Iðnlánasjóður

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 18:07:02 (2945)


[18:07]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Tómasar Inga Olrichs þá skrifum við nokkur undir þetta nál. með fyrirvara. Fyrirvari minn við þetta mál var fyrst og fremst vegna þess að í 1. gr. frv. um iðnaðarmálagjald er gert ráð fyrir því að í ríkissjóð skuli renna 0,5% af innheimtu iðnaðarmálagjalds samkvæmt 1. mgr. vegna kostnaðar ríkissjóðs við innheimtu þessa. Þarna er um nýmæli að ræða þannig séð að ríkissjóður ætlar að taka þóknun fyrir innheimtuna. Það er í raun og veru fordæmi fyrir slíku, það mun vera gert varðandi innheimtuna á útsvari fyrir sveitarfélögin, þannig að þarna er kannski ekki um algjört nýmæli, en a.m.k. er þetta nýmæli hvað þetta snertir.
    Bæði þessi frumvörp, um Iðnlánasjóð og eins um iðnaðarmálagjald, komu mjög seint fram á þinginu og það er hart að þurfa núna á síðustu klukkustundum þingsins að ganga frá þessum málum í fljótheitum því auðvitað væri gott í þessu sambandi að taka upp umræðu þessu tengda um stöðu iðnaðarins.
    Hæstv. iðnrh. skýrði það við 1. umr. málsins að ástæðan fyrir því hversu seint þessi mál væru fram komin væri sú að það hefði átt að leggja fram heildstætt frv. um framtíðarhlutverk Iðnlánasjóð, það sem

menn höfðu áður, í frv. sem hér hefur sést, kallað íslenska fjárfestingarbankann. Ástæðan fyrir því að nú er verið að gera þetta er sú að það er ekki samstaða um það í ríkisstjórninni frekar en margt annað að leggja þetta frv. fram, þannig að þá er hlaupið til á síðustu dögum og þess krafist að þetta verði afgreitt af hálfu þingsins. En það sem þarna er í raun og veru verið að gera, að leggja á þetta gjald sem áður var hluti af aðstöðugjaldinu þegar það er fallið í burtu, þá má segja að það hefðu ekki orðið tekjur fyrir samtök iðnaðarins. En eins og ég sagði í upphafi, minn fyrirvari við málið snýr fyrst og fremst að þessari þóknun sem ríkissjóður ætlar sér fyrir að innheimta gjaldið.