Iðnlánasjóður

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 18:38:01 (2953)


[18:38]
     Frsm. iðnn. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa eins og undanfarna daga spunnist nokkrar umræður um stöðu iðnaðarins sem er eðlilegt. Það kom hér fram áðan að stefnan hefði verið óljós og það hallaði undan fæti. Það er svo að það hefur verið stöðnun í iðnaði í okkar heimshluta í nokkurn tíma og við höfum fundið nokkuð fyrir því.     Ástæðurnar fyrir þessari stöðnun eru margvíslegar en að ýmsu leyti eru þær sameiginlegar í öllum þessum löndum. Þær stafa af því að iðnfyrirtækjum á Vesturlöndum hafa verið búin skilyrði sem ekki hafa reynst vera á mjög traustum forsendum eða traustum fótum. Þegar svo er komið að ekki er lengur hægt að halda þá leið að láta fyrirtækin þróast í hálfgerðum gerviheimi þá kemur bakslag og þetta bakslag er búið að hitta mörg lönd í Vestur-Evrópu nú upp á síðkastið.     Auk þess vefast inn í þessa erfiðleika iðnaðarins á Vesturlöndum ýmiss konar atriði önnur sem eru býsna flókin. Það er hrun Austur-Evrópumarkaðarins sem hefur t.d. grafið undan iðnaði í Finnlandi og hefur orðið mjög verulegt bakslag í efnahagslífinu þar af þeim sökum. Það er hins vegar athyglisvert með Finnland, svo við tökum Finna sem dæmi, að þeir hafa brugðist við þessum erfiðleikum sínum með því að stórauka framlög til rannsókna- og þróunarstarfsemi sem tengist atvinnulífinu. Það er svo að fyrir ekki nema tveimur til þremur áratugum voru Finnar að langmestu leyti háðir trjá- og pappírsiðnaði. Það var þeirra höfuðiðngrein. Þar hefur orðið gífurlegur samdráttur og fækkun á mannafla. Þeir hafa hins vegar bætt stöðu sína efnahagslega mjög verulega með því að ýta markvisst undir rannsókna- og þróunarstarf á afar mörgum sviðum. Þeir hafa þannig komist inn á markaðinn í hátækniframleiðslu eins og t.d. í símtækjum og tölvubúnaði. Þetta hefur að vísu alls ekki bjargað þeim frá miklu atvinnuleysi, því það er nú með því hæsta í Evrópu hjá Finnum. En það hefur bjargað miklu. Eftir því sem samkeppnin við láglaunasvæðin verður harðari þá verður áherslan á rannsókna- og þróunarstörf sem tengjast atvinnulífinu brýnni nauðsyn fyrir þau þjóðfélög sem hafa komið sér upp mjög háum lífsgæðum, lifa nokkuð hátt, veita mikla þjónustu og eru dýr í rekstri, þá eiga þau meiri möguleika til að halda velli ef þau koma sér upp hágæðavöru, eftirsóttri hágæðavöru, sem byggir tilveru sína og framleiðslu á mikilli þekkingu og mikilli þróunarvinnu.
    Við Íslendingar höfum nokkuð lengi lagt minna til þróunarstarfs og rannsókna heldur en aðrar þjóðir. Það er einkum og sér í lagi áberandi í fyrirtækjunum. Þau hafa lagt minna fé í þróunar- og rannsóknastarfsemi heldur en fyrirtæki í t.d. OECD-þjóðunum. Þar er verulegur munur á. Það eru örfá fyrirtæki sem hafa lagt mikið fé í rannsókna- og þróunarstarf hér á Íslandi og þau hafa undantekningalítið uppskorið eins og þau hafa sáð.
