Framleiðsla og sala á búvörum

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 21:53:46 (2962)


[21:53]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það hefði verið freistandi að fara út í langar umræður og rifja upp atburði sumarsins í þessum landbúnaðarmálum, kalkúnalappir, skinkur og ýmislegt sem kom mjög við sögu en ég ætla að hlífa þingheimi við því. En það er staðreynd að það frv. sem hér er komið til umræðu boðar nokkur

tíðindi í landbúnaðarmálum því að nú er sú stund runnin upp að breyta þarf lögum og opna fyrir innflutning erlendra landbúnaðarvara vegna EES-samningsins fyrst og fremst en það má ljóst vera að það er eftir að breyta ýmsum lagagreinum þegar og ef GATT-samningurinn verður að veruleika sem virðist vera nokkurn veginn kominn í höfn.
    Ég hlýt auðvitað að minnast á það í upphafi máls míns að þegar þetta mál var til umræðu hér í þingi í vor þá skilaði ég séráliti ásamt Ragnari Arnalds og það var fyrst og fremst vegna þess . . .
     (Forseti (VS): Háttvirtum þingmanni.)
    Hv. þm. Ragnari Arnalds, það er greinilegt að það er smáþreyta farin að sýna sig þegar ,,etíketturnar`` fara að víkja ( Gripið fram í: Og virðingin.) og virðingin, já. Ég bið forseta afsökunar og ítreka það að ég flutti sérstakt nefndarálit, var í minni hluta nefndar ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds og það réðist auðvitað fyrst og fremst af því að hér er um EES-frv. að ræða auk þess sem ég hef svona ákveðnar spurningar og fyrirvara varðandi hinn stjórnskipulega þátt þessa máls. --- Forseti mér þykir vera mikill órói hér.
     (Forseti (VS): Já, forseta þykir vera ótrúlega mikill órói hérna í þingsalnum, ef hv. þm. vildu vera svo vænir að hafa svolítið hljótt um sig.)
    Frá því í vor hefur mikið vatn runnið til sjávar og okkur má það öllum ljóst vera að EES-samningurinn er að verða að veruleika og þar af leiðandi er það kannski ekki sá þáttur málsins sem skiptir meginmáli heldur það hvernig staðið er að málum. Ég er eins og þingmenn kannski vita fulltrúi í hv. efh.- og viðskn. og þar stóð ég m.a. að því í fyrra að samþykkja breytingar á tollalögum og ýmsum lögum sem kveða á um verðjöfnunargjöld og breytingar varðandi innflutning og ég velti því fyrir mér gagnvart hinum stjórnskipulega þætti þessa máls hvar eðlilegt sé að ákvörðun af því tagi sem hér er kveðið á um, þ.e. að ákveða innflutning og verðjöfnunargjöld, hvar það vald eigi að vera. Er sérstaða landbúnaðarins það mikil og sterk að það réttlæti það að málum sé háttað þar á allt annan hátt en gerist um aðrar atvinnugreinar? Eða er það rökrétt að við flytjum allt vald í ákvörðunum um t.d. innflutning á fiski? Tökum sem dæmi danska síld, á það að vera á valdi sjútvrh.? Á iðnrh. að fara með allar ákvarðanir sem varða innflutning á iðnaðarvörum o.s.frv.? Ég skil vissulega það sjónarmið og kannski ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem við stöndum frammi fyrir varðandi mjög svo breyttar aðstæður landbúnaðarins að mönnum finnist að þar þurfi að standa sérstaklega að verki. En ég er fyrst og fremst að velta þessum þáttum fyrir mér, mér finnst þetta ekkert sjálfgefið. Og ég skil vel þau sjónarmið fjmrn. að þeir telji að þessar ákvarðanir eigi að vera þar eins og aðrar ákvarðanir sem lúta að slíkum ákvörðunum um tolla, vörugjöld og annað slíkt.
    En það sem vekur mestu og stærstu spurninguna varðandi þetta frv. er hvað það stjórnskipulag sem hér er verið að koma á þýðir, eins og hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Jón Helgason, rakti hér. Hvað þýðir þetta ,,hírarkí`` sem hér er verið að búa til? Fyrst segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir önnur ákvæði laga þessara veitir landbrh. heimild til innflutnings á landbúnaðarvörum . . .  `` Og síðan segir:
    ,,Ráðherra ákveður með reglugerð á hvaða landbúnaðarvörur, þar með taldar unnar vörur . . .  `` o.s.frv. Í þriðja lagi segir, með leyfi forseta: ,,Ráðherra ákveður upphæð gjaldanna.`` Annars vegar er tekið þarna nokkuð sterklega til orða varðandi vald ráðherrans, en síðan kemur þessi nefnd. ,,Sér til ráðuneytis skal ráðherra skipa nefnd þriggja manna, einn án tilnefningar, annan tilnefndan af fjmrh. og hinn þriðja tilnefndan af viðskrh.`` Og í lok þessarar greinar segir, með leyfi forseta: ,,Náist ekki samkomulag í nefndinni skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda.``
    Maður auðvitað spyr sig: Hvað þýðir þetta? Ráðherra tekur ákvörðun eða hann hyggst taka ákvörðun en hann þarf að bera það undir nefndina. Náist ekki samkomulag í nefndinni þarf að fara með málið inn í ríkisstjórn og hvað gerist í ríkisstjórninni? (Gripið fram í.) Já. Og hvað þýðir þetta? Og það er nokkuð fróðlegt að lesa hér grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem rætt er við alla helstu aðila þessa máls og það er kannski einna fróðlegast að lesa það sem hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson lætur hafa þar eftir sér. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,En það vald hans,`` --- þ.e. til að ákveða þessi mál --- ,,er takmarkað með tvennum hætti. Í fyrsta lagi skal hann hafa sér til samráðs nefnd fulltrúa þeirra ráðuneyta sem gæta annars vegar hagsmuna ríkissjóðs, fjmrn. og hins vegar fulltrúa viðskrn. sem gætir hagsmuna neytenda.`` Sem sagt, vald hans er takmarkað, segir hæstv. utanrrh. Og síðan segir hann, með leyfi forseta: ,,Hér [er] um ásættanlegt fyrirkomulag að ræða að mínu mati, a.m.k. fyrst um sinn.`` Og síðar í þessari grein segir hæstv. utanrrh.: ,,Aðalatriði málsins er náttúrlega þetta: GATT-samkomulagið er bylting í heimsviðskiptum. Af GATT-samkomulaginu leiðir að rauði þráðurinn í allri löggjöf um landbúnaðarmál, þ.e. um bann og leyfisveitingavald, er orðið úrelt og óvirkt og heyrir sögunni til.`` Og síðan segir: ,,Við hefðum ekki getað fallist á alræðisvald landbrh. í þeim efnum, enda er það forræði takmarkað.`` Þ.e. hæstv. utanrrh. lítur þannig á að með því samkomulagi sem hér er komið með þessu frv., þá sé vald og forræði hæstv. landbrh. takmarkað. ( Gripið fram í: Hver segir þetta?) Hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson í Morgunblaðinu í dag. Og það kemur auðvitað vel fram í þessari grein að bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. utanrrh. líta svo á að með þessu sé verið, sem er auðvitað raunin, að opna fyrir innflutning á landbúnaðarvörum og eins og segir í þessari grein og haft er eftir hæstv. fjmrh., er aðalatriðið að greiða fyrir opnari viðskiptum, það er tilgangurinn. Ég er bara að vitna í þetta til þess að mönnum sé það alveg ljóst út á hvað þetta gengur.

