Iðnlánasjóður

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 18:15:55 (2948)


[18:15]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Mig langar að gefnu tilefni og vegna þess að við erum farnir að ræða um þau

mál er tengjast iðnaðinum og hér eru inni fulltrúar okkar í iðnn., þá er okkur öllum ljóst hver staða þessarar atvinnugreinar er í dag. Hún er miður góð, svo ekki sé fastara að orði kveðið og stefnan fram undan er vægast sagt óljós og sýnist að það halli mjög undan fæti fyrir þessari atvinnugrein.
    Ég fór stuttlega yfir það í gær í umræðu um atvinnumál á Akureyri hvernig komið væri fyrir þessari atvinnugrein og sá mikli samdráttur sem þar hefur orðið og raunverulega verkefnaflutningur sem átt hefur sér stað frá okkur, héðan frá Íslandi til annarra landa, og mér sýnist að þróunin muni vera vaxandi í þessa átt. Nú síðustu daga og reyndar meira en síðustu dagana, síðustu árin má segja, höfum við mátt horfa upp á eina atvinnugreinina enn í iðnaðinum, skipaiðnaðinn, berjast fyrir tilveru sinni hér á landi og mér finnst fyrir heldur daufum undirtektum. Þar á meðal verð ég að segja að afstaða hér á Alþingi til þessa máls hefur valdið mér miklum vonbrigðum, að Alþingi skuli ekki manna sig upp í það að taka fastara á þeim málum.
    Ég hreyfði þeirri hugmynd í gær og vildi heyra í nefndarmönnum iðnn. um það hvort ekki gæti orðið sátt um það á Alþingi að iðnn. tæki það upp hjá sér að smíða tillögur sem stæðust og Alþingi gæti sætt sig við að lagðar yrðu hér fram til lausnar á þeim mikla vanda sem skipaiðnaðurinn á við að etja.
    Ég hef hlustað hér undanfarin ár á ræður manna frá því að þessi ríkisstjórn kom til valda, um stöðu þessara atvinnugreina og það hefur aldrei nokkur maður komið svo upp í þennan stól til þess að tjá sig um þau mál heldur en hann hafi lýst fullum stuðningi við það að reynt yrði að leita allra leiða til þess að tryggja að þessi atvinnugrein gæti starfað áfram. Og svo vill til að á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstfl. var samþykkt að leggja bæri höfuðáherslu á jöfnun á starfsskilyrðum á milli innlendra og erlendra atvinnugreina. Þar var alveg skýrt talað, skilaboð landsfundarfulltrúa til þingmanna Sjálfstfl. Og ég trúi ekki öðru en að þeir muni þess vegna skipa sér í röð með okkur sem hér erum tilbúnir til þess að reyna að vinna að þessum málum. Mér finnst það sem sé skynsamlegt að iðnn., vegna þess hversu ríkisstjórnin er verklítil í þessu máli, reyni að koma sér saman um tillögu til lausnar á þessu máli og þannig verði reynt að höggva á þennan hnút, því málið þolir enga bið.
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að orðlengja um þetta, en það væri þarft að taka upp almenna umræðu um stöðu íslensks iðnaðar. Ég veit að nú á þessari stundu og á þeim skamma tíma sem eftir lifir þings er sjálfsagt ekki skynsamlegt að gera það, en ég vænti þess þá að fljótlega eftir að við hittumst á nýju ári verði hægt að taka upp umræðu, ekki neina hálftíma umræðu, heldur umræðu þar sem tími væri nægur til þess að þingmenn gætu skipst á skoðunum um það hvernig við getum varist þeim miklu áföllum sem blasa við íslenskum iðnaði í dag. Eins og ástandið er þá er það óásættanlegt fyrir okkur þingmenn að horfa upp á það hvernig fjarar undan þessari atvinnugrein.
    En ég endurtek ósk mína til hv. þm. sem sæti eiga í iðnn. að það væri fróðlegt, af því við eigum góða stund og tíma, að heyra í mönnum um það hvort þeir geta ekki fallist á að setja vinnu í þetta mál og koma sér niður á tillögur sem mættu verða til lausnar á þessum mikla vanda.