    Ég sætti mig ekki við að það sé sagt hér að stefna þessarar ríkisstjórnar í þessum málefnum sé óljós. Það er ósanngjarnt að segja það. Vil ég í því sambandi sérstaklega geta þess að ríkisstjórnin hefur tekið þessi rannsókna- og þróunarmál fastari tökum en áður hefur verið gert. Fjármagn til þeirra mála hefur verið aukið hlutfallslega mjög mikið þó ég viðurkenni mjög fúslega að það vantar mikið á að við verjum til þessa málaflokks því sem við þyrftum að verja. En fjárframlögin hafa nú verið hækkuð úr 100 millj. kr. rétt ríflega upp í 150 millj. kr. og það er enn meiri aukning fyrirsjáanleg. Nú er ég sem sagt að tala um frjálst fé til rannsóknastarfsemi, ég er ekki að tala um þau útgjöld sem ríkissjóður hefur af rekstri rannsóknastofnana sem tengjast atvinnulífinu með ýmsum hætti. Þetta held ég að sé rétt að viðurkenna. Ég held að það sé alveg ástæðulaust að viðurkenna þetta ekki, sem er mjög verðug aukning við erfiðar aðstæður. Því hér hafa verið erfiðar aðstæður í efnahagslífinu og hagur ríkissjóðs hefur verið erfiður, eins og allir vita.
    Ég get hins vegar tekið undir þau orð sem hér hafa komið fram að í málefnum iðnaðarins --- og þá erum við ekki að tala um málefni rannsóknasjóðanna sem heyra undir menntmrh. En í málefnum iðnaðarins þá hefur að mínu mati ekki verið mikill kraftur. Ég held að það sé óhætt að orða það svo. Og sá hægagangur í málefnum iðnaðarins er ekki tilkominn með þessari ríkisstjórn. Það var nákvæmlega sami hægagangurinn í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Munurinn var líka sá að þá var inni í mörgum fyrirtækjum, jafnvel fyrirtækjum sem ríkissjóður átti aðild að, þó nokkurt andvaraleysi og þar var ráðist í fjárfestingar sem ekki var grundvöllur fyrir. Þar voru jafnvel smíðaðir dýrir gripir sem ekki voru seldir og söfnuðu upp skuldum eins og allir þekkja.
    Ég verð að segja eins og er að þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum breyttist ekki mikið innan iðnrn., eins og allir vita, en þar hefur hins vegar orðið breyting með nýjum iðnrh., sem jafnframt gegnir embætti viðskrh. Hæstv. iðnrh. hefur tekið til hendinni í ráðuneytinu. Það sést bæði í vaxtamálum og mér finnst það einnig sjást í iðnaðarmálum. Það er eitthvað að gerast innan iðnrn. og það er m.a. atriði sem rétt er að taka tillit til að málefni skipasmíðaiðnaðarins eru þar núna í mjög rækilegri athugun.
    Þess vegna finnst mér að þó það hafi verið hægagangur á þessu ráðuneyti nokkuð lengi undanfarið, þá sé þar kominn nýr ökumaður sem sé líklegri til að auka hraðann talsvert. Ég er sammála því að það er full ástæða til þess og að við erum komnir nokkuð á hættulega braut í þessum efnum.
    Ég get tekið undir það sem kom fram áðan hjá hv. 9. þm. Reykv. að samstarf milli skipasmíðafyrirtækja er mjög hugsanleg lausn, ekki síst í ljósi þess að þessi iðngrein á í samkeppni við niðurgreidd skip. Ég ætla ekki að fara út í það nánar, ég hef lýst því áður í þingræðu með hve margvíslegum hætti þessar niðurgreiðslur leita inn í skipasmíðaiðnaðinn og gera okkur erfiðara fyrir í þessari samkeppni. Það eru ekki bara hinir beinu styrkir, það eru ýmiss konar óbeinir styrkir líka sem grafa undan eðlilegri samkeppni á þessu sviði.
    Þetta getur þýtt það fyrir okkur að íslenskur skipasmíðaiðnaður eigi í raun og veru ekki möguleika í samkeppni nema hann komi út á við fram sem einn aðili, t.d. í tilboðum í erlend verkefni. Það sé verkaskipting í þessum efnum og iðnaðurinn komi fram sem einn aðili. Ég hygg að ég fari ekki rangt með að það sé einmitt verið að skoða þennan möguleika í iðnrn. núna.
