Prestssetur

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 23:32:23 (2978)

[23:32]
     Ólafur Ragnar Grímsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Í umræðunni seint í gærkvöldi og sl. nótt gerðum við hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og ég athugasemdir við 4. gr. frv. sérstaklega og í ljósi umsagnar fjmrn. sