Framleiðsla og sala á búvörum

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 22:55:04 (2967)


[22:55]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál við þessa umræðu. Hv. 3. þm. Norðurl. v. sem sæti á í landbn. fyrir Alþb. hefur þegar talað og gert grein fyrir okkar viðhorfi. Ég vil fyrst og fremst undirstrika það að af minni hálfu ber ekki að fjalla um þessi mál með þeim hætti að einhver grundvallarbreyting sé að verða á verkaskiptingu í Stjórnarráðinu með tilkomu þessa frv. Ég minni á að samkvæmt búvörulögum hefur landbrn. farið með forræði hvað varðar ákvarðanir um innflutning búvara, alls þess sem telst búvara í skilningi búvörulaga, og að mínu mati er það sjálfgefið mál að svoleiðis á það að vera áfram. Með breyttum tíma og breyttum aðstæðum þegar svo er komið sem við væntanlega stöndum frammi fyrir að ákvarðanir um innflutning búvara byggja á öðrum grunni en fyrr, þ.e. ekki teknar einfaldar ákvarðanir um innflutning eða ekki innflutning, þá er það að mínu mati eðlilegt framhald af þeirri verkaskiptingu í Stjórnarráðinu að þau stjórntæki sem að þeim innflutningi snúa, og í þessu tilviki verða það jöfnunargjöldin, séu þá áfram í höndum sama stjórnvalds og verið hefur, þess sem fer með landbúnaðarmál.
    Hitt er auðvitað ljóst að með því færist þetta verkefni að nokkru leyti yfir á efnissvið sem er á verkefni annarra ráðuneyta. Það er út af fyrir sig ljóst að tollamál heyra undir ráðuneyti og innflutningsverslun undir viðskrn. sem slík. Þess vegna má segja að það sé kannski ekki óeðlilegt að upp komi ákveðin grundvallarumræða um það hvernig þessum málum eigi þá að haga.
    Ég ætla ekki að draga það í efa að hið formlega forræði þessa máls verði með þessari framsetningu í höndum landbrh. Ég ætla að leyfa mér að vona að sú túlkun þessara laga standist að hið formlega forræði sé í höndum landbrh. ( Gripið fram í: Hvar stendur það?) Það tel ég að standi, hv. þm., í 1. mgr. 1. gr. og reyndar í fyrri hluta 3. mgr. þar sem talað er ótvírætt um hlutverk landbrh. í þessu sambandi. Hitt er alveg ljóst að sú leið sem landbrh. er með þessu frv. þvingaður til að fara áður en hann getur tekið sínar ákvarðanir er meira en lítið krókótt ef svo ber undir. Það er líka ljóst að í síðari hluta 1. gr. frv. er orðalagið gert óljósara en það ætti að mínu mati að vera til þess að varðveita út í gegnum textann það forræði, formlegt og efnislegt, sem ég vil að landbrh. hafi í þessu máli. Þess vegna eru mér það vonbrigði ef það er hin efnislega niðurstaða í samkomulagi ríkisstjórnarinnar að landbrh. skuli hafa ótvírætt forræði að menn hafi þá ekki náð saman um að orða lagatextann skýrar. En eins og ég segi ætla ég ekki að draga hitt í efa fyrr en annað kemur í ljós.
    Það er rétt að minna á það og hefur reyndar þegar verið gert hér að þetta frv. á sér nokkuð skondna sögu svo að ekki sé meira sagt. Því það lá við stjórnarslitum hér að sögn á sl. vori vegna þess að annar stjórnarflokkurinn gat með engu móti unað þeirri niðurstöðu sem þá var í sjónmáli. Og einhver sögulegustu þingslit sem orðið hafa í þessari stofnun voru bein afleiðing af því þar sem hæstv. forsrh. nánast tók orðið af forseta þingsins, rauk í stólinn og sleit þinginu umbúðalaust. Menn komu ekki einu sinni við hefðbundnum þakkarrollum og góðum óskum hver í annars garð því að hæstv. forsrh. lá svo mikið á að bjarga ríkisstjórninni þegar hann rauk til og sleit þinginu. Í því ljósi er það nokkuð sérkennilegt að þetta frv. skuli birtast og vera til 1. umr. í dag en það mun enn vera 17. des., ef ég veit rétt, hæstv. forseti, og í raun enn furðulegra að pappírinn skuli ekki vera ítarlegri og meiri að vöxtum en þetta. Það þykir mér benda til þess að þetta mál hafi í raun og veru verið í algerri pattstöðu í ríkisstjórninni þangað til fyrir aðeins fáeinum sólarhringum og menn hafi síðan á handahlaupum bjargað þessari örk inn í þingið eftir að loksins náðist niðurstaða í málinu. Og þá bara er það þannig. Út af fyrir sig er ekki mikið um það að segja því ég gef mér það að ef efnislegt samkomulag og niðurstaða hefði legið fyrir fyrr þá hefði málið komið hér inn í miklu ítarlegri búningi og betur útfært. Svo er ekki og þá er bara að taka því og vonandi er þá hægt að bæta úr því sem á vantar á síðari stigum.
    Auðvitað er það þannig, hæstv. forseti, að eigi að ræða þessi mál af einhverju samhengi, þá er

óhjákvæmilegt að gera það í tengslum við það breytta landslag sem landbúnaður á Íslandi á nú að fara að starfa í, þ.e. gerbreyttar aðstæður hvað varðar væntanlega samkeppni við innfluttar búvörur. Og þá verð ég að segja alveg eins og er að auðvitað er það manni mikið umhugsunarefni hvernig þeir hlutir hafa þróast. Má þar nefna niðurstöðuna af GATT-samningunum, sem ég tel að þegar frá líði verði miklu afdrifaríkari niðurstaða fyrir íslenskan landbúnað en nokkurn tíma samningarnir um Evrópskt efnahagssvæði. Það sýnist mér alveg ljóst vegna þess að samkvæmt GATT-reglum opnast fyrir nánast allar búvörur inn í landið sem ekki er hægt að stoppa vegna sjúkdómavarna.
    Sömuleiðis eru áhyggjuefni þau svið sem snúa að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og t.d. opna fyrir nánast óheftan innflutning á grænmeti til landsins á miklu lægra verði en íslensk framleiðsla getur a.m.k. við núverandi aðstæður keppt við. Má þar nefna til að mynda kartöflur og fleira grænmeti. Það er mat margra að til að mynda sú grein muni eiga næsta erfitt uppdráttar eftir að þessi breytta skipan kemur.
    Ég held að það sé í sjálfu sér miklu meira áhyggjuefni hver grundvöllur okkar er gagnvart þessum nýju tímum en sú forræðisdeila eða heimilisfestisdeila sem staðið hefur um þetta mál gefandi sér að menn verði almennt á einhverjum vitrænum nótum í landbúnaðarstefnu á Íslandi á næstu árum, þau mál lendi ekki undir hælinn á krötum eða eitthvað þaðan af verra, og menn verði hér standandi í lappirnar á komandi árum til þess að verja íslenska framleiðslu hvort heldur það er landbúnaðarframleiðsla eða önnur íslensk framleiðsla.
    Ég hef satt best að segja miklu meiri áhyggjur af því að vígstaðan gagnvart hinum breyttu tímum og væntanlegri samkeppni unninna búvara vegna GATT-samninga og að nokkru leyti EES-samninga sé veik. Þar tel ég því miður að hlutur hæstv. landbrh. hafi verið sýnu lakari en hann er væntanlega og vonandi að verða í þessu máli. Það byggi ég einfaldlega á því að ég tel að upphafsstaða okkar gagnvart jöfnunargildum í GATT-samningunum hafi verið veikt í samningum hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. Við hefðum þurft að byrja þar í hærri og sterkari upphafsstöðu til að geta síðan uppfyllt að okkar leyti þá lækkun sem þar er boðuð. Og auðvitað er það svo að menn höfðu í því sambandi lengi bundið vonir við að við gætum varið hér magntakmarkanir á a.m.k. hinum hefðbundnu búvörum en síðan voru þær varnir gefnar eftir á lokasprettinum. Þá standa eftir tollígildin ein og þar hafði verið samið, því miður, milli hæstv. landbrh. og utanrrh. um tilslökun frá þeim ýtrustu kröfum sem ég tel að við Íslendingar hefðum haft stöðu til að gera ef við hefðum staðið jafnfast í ístaðinu og til að mynda þjóðir eins og Finnar og Norðmenn.
    Þess vegna er það sýnu meira áhyggjuefni að mínu mati hvernig á þessum málum verður haldið og þetta þróast en hitt. Ef sú túlkun mín er rétt á þessu frv., sem ég vil halda í, að a.m.k. hið formlega forræði málsins sé hjá hæstv. landbrh., þá lít ég svo á málin.
    Hitt tek ég undir sem hér hefur komið fram hjá mörgum, t.d. hv. 2. þm. Suðurl. og hv. 3. þm. Norðurl. v., að það er auðvitað með öllu óþolandi að þessu máli verði lokað í nokkurri minnstu óvissu um hina efnislegu niðurstöðu. Þannig eiga menn ekki að ganga frá ágreiningsmálum um mikilvæg mál að þeir dulbúi ágreininginn í formi óvissu inn í framtíðina. Það gengur ekki í svona máli. Það er öllum fyrir bestu að fá um það hreina niðurstöðu hvernig þetta liggur bæði formlega og efnislega. Og ef eitthvað slíkt er hér á ferðinni í þessum skrautblómum í síðari hluta 1. gr. hvað texta snertir, þá þarf það ósköp einfaldlega að upplýsast við umræðuna, í vinnu landbn. og áður en málið fær afgreiðslu. Ég vænti þess að hæstv. landbrh. sé tilbúinn til að ganga í lið með okkur hvað það snertir að eyða allri óvissu.
    Ég tek undir það og vona að hv. landbn. geti þrátt fyrir aðstæður gefið sér tíma til að kalla til sín löglærða menn og fara yfir það með bestu fáanlegum sérfræðingum hvort þessi skipan sem hér er sett upp standist stjórnsýslulega séð og lendi ekki á einhverju gráu svæði eða einhverri óvissu á grundvelli verkaskiptingar Stjórnarráðsins o.s.frv. Ástæðan fyrir því að ég tel þetta mikilvægt, ekki síður vegna textans, og getur mönnum sýnst sitt hvað um hann, er þessi sama gamla góða að hæstv. utanrrh. er kominn á fulla ferð með að reyna að barna hlutina og túlka þá hvar sem hann er nú staddir um þessar mundir, blessaður. Einhverjir sögðu að hann væri á Interrail ferðalagi um Evrópu sem Alþfl. hefði keypt undir hann til að hann gæti verið fjarstaddur afgreiðslu málsins á lokasprettinum. Nú skal ég ekki segja um það. Aðrir hafa e.t.v. traustari upplýsingar um það hvar hæstv. utanrrh. er.
    En þetta gengur náttúrlega ekki að hæstv. utanrrh. sé með tilburði uppi strax til þess að reyna að túlka málið í þá veru að hvað? --- að forræði landbrh. sé takmarkað, sé skert. Er þar á ferðinni eitthvað annað en stendur í textanum? Við verðum að fá upplýsingar um það ef svo er. Er e.t.v. til eitthvert baksamkomulag eða hvað er hér á ferðinni?
    Þessa hluti verður að taka algerlega upp á yfirborðið. Þó svo ég sé fylgjandi því og jákvæður gagnvart því að þetta mál fái afgreiðslu ef það er í reynd það sem sagt hefur verið, frv. sem festir alveg í sessi forræði landbrh. í þessu máli, þá er ég að hinu leytinu ekki tilbúinn til þess að taka þátt í því að hylma yfir einhvern ágreining ef verið er að dulbúa hann í óljósum textum og skilja eftir svigrúm til handa hæstv. utanrrh. að barna það svo út og suður um leið og blekið er þornað á pappírunum. Við höfum ekki góða reynslu af því að treysta orðum hæstv. utanrrh. þegar samkomulag, skrifað eða óskrifað, á í hlut. Eða muna menn samninga hans og samkomulag út og suður við samningamenn Evrópubandalagsins sem aldrei stóð svo steinn yfir steini gagnvart? Hvernig var með langhalann? Samkomulagið um langhalann sem var kynnt íslenskum útgerðarmönnum og breyttist svo í karfa á einni nóttu? Þannig gerninga skulum við ekki láta lögfestast hér í neinni mynd heldur hafa textana alveg skýra. Það lá fyrir á sl. vori alveg ótvírætt, því var ekki á móti mælt, að það er hreinn og klár þingmeirihluti fyrir því að lögfesta ótvírætt forræði landbrn. og þá skulum við gera það. Þá skulum við gera það og láta það standa í textanum sem við meinum og viljum og ekkert annað.