    Hér áðan ræddi hv. 3. þm. Vesturl. um verkefnin og spurði hvort innan iðnn. hefði verið rætt um það að reyna að koma í veg fyrir að verkefni flyttust úr landi. Á þeim fundi sem iðnn. hélt sérstaklega um málefni skipasmíðaiðnaðarins kom tvennt fram sem ég held að sé ástæða til að taka fram hér í þessu sambandi. Í fyrsta lagi hefur verið gerð könnun á verkefnastöðunni fyrir skipasmíðaiðnaðinn á vegum Málms,

ef ég man rétt. Sú könnun leiddi í ljós að verkefnastaðan er verri og erfiðari um þessar mundir heldur en nokkru sinni fyrr. Það helst að sjálfsögðu í hendur við gang mála í sjávarútveginum því mér hefur verið sagt og ég hef raunar fundið það, þann tíma sem ég sat í stjórn Slippstöðvarinnar á Akureyri, en þá fann maður mjög glöggt í iðnaðinum að strax og fréttir bárust um niðurskurð, væntanlegan niðurskurð, þá missti útgerðin kjarkinn að því er varðaði öll meiri háttar verkefni. Hinu er ekki að neita að það kom líka fram á þessum fundi iðnn. að sjávarútvegurinn skipuleggur sig ekki langt fram í tímann og verkefni verða stundum til, mjög stór verkefni, með afar stuttum aðdraganda. Fjárfestingin í sjávarútveginum er býsna lítið skipulögð og ég gæti best trúað því að það eigi rætur að rekja til þess hve örlög útgerðarinnar hafa lengi verið háð miklum dyntum náttúrunnar og aflabragðanna. Þannig að ef menn líta yfir síðustu 15 árin í skipasmíðaiðnaðinum þá hefur verið þar alveg ótrúleg sveifla í verkefnum. Þessi mikla sveifla hefur raunar leitt til þess að verkefni hafa leitað úr landi, jafnvel á velmektartímum skipasmíðaiðnaðarins.
    Ég vil einnig taka fram að á þeim tíma þegar skipasmíðaiðnaðurinn var að byggja sig upp þá ríktu hér nokkuð óeðlilegar aðstæður eins og allir þeir virðulegu þingmenn sem hér sitja vita betur en flestir aðrir. Það kostaði lítið fjármagnið í uppbygginguna. Þar af leiðandi var mikil tilhneiging í þessum iðnaði til þess að byggja yfir sig, yfirbyggja jafnvel stofnanir sínar og það leiddi líka til yfirbyggingar í stjórnun þessara fyrirtækja. Það leiddi líka til þess að í skipasmíðaiðnaðinum vöndu menn sig fljótlega á mjög vönduð vinnubrögð. Það hafa ekki víða í heiminum verið smíðuð eins vönduð skip og á Íslandi síðustu 15 ár og skipasmiðir hafa sagt mér að þegar markaðurinn fór að spillast og menn voru ekki reiðubúnir að greiða lengur sama verð fyrir skipin þá hafi íslenskir skipasmiðir haldið sínum vönduðu vinnubrögðum kannski lengur en markaðurinn gaf efni til og hafi þar af leiðandi farið verr út úr útboðum vegna þess að þeir hafi ekki lagað sig að þessum breyttu aðstæðum útgerðarinnar. Þeir héldu sig fast við sín gæðamál, sinn gæðastaðal og hlutu fyrir það skrokkskjóðu þegar þeir neyddust til að bjóða mjög lágt í verkefni.
    Skipasmíðaiðnaðinn hefur skort eins og atvinnulífið á Íslandi almennt og eins og þjóðfélagið í heild, aðlögunarhæfni á þessum samdráttartímum og er það ein af ástæðunum fyrir því hvernig er komið fyrir honum.
    Ég held að ég láti þessu spjalli um stöðu iðnaðarins almennt lokið. Ég held að það sé gagnlegt að taka þessi mál til umfjöllunar. Ég vil endurtaka að ég hef það á tilfinningunni að nú sé unnið að málefnum iðnaðarins af meiri krafti heldur en áður var og ég ætlast til mikils af núverandi iðnrh. og ætlast til þess að þess sjái merki að þar er kominn nýr maður í starfið.