Framleiðsla og sala á búvörum

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 22:05:46 (2963)


[22:05]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég heyri að formaður Alþb. muldrar að Framsókn sé búin að tala nóg í dag en við erum kannski einhverjir fleiri á mælendaskrá en hv. þm. Jón Helgason.
    Virðulegur forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um það frv. sem hér liggur frammi. Það hefur orðið ansi mikill dráttur á því að þetta frv. kæmi fram nú í vetur og það er svona í átt við annað hjá núv. hæstv. ríkisstjórn hvað það varðar sem snýr að vinnubrögðum á löggjafarsamkomunni að það er verið að leggja þetta mál sem var það stóra hitamál sem varð þess valdandi að hæstv. forsrh. varð að slíta þingi á afar sögulegan hátt í vor sem leið og hélt ríkisstjórninni meira og minna titrandi í allt sumar. Það mál er lagt fram á næstsíðasta degi samkvæmt starfsáætlun okkar á þessu haustþingi og á að keyra í gegn á sólarhring eða svo. Þetta eru náttúrlega algerlega vonlaus vinnubrögð, ekki síst þar sem hér er um að ræða breytingu á búvörulögunum sem lýtur að helsta stýritæki íslensks landbúnaðar á næstu árum. Og að mínu mati er það nauðsynlegt og hefði verið algerlega nauðsynlegt fyrir Alþingi eða landbn. að geta fengið einhvern tíma til þess að vinna að málinu.
    Ég segi fyrir mig að mér finnst nánast útilokað að afgreiða þetta mál sem hæstv. landbrh. sagði áðan að sneri eingöngu að EES. Við erum að fara í aðra vinnutörn þegar kæmi að GATT. Í mínum huga er afar erfitt að afgreiða þetta meðan svo háttar til að þær reglur sem á að beita við töku jöfnunargjalda gagnvart EES eru ekki tilbúnar. Það liggur ekki ljóst fyrir enn þá með hvaða hætti verðjöfnunargjöld verða reiknuð út við innflutning á mjólkurvörum. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, út frá því sem hæstv. landbrh. sagði hér áðan að það lægi á að afgreiða þetta nú fyrir áramót til að menn gætu hafið undirbúningsvinnuna en að mínu mati verður ósköp lítið úr undirbúningsvinnunni meðan menn vita ekki á hvaða grundvelli menn eru að vinna. Og við hljótum í landbn. að gera kröfu til þess áður en málið er afgreitt að okkur verði skýrt frá því í hvaða stöðu þessi vinna er. En það eru engar líkur á að því verði lokið fyrir áramót. EES-samningurinn eða þessi landbúnaðarkafli hvað þetta snertir tekur ekki gildi fyrr en 1. maí og að mínu mati hefði verið miklu farsælla að við hefðum nú tekið í þetta nokkra daga, seinni hlutann í janúar þegar þing kemur saman og legðum í þetta mál þá vinnu sem það á skilið. Ég vil nú leyfa mér að segja það hér að ég er ekkert viss um það þó að við afgreiðum þetta hér á morgun að það verði búið að vinna óskaplega mikla undirbúningsvinnu um 20. jan. þannig að Alþingi gæti leyft sér þann munað að taka þó ekki væri nema svona 2--3 daga í að vinna þetta mál en því sé ekki ruslað hér í gegn á annasamasta sólarhring þingsins á árinu þannig að ég varpa þessu fram til hæstv. landbrh., virðulegi forseti, hvort ekki sé hægt að standa þannig að málum. Ef ríkisstjórnin er samstiga í þessu máli þá er hægur vandi fyrir hana að gefa um það yfirlýsingu hvernig hún mundi túlka kröfur sem upp kynnu að koma fram að þeim tíma gagnvart innflutningi því að eins og ég sagði þá liggur það alveg ljóst fyrir að landbúnaðarþáttur EES tekur ekki gildi fyrr en 1. maí í fyrsta lagi. Ég vildi því, virðulegi forseti, að menn skoðuðu þennan möguleika og við gæfum okkur þann lágmarkstíma og þá lágmarksvirðingu sem mér finnst að við ættum að sýna þessu máli.
    Síðasti dagur á vorþinginu núna var mér á margan hátt minnisverður og ekki síst fyrir þann þátt sem þetta mál átti þá í þeim degi þar sem það mátti ekki koma til atkvæða því að það var vitað að fyrir því var bullandi meiri hluti á þinginu, en það var jafnframt vitað að væntanlega yrðu það stjórnarslit ef svo færi og ósköp hefði það nú verið mikið betra fyrir hið íslenska þjóðfélag að þannig hefði farið. En ég minni á að þá tók meiri hluti landbn. sem var skipaður af fulltrúum Sjálfstfl. og Framsfl. málið úr höndum ríkisstjórnarinnar ( Gripið fram í: Og Alþfl.) og Alþfl., með leyfi forseta, ég biðst forláts á því að hafa gleymt Alþfl. því það var reyndar fulltrúi Alþfl. í landbn. sem stóð að þessu en það lá ljóst fyrir að Alþfl. stóð ekki að málinu allur. Þetta var sá meiri hluti sem lagði fram þessar brtt. og það var reyndar komið svo undir kvöld þessa dags að hinir stjórnarandstöðuflokkarnir voru orðnir fýsandi þess og mæltu mjög með því að frv. yrði samþykkt þannig að þar lá alveg ljóst fyrir að fyrir málinu var meiri hluti.

    Það frv. sem lagt er fram núna er að nokkru breytt frá því máli sem þar lá fyrir og sú breyting sem þar er stærst eru þessir yfirfrakkar sem búið er að setja á landbrh. í málinu og hefur ekki í að minnsta fyrir mér a.m.k. verið útskýrt hvernig eiga að ganga fram. Hæstv. ráðherra sagði áðan að landbn. hefði hafið efnislega umfjöllun um málið núna í kvöldmatnum. Það er reyndar ekki rétt nema að parti. Fundurinn var boðaður okkur þannig að það ætti ekki að verða efnisleg umfjöllun, sem ekki varð, og það var fyrst og fremst verið að ræða um málsmeðferðina ( EgJ: Þeir mættu ekki, fulltrúar bændasamtakanna). Það var fyrst og fremst verið að ræða um málsmeðferðina og það var ekkert rætt annað þar.
    Eitt af því sem ég tel afar mikilvægt að liggi fyrir áður en þetta mál er afgreitt er lögfræðileg úttekt hinna mætustu og lögfróðustu manna á því hvað þessi 1. gr. í raun þýðir og það er hægt að lesa út úr henni ýmislegt. Ég get ekki lesið annað út úr henni en að það sé í raun þessi þriggja manna nefnd sem ákveði hvaða gjöld verði lögð á, en landbrh. hafi síðan heimild til að skjóta málinu til ríkisstjórnar ef honum líkar ekki. En hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin skal afla upplýsinga um verð sem álagning gjaldanna miðast við en jafnframt tryggja nauðsynlegt samráð milli ráðuneyta, þannig að þess sé gætt að samanlögð álagning innflutningsgjalda sé innan þeirra marka sem skilgreind eru í lögum eða milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Náist ekki samkomulag í nefndinni skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda.``
    Ég skil þetta þannig að nái nefndin samkomulagi þá hafi ráðherra ekkert með það að gera þar sem fulltrúar Sjálfstfl. hafa sagt að þetta geri ekkert til og skipti engu máli því að valdsvið ráðherra sé svo skýrt afmarkað í stjórnskipunarlögunum, hér er ekki fjölskipað vald, að það fari ekkert á milli mála að það sé ráðherra einn sem leggur þetta á og ræður gjaldinu. Ef það er svo, þá er þessi seinni hluti í málsgreininni um nefndina og ríkisstjórnarmeðferðina algerlega óþarfur og þjónar engum öðrum tilgangi en að þvæla málið og gera það að verkum að málið verður í opinni umræðu lengur og menn geta fengið tækifæri til þess að upphefja álíka hamagang og hefur verið núna að undanförnu ef hafa komið upp tilefni til innflutnings sem búvörulögin hafa enn sem komið er bannað. Það getur vel verið að þetta sé einmitt tilgangurinn hjá þeim sem hafa samið um að hafa þessi ákvæði þarna inni. Ég mun því beita mér fyrir því að það verði gerð við þetta brtt. og þessum seinni hluta breytt og það sem þarna er óþarft, að mati þeirra manna sem segja að landbrh. fari alfarið með þetta, verði tekið út úr greininni. Og ef það er svo eins og menn segja að landbrh. hafi þetta allt í hendi sér þá hljóta menn að vera sammála því að það er algerlega óþarfi að festa í lög málsmeðferð á málinu og ég vil varpa því fram og svari þá sá sem þekkir hversu algengt það sé að slík málsmeðferð alveg til úrskurðar ríkisstjórnar sé fest í lög. Mér finnst eðlilegt að það sem lýtur að stjórnskipuninni sé í stjórnskipunarlögum en þetta er því miður orðið allt of algengt að menn eru að binda inn í lagatexta um fagleg atriði einhverjar málamiðlanir sem menn ná sín á milli í stjórnarsamstarfi. Frægasta dæmið er kannski í skattamálum sem gert var á síðasta ári eða árinu þar áður þegar settur var inn í lagatexta hluti af stjórnarsáttmálanum um það hvernig ætti eftir tvö ár að fara með skattlagningu á arði hlutafjár. Það var held ég á þeim tíma einsdæmi en menn eru að halda áfram með þetta að setja eitthvert samkomulag sem næst innan stjórnarflokka í lagatexta í faglögum. Það held ég að séu ekki góð vinnubrögð.
    Virðulegi forseti. Ég vil ekki halda mjög mikið lengri ræðu um þetta. Ég vil þó ítreka það sem ég sagði í umræðu um GATT-málið um daginn að það hvernig þeir alþjóðlegu samningar, þegar við tökum á þeim, koma við íslenskan landbúnað og íslenskt atvinnulíf er innanríkismál fyrst og fremst, ekki utanríkismál. Og framkvæmdin byggist á þeim lagagrunni sem við setjum henni og þess vegna ítreka ég það sem ég sagði í upphafi minnar ræðu að það er afar mikilvægt að það sé vandað til þeirrar lagasetningar og Alþingi gefi sér lágmarkstíma.
    Ég var nú svo hógvær áðan að ég nefndi ekki meira en 2--3 daga þannig að við þyrftum ekki að vera að afgreiða þetta á einum sólarhring og það meira að segja mesta annasólarhring á árinu þannig að við gætum nú fengið almennilega úr því skorið hvað þetta þýðir, hvort þetta er hreppsnefndaleiðin að ráðherra verði að fara með málið alla leið upp í ríkisstjórn og bera það þar upp og lúta meiri hluta atkvæðagreiðslu eins og oddviti í hreppsnefnd eða hvort þarna er eingöngu verið að lögbinda eitthvert samkomulag stjórnarflokkanna sem maður veit þá ekkert hvað stendur á bak við.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að halda lengri ræðu við 1. umr. en ég ítreka að það er mikil nauðsyn á því að þetta mál fái efnislega og góða umfjöllun á hinu háa Alþingi.