Framleiðsla og sala á búvörum

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 21:28:56 (2960)

[21:28]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Eins og áður hefur komið fram þá hefur það legið fyrir að óhjákvæmilegt væri að breyta búvörulögunum til samræmis við þá milliríkjasamninga sem við Íslendingar höfum nú staðið að, m.a. vegna hins Evrópska efnahagssvæðis og raunar við fleiri þjóðir. Eins og segir í athugasemdum við lagafrv. er það lagt fram í tengslum við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert og varða m.a. verslun með landbúnaðarafurðir. Þar eð ekki liggur endanlega fyrir hvaða lagabreytingar eru nauðsynlegar til að geta uppfyllt þær skuldbindingar sem felast í væntanlegum GATT-samningi var ákveðið að frekari endurskoðun á innflutningsákvæðum búvörulaganna eigi sér stað á árinu 1994 með hliðsjón af þeim samningi.
    Í 1. gr. frv. segir að landbrh. veiti heimild til innflutnings í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum. Það er óhjákvæmilegt að slík heimild komi inn í lögin þar sem búvörulögin eru afdráttarlaus um það að innflutningur landbúnaðarvara skuli því aðeins leyfður að Framleiðsluráð staðfesti að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurninni. Orðalag 1. mgr. vísar sérstaklega til þess, eins og þingmenn geta áttað sig á, að óhjákvæmilegt er að veita landbrh. heimild til leyfisveitingar af þeim sökum.
    Þá er kveðið á um að ráðherra skuli við innflutning landbúnaðarvara vera heimilt að leggja á þann innflutning verðjöfnunargjöld sem nauðsynleg eru til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara og skuli ráðherra ákveða með reglugerð á hvaða landbúnaðarvörur, þar með taldar unnar vörur sem innihalda landbúnaðarhráefni og sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, skuli leggja verðjöfnunargjöld við innflutning.
    Það er ljóst samkvæmt þessum orðum lagatextans að hér er bæði fjallað um unnar og óunnar innfluttar búvörur. Það er skýrt tekið fram í greinargerð og er þessi texti alveg afdráttarlaus í þeim efnum.
    Ef við veltum fyrir okkur samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þá er þar verið að tala um smjörlíki með 10--15% mjólkurfitu m.a. svo og jógúrt og raunar allar unnar búvörur sem fluttar eru til landsins og falla undir búvörulögin.
    Í þessari málsgrein er jafnframt kveðið á um að ráðherra skuli ákveða upphæð gjaldanna. Það er skilgreint að þau skuli miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra eins og samningurinn segir til um og skuli ráðherra hafa sér til ráðuneytis nefnd þriggja mann, einn skipaðan án tilnefningar, annan tilnefndan af fjmrh. og hinn þriðja tilnefndan af viðskrh. Þessi nefnd er að sjálfsögðu vinnunefnd. Hún er skipuð til að tryggja góð vinnubrögð og til að tryggja það að gott samstarf verði milli þessara ráðuneyta um framkvæmd samninganna og framkvæmd laganna og er ekki einsdæmi. Það er t.d. svo í 42. gr. búvörulaganna samkvæmt Lagasafni, ég man nú ekki hvort númerið hefur breyst síðan þetta lagasafn frá 1990 kom upp, það er eins og mig rámi í það, en þar er fjallað um innflutning á grænmeti. Þar er einnig kosið að fulltrúar viðskrn. komi að ákvörðunum um heimildir til innflutnings með fulltrúum framleiðenda og oddamanni sem skipaður er af landbrh. Samstarf á milli viðskrn. og landbrn. er því síður en svo nýtt í þessum efnum og hefur raunar einnig tíðkast t.d. í sambandi við niðurgreiðslur á meðan þær voru við lýði.
    Þar sem þessi framkvæmd reynir mjög á það að eftirlit með innflutningi og framkvæmd laganna sé með góðum hætti er jafnframt talið nauðsynlegt að fjmrh. eigi sinn fulltrúa í þessari nefnd. Á hinn bóginn er afdráttarlaust að forræðið er í höndum landbrh. sem er auðvitað kjarni málsins og í samræmi við það sem talað var um þegar þessi mál voru hér til umfjöllunar á síðasta vetri og kom m.a. skýrt fram í málflutningi og nefndarálitum bæði utanrmn. og landbn. Ég hygg því að þessi lagagrein, eins og hún er hér orðuð, eigi að tryggja það að hægt sé að framkvæma samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og aðra hliðstæða samninga í fullkomnu öryggi og gagnkvæmum trúnaði milli aðila sem er auðvitað mjög þýðingarmikið þegar við erum að takast á við verkefni eins og þetta sem raunar markar þáttaskil í verslunarsögu okkar Íslendinga.
    Það má vera að hv. þm. kunni að gagnrýna að frv. skuli ekki taka á þeim atriðum sem lúta að væntanlegum GATT-samningi. Skýringin er auðvitað sú að þeir samningar í einstökum atriðum liggja ekki endanlega fyrir enda þurfa þeir meiri undirbúning en svo að unnt hafi verið að setja saman fullnægjandi lagagreinar um þau efni nú fyrir jólin. Ég hygg að örugg framkvæmd þeirra samninga jafnviðurhlutamiklir og þeir eru fyrir íslenskt atvinnulíf þurfi nánari skoðunar við.
    Þá er gefin heimild til að endurgreiða verðjöfnunargjöld við útflutning á vörum sem innihalda landbúnaðarhráefni. Ráðherra ákveður með reglugerð þær vörur sem verðjöfnun tekur til og hver endurgreiðslan skuli vera. Útfærsla á þessari grein liggur ekki fyrir en það verður þegar í stað hafist handa um að vinna að henni. Það er nauðsynlegt að þetta frv. fái afgreiðslu nú fyrir jól til að hægt sé að vinda sér í það að tryggja góðan undirbúning að gildistöku samninganna og tryggja það að framkvæmd þeirra fari vel fram og sé í samræmi við þær gagnkvæmu skyldur sem við Íslendingar höfum gert með þeim fríverslunarsamningum sem við höfum nú staðið að.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn. Ég vil þakka formanni landbn. og raunar nefndinni allri fyrir að hafa komið saman í kvöldmatarhléi til að fara yfir frv. og kynna sér einstök efnisatriði þess til að þau geti legið ljós fyrir við 1. umr. málsins. En ég ítreka, eins og ég sagði áðan, að í einstökum atriðum er orðalagið skýrt. Það kveður á um þau atriði sem þaulrædd voru hér á sl. vetri og eiga að tryggja traust á þeirri framkvæmd sem fríverslunarsamningarnir fela í sér.