Framleiðsla og sala á búvörum

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 21:38:43 (2961)


[21:38]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég held að það hljóti að hafa verið nokkuð þung spor fyrir hæstv. landbrh. að koma hér upp og mæla fyrir þessu frv. sem nú hefur verið lagt fram, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Því ég býst við að okkur sé öllum ljóst að þær reglur sem í framtíðinni verða um innflutning matvæla munu marka þá landbúnaðarstefnu sem ríkisstjórn fylgir hverju sinni. Þegar búið er að afnema allar magntakmarkanir á innflutningi og eingöngu jöfnunargjöld ráða því hver samkeppnisstaða innlends landbúnaðar verður, þá ræður það hvernig þessum jöfnunargjöldum verður breytt auðvitað úrslitum um hvaða skilyrði íslenskur landbúnaður býr við á innlendum markaði.
    Við minnumst þess öll frá sl. vori þegar hart var tekist á um frv. sem opnaði leið til innflutnings en þetta frv. er með allmikið öðrum hætti, eins og ég mun hér reyna að gera grein fyrir. Í frv. í vor var það alveg ótvírætt á valdi hæstv. landbrh. að taka ákvarðanir í þessum málum og það vald var ekki á neinn hátt af honum tekið. En eftir að búið er að segja það í fyrstu málsgreinum 1. gr. þessa frv. að landbrh. hafi þessar heimildir þá kemur dálítið babb í bátinn eins og kemur glöggt fram í greinargerð frv. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hann skal þó við ákvörðun gjaldanna hafa sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna skipaða fulltrúum fjmrh., landbrh. og viðskrh. Þá er ákvæði um að ráðherra skuli bera ágreiningsefni upp í ríkisstjórninni áður en ákvörðun er tekin um upphæð gjaldanna.``
    Það er rétt hjá hæstv. landbrh. að það er ekkert einsdæmi að skipaðar séu vinnunefndir milli ráðherra. En ég veit ekki til þess að vinnunefndum sé fengin sú heimild að taka vald af ráðherra eins og þessari nefnd er gert. Því það segir svo í niðurlagi 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Náist ekki samkomulag í nefndinni skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda.``
    Ef einn af þessum þremur fulltrúum í nefndinni vill ekki samþykkja það sem fulltrúi landbrh., e.t.v. með stuðningi annars í nefndinni, vill leggja til þá dugar að einn sé á móti þá má hæstv. landbrh. ekki gefa út þessar reglur. Þrautagangan er ekki á enda þó búið sé að leggja það fyrir þessa nefnd sem hefur þetta vald því þá skal hæstv. landbrh. bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda. Þá er komið að öðrum þröskuldi í heimildum hæstv. landbrh., þ.e. hvernig fjalla á um málið í hæstv. ríkisstjórn. Er það svo að þetta orðalag ,,að bera undir ríkisstjórn`` þýði aðeins að hann tilkynni ríkisstjórn ákvörðun sína? Reyndar er ekki sagt að það sé hæstv. ráðherra sem tekur ákvörðun því það stendur í niðurlagi greinarinnar ,,áður en ákvörðun er tekin``. Þar er því eitt spurningarmerkið enn.
    Ég býst við að öllum sé ljóst hvernig á því stendur að þetta er svona sett upp. Það kemur mjög skýrt fram í grein sem hæstv. utanrrh. skrifaði í Morgunblaðið 15. þessa mánaðar þar sem hann segir í niðurlagi greinarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Fyrsta skrefið er því frjáls samkeppni á grundvelli gæða eingöngu. Ég sé því hins vegar ekkert til fyrirstöðu og raunar æskilegt að íslenskri framleiðslu sé veitt aðhald með heilbrigðri verðsamkeppni með því að ákvarða almenna tolla fyrir neðan tollígildismörk tilboðsins. GATT-samkomulagið skyldar engan til að leggja á hámarkstolla. Í fyrri GATT-viðræðum höfum við skuldbundið okkur til að virða hámarkstolla sem í vissum tilfellum voru 90% en rauntollar voru síðan engir. Hægt ætti að vera að finna milliveg sem veiti íslenskum landbúnaði visst forskot án þess þó að einangra hann alveg.``
    Ég held að hér dyljist engum hvað hæstv. utanrrh. er að fara. Það á að lækka þessa verðjöfnunartolla frá því sem heimildir veita. Það er í samræmi við það sem hæstv. utanrrh. hefur oft lýst yfir áður, að hann ætli sér að ná því fram með erlendum viðskiptasamningum sem hann hefur ekki náð að koma fram á Alþingi.
    Mér sýnist því ósköp augljóst eftir því sem hægt er að lesa úr þessari grein að framvindan verður sú að málin fara til þessarar þriggja ráðuneyta nefndar. Þar verður um þau þrefað og ef fulltrúi annaðhvort viðskrh. eða fjmrh. vill ekki fallast á tillögur landbrh. þá verður hann að beygja sig fyrir því að málið fari til ríkisstjórnarinnar og í núv. hæstv. ríkisstjórn hefur utanrrh. aðstöðu til að fjalla um málið. Ég veit ekki hversu mikið neitunarvald hann hefur þar. Það kemur ekki fram í þessari lokasetningu hvort landbrh. er eitthvað rétthærri við umfjöllun málsins í ríkisstjórninni en hver annar ráðherra.
    Ég tel því mjög nauðsynlegt að það komi alveg skýrt fram hvernig þessum málum er varið og hver hugsunin er. Ef ríkisstjórn hefur ekkert stöðvunarvald á ákvörðunum hæstv. landbrh. af hverju er þá verið að vísa málinu til ríkisstjórnar?
    Ég sat í ríkisstjórn í rúmlega eitt ár með hæstv. núv. utanrrh. og ég kynntist því töluvert vel að yfirleitt var tekist á um öll landbúnaðarmál við hann. Ég minnist þess að eftir u.þ.b. eitt ár þá skrifaði Dagblaðið forustugrein sem bar fyrirsögnina Níu--núll og átti þar við að hann taldi að hæstv. þáv. fjmrh., núv. utanrrh., hefði þurft að gefa eftir níu sinnum í landbúnaðarmálunum og því væri hans staða núll. ( Gripið fram í: Fyrir hverjum gafst hann upp?) Fyrir þeim sem hér stendur eftir því sem Dagblaðið sagði. En því miður fannst mér ekki árangurinn alltaf vera þessi og það var vissulega þreytandi í því að standa.
    Ég vænti þess að hæstv. viðskrh. útskýri einnig hvernig hann skilur þessa grein því að ég heyrði einhvern ávæning af því í viðtölum við hann í fjölmiðlum í gær og þá fannst mér vera nokkuð annar tónn í hans yfirlýsingum en kom fram nú hjá hæstv. landbrh.
    En það er að sjálfsögðu margt fleira sem benda má á í sambandi við þetta frv. T.d. er ekkert í þessu frv. sem um var fjallað í brtt. hv. landbn. við frv. landbrh. um þetta efni á sl. vori en þar náðu verðjöfnunarheimildirnar einnig til fleiri vörutegunda, t.d. smjörlíkis. Í 1. mgr. er vísað í ákvæði fríverslunar- og milliríkjasamninga án þess að það sé neitt frekar skilgreint hvernig þar eigi að standa. Þegar við höfum það í huga að hæstv. landbrh. sagði í umræðu hinn 1. nóv. sl. þegar rætt var um árangur viðræðna við EB, m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ísland hefur gert þá kröfu að við útreikning á verðjöfnun mjólkurafurða skuli miða við niðurgreitt eða óniðurgreitt verð á mjólkurfitu og mjólkurpróteini eftir því sem við á hverju sinni. Þetta hefur enn ekki fengist viðurkennt en á hinn bóginn hefur Evrópubandalagið viðurkennt það að heimilt verði að nota tvenns konar verð á smjöri sem gefur vísbendingu um það að þarna muni nást lausn. Þetta hefur grundvallarþýðingu fyrir íslenska hagsmuni.``
    Ég vil spyrja hæstv. landbrh.: Er þetta enn þá óljóst og hvernig verður þessu háttað? Á að samþykkja opnar heimildir án þess að vita nokkuð hvernig þessum málum verður hagað og hvenær er þess að vænta að það skýrist eitthvað?
    Þannig er það að sjálfsögðu margt sem vaknar við umræðu um þessi mál. Ég skal ekki eyða öllu lengri tíma í þetta en ítreka það að samkvæmt mínum skilningi er það víðs fjarri að orðalag 1. gr. þessa frv. sé skýrt. Ef það er alveg ótvírætt að hæstv. landbrh. hafi þetta forræði án þess að hans vald sé skert þá skil ég ekki af hverju er verið með síðari hluta greinarinnar að leggja þessa auðmýkjandi þrautagöngu fyrir hann, fyrst að verða að lúta í lægra haldi ef einn af þremur nefndarmönnum gerir ágreining við hans vilja um framkvæmdina og svo að þrefa aftur um málið í hæstv. ríkisstjórn.