo gersamlega sannfærðir um að er stórskaðleg. Hugsið ykkur ef þeir hefðu nú komist til valda eftir síðustu kosningar. Þá var þetta þeirra skoðun. Nei, sem betur fer var það nú ekki.
    Við fengum töflu frá fjmrn. eftir töluverðan eftirgang eftir því sem mér skilst af formanni nefndarinnar dags. 30. mars 1993. Þar kemur þetta alveg skýrt fram. Það kemur fram að áhrif 14% vasks á ráðstöfunartekjur eru hjá fólki með 120 þús. kr. mánaðarlaun 2,3% sem þýðir 3.000 kr. á mánuði. Ef menn fara upp þennan skala og líta á mann með 300 þús. kr. á mánuði, þá er það 1,7% og 3.700 kr. á mánuði. Ætla menn að halda því fram að manninn með 120 þús. kr. muni ekki meira um þetta en manninum með 300 þús. kr. sem fær 3.700 kr., að þetta vegi ekkert þar inn? ( JGS: Við náum sömu jöfnun í okkar tillögum.) Tillögur framsóknarmanna eru meðaltalstillögur sem munu ekki skila sér í pyngju neytandans. (Gripið fram í: Hvað með barnabótaaukann?) ( JGS: Þær tölur sem þú varst að lesa upp eru þar líka.) Já, já. Þetta eru þær tölur sem var gengið út frá þegar samningar voru gerðir eftir því sem mér skilst. ( JSG: Lestu forsendurnar.) Forsendurnar eru hérna klárar.
    ( Forseti (KE): Forseti biður þinmenn að vera ekki með samtöl.)
    Það er alveg ljóst, það kemur líka fram hér í tölum frá Þjóðhagsstofnun að matarinnkaup fjölskyldunnar aukast verulega eftir því sem fjölskyldan stækkar og það á auðvitað ekki að þurfa neina skýrslu til að segja manni slíka hluti. ( JGS: Hárrétt hjá þingmanninum.) Já. En þetta virðist samt þurfa að tyggja inn í menn. Innkaupin vega þannig með einu barni 17,7% og upp í 24,7% með fjórum börnum. Mér finnst þessar tölur lágar og tala þá bara út frá eigin reynslu. Ég mundi kannast betur við tölur nær 50% en ég er líka með kannski aðeins fleiri munna en gengur og gerist þannig að það er nú sennilega skýringin á því.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að hverfa frá virðisaukaskattinum. ( Gripið fram í: ... frá Framsfl.?) Nei, nei. Ég hef engar stórar áhyggjur af Framsfl. Hann má sigla sína leið. Ég vil aðeins geta þess varðandi ferðaþjónustuna að það var skoðun fulltrúa Sambands veitingahúsa og gistihúsaeigenda að hótelin gætu ekki, alla vega að svo stöddu, velt þessari hækkun út í verðlagið vegna þess að mikið af þeirra þjónustu er seld fyrir fram, en þau mundu ekki þola þessa hækkun vegna samkeppninnar sérstaklega við Þjóðverja varðandi Norðurlönd. Á sama tíma kom fram hjá þeim að hótelnýting fer minnkandi og er að færast í auknum mæli yfir á hina svokölluðu heimagistingu, sem er einn þátturinn sem mætti kíkja á í skattsvikamálinu öllu. Enda kom það fram hjá þessum aðilum að svört starfsemi væri töluverð innan þeirra raða.
    Aðeins varðandi virðisaukaskattinn aftur af því að ég sé hér punkt frá BHMR. Það kom fram hjá þeim að þeirra helsta áhyggjumál virtist vera það m.a. að þessi lækkun á virðisaukaskatti mundi sitja eftir hjá versluninni. ASÍ hefur fullvissað og látið það koma fram hjá nefndinni að Kaupmannasamtökin fullvissi ASÍ um að þessi lækkun muni skila sér, en ég hlýt að spyrja: Halda menn þá að 1,5% lækkun muni skila sér betur út í verðlagið? Ef menn treysta ekki versluninni til að lækka um 4--8%, treysta þeir henni þá fyrir 1--1,5%?
    Aðeins út af bifreiðagjöldum, hæstv. forseti. Það er gjald sem fer svolítið fyrir brjóstið á mér vegna þess að ég tel að það mismuni fólki eftir efnahag. Það gerir engan greinarmun á því hversu dýra eign menn eru með í höndunum. Það gerir engan greinarmun á því hversu gamla eign menn eru með í höndunum. Það gerir engan greinarmun á því hvort menn þurfi í raun á slíku tæki að halda eða ekki. Við getum tekið sem dæmi að barnmargar fjölskyldur þurfa stærri bíl sem óneitanlega er þá orðinn þyngri. Við getum tekið bændur sem búa afskekkt eða bara landsbyggðarmenn yfirleitt. Í mörgum tilfellum þurfa þeir að eiga jeppa sem eru þyngri en gengur og gerist. Ég tel að hér eigi að skattleggja eftir verðmæti ekki eftir þyngd. Það kæmi þá réttlátlegar niður. Það er engin sanngirni í því að bóndi uppi í afdölum með gamlan jeppa upp á kannski par hundruð þúsund króna að verðmæti eigi að borga sama skatt af honum og forstjórinn í Reykjavík á 5 millj. kr. bílnum. Og ef menn taka þetta í prósentutölum, þá sjá menn fáránleikann í því. Fyrir utan það að ég tel að þetta sé öryggisstýring í ranga átt. Þetta er hvatning til fólks að reyna að velja sér sem léttustu bílana sem minnsta öryggið er í. Ég ætla engu að síður að láta þetta yfir mig ganga. Ég ætla að greiða þessu atkvæði, en ég vil bara benda á að mér finnst þetta rangt og menn eiga að hugsa þetta mál aftur og koma þá með það vonandi með öðrum hætti hér næsta haust.
    Sama vil ég reyndar segja um tryggingagjaldið sem er verið að hækka. Mér finnst þetta vera mismunun. Þetta er mismunun milli atvinnugreina. Ég get alveg sætt mig við tryggingagjald, en mér finnst eðlilegra að allar atvinnugreinar borgi þá það sama en ekki eins og þetta er í dag. Ég vil bnda á að það er alveg sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Nú kemur alveg nýr skattur í viðbót sem leggst hvað þyngst á innflutningsverslunina sem er markaðsgjaldið. Og síðan kemur þetta tryggingagjald af fullum þunga einmitt á þessa atvinnugrein. Hérna má draga þetta saman og finna meðalveginn og hafa eitt gjald og allir sitji við sama borð.
    Varðandi 16. lið brtt. sem 1. minni hluti efh.- og viðskn. flytur, um breytingu á lögum um Útflutningsráð Íslands, leggst ég gegn. Það er að mínu mati fyrsta skrefið að nýju aðstöðugjaldi eða ígildi þess. Hér er um veltuskatt að ræða sem leggst á öll fyrirtæki í landinu en ég hélt að einhver flokkur sem ég kannaðist við væri á móti slíkum sköttum. Mig minnti það alla vega. Gjaldið er 0,015% og heitir markaðsgjald. Upphæðin er ekkert há en það er búið að opna. Fyrsta skrefið er stigið og það er sannfæring mín að ekki muni líða á löngu þar til farið verður fram á hækkanir á þessu gjaldi.
    Í b-lið 16. liðar þessarar brtt. er talað um fyrirframgreiðslu á markaðsgjaldi. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um hvernig á að standa að slíkri fyrirframgreiðslu og hvaða mat og hvaða stofn verður lagður þar til grundvallar vegna þess að þessi tillaga hefur ekki verið rædd einu orði inni í efh.- og viðskn. Þetta er ný skattlagning sem kemur á síðustu stigum málsins og ekki orð, engin umfjöllun um skattlagningu á allt atvinnulíf í landinu. Það er bara opnuð heimildin, gerið þið svo vel. En það mátti kalla til séraðila út af matarskattinum og slíkt og teygja það mál alveg fram í rauðan dauðann. En nýr skattur á atvinnulífið í landinu var ekki ræddur einu orði. Þar að auki sé ég ekki betur en hann sé afturvirkur og eigi að gilda fyrir árið 1993.
    Markaðsgjaldið á líka að greiðast kirkjugörðunum þannig að útflutningurinn og atvinnulífið í landinu eiga að standa að því að niðurgreiða greftrun og líkbrennslu samkvæmt frv. Mér finnst þetta tóm tjara eins og sagt var hér áður fyrr. Síðan er þetta fest til 1998 og þá eru endurskoðunarákvæði og gert ráð fyrir að það falli niður 1999. Dettur nokkrum einasta manni það í hug að svo verði? Þetta mun vaxa árlega. Þetta er nýr skattur á atvinnulífið og ný tekjulind fyrir ríkissjóð sem mun vaxa og styrkjast með hverju ári.
    Mig langar að spyrja vegna þess að ég hélt að ákveðnir háttsettir aðilar hefðu lýst því yfir að Útflutningsráð bæri að leggja niður. Ég taldi mig hafa heyrt það. Hér er Útflutningsráð neglt niður til næstu fimm ára. Ég veit það að margir af stærstu útflutningsaðilum landsins eru ekki í Útflutningsráði. Ég hygg að Davíð Scheving Thorsteinsson njóti ekki styrkja úr Útflutningsráði til að mynda. Ég mundi gjarnan vilja sjá skýrslu yfir það hver hefur verið árangur starfs Útflutningsráðs frá árinu 1986 og hvernig þeir hafa varið því fjármagni sem þeir hafa haft. Ég vil gjarnan leggja mat á það. Ég hef grun um að hann sé ekkert beysinn. Hvaða stefnu hefur Útflutningsráð yfir höfuð? Ég veit ekki betur en útflutningur minnki stöðugt. Það er helst í sjávarútvegi sem hann er að aukast eitthvað. En þrátt fyrir tilvist Útflutningsráðs hef ég ekki orðið var við mikla aukningu. Ég vona að það sé rangt hjá mér, en ég vil gjarnan fá svör við því. En að aðrar greinar eigi að fara að standa undir Útflutningsráði og útflutningnum í landinu, að innflutningsverslunin til að mynda eigi að fara að standa undir því er náttúrlega óhæfa. Þeir aðilar sem kjósa að vera undir Útflutningsráði eiga að borga í þennan sjóð og enginn annar. Og það er kjarni gagnrýni minnar á þessa tillögu.
    Ég vildi gjarnan fá að vita hvaða fyrirtæki hafa hlotið stuðning og, eins og ég sagði, hversu háan og til hvers og hver er árangurinn?
    Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi lokið við að gera grein fyrir mínu nefndaráliti, en mun gera nánari grein fyrir afstöðu minni síðar í umræðunni.