Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 17:05:44 (2941)


[17:05]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa gert mér einhverjar væntingar um stuðning þingmannsins við Framsfl. Það er alveg rétt hjá honum að hér er bæði stjórn og stjórnarandstaða, en ég verð hins vegar að viðurkenna að ég hef oft og tíðum verið í miklum vafa um hvorum megin hv. þm. stendur í þeirri skiptingu.
    Virðulegi forseti. Við erum sammála um að það sem við stefnum að er að ná jöfnun í lífskjörum. Og það sem hefur verið að styrkjast í mínum huga og nánast allt sem við höfum fengið í hendurnar á síðustu dögum bendir til þess að mismunandi stig á virðisaukaskattsprósentu sé ekki markviss aðgerð til tekjujöfnunar. Meira að segja forseti ASÍ, eins og hv. þm. væntanlega man, sagði þetta inni á nefndarfundi hjá okkur í efh.- og viðskn.
    Ég vil einnig benda þingmanninum á það þegar hann var að tala um mismunandi þunga framfærslu á matvöru eftir barnafjölda. Hann nefndi að það væri frá tæplega 20% við eitt barn, ef ég man rétt ( IBA: 17,7.) Já, 17 komma eitthvað upp í 24% með fjórum börnum. Ég bendi á það að í útfærðum tillögum okkar í 2. minni hluta er lagt til að þessum mun sé mætt með barnabótaauka sem þýðir það að sú fjölskyldan sem á fjögur börnin fær samkvæmt okkar tillögum viðbótarráðstöfunartekjur á ári upp á 30 þús., láglaunafjölskyldan, sem er langt umfram þann mun sem er á matarkaupum upp á 19 eða 24% af ráðstöfunartekjum. Við mætum þessu fullkomlega og meira til.
    Staðreyndin er einfaldlega sú að þær tillögur sem við 2. minni hluti erum með í höndunum ná miklu lengra og skila miklu betri árangri en þær tillögur sem hv. þm. hefur ákveðið að styðja sína ríkisstjórn með.