Iðnlánasjóður

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 18:58:33 (2956)


[18:58]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Ég tek undir það sem hv. þm. sagði um verðbólgu og raungengisstefnu, vaxtalækkun og stöðugleika. Allt er þetta mjög gott og nauðsynlegt og undirstaðan að því að atvinnulíf geti gengið. Undir það tek ég. En hver bjó þá undirstöðu til? Var það sú ríkisstjórn sem hv. þm. styður? Nei, ekki aldeilis. Hv. þm. var ekki kominn inn í þingsalina þá. Það var ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem lagði grunninn að því að þetta gæti gerst með þjóðarsáttarsamningunum í fullri sátt við verkalýðshreyfinguna á Íslandi. Þar var grunnurinn lagður að því að þetta mætti takast. Það er kjarni málsins.
    En, virðulegi forseti, hér í andsvörum getum við ekki skipst nógu mikið á skoðunum, en það hefur hins vegar sýnt sig, þessi umræða sem hér fer fram, að það er þarft að taka upp umræðu um iðnaðarmál og stöðu þeirrar atvinnugreinar í dag.