    Það hefur legið í augum uppi um nokkurt skeið að þetta er fram undan. Hér er bæði um að ræða afleiðingu af EES-samningnum og því að GATT-samningurinn hefur nú náðst. Þetta hefur legið í augum uppi að þyrfti að breyta lögunum og hefur reyndar dregist mjög að ganga frá þessu máli. Að mínum dómi hefur það verið öllum til tjóns að ekki lægi ljóst fyrir hvaða reglur giltu í þessu og menn væru að fara hér í stríð við ráðuneytin og flytjandi inn vörur af ýmsu tagi og láta þær svo eyðileggjast hér á hafnarbakkanum o.s.frv. eða senda þær til Færeyja eða til hvaða ráða sem menn nú hafa gripið. Það besta er að það sé einfaldlega á hreinu hvaða reglur og lög gilda í þessum efnum og menn standi við gerða samninga hversu góðir eða vondir sem þeir svo eru. En aðalatriðið er að þetta ákvæði, þetta skipulag þarf að skýra. Það þarf að vera alveg ljóst hvað þessi lög þýða og við höfum ákveðið í hv. landbn. að kalla á okkar fund ýmsa lagaspekinga til þess að fá á því skýringar hvað þetta þýðir í raun og veru.
    Það er svo sem ekki mikið meira um þetta að segja, hæstv. forseti. Við munum kanna þetta mál en eins og þetta mál horfir við mér á þessari stundu áður en það er orðið skýrt hvað þetta þýðir þá sé ég ekki að ég geti samþykkt þetta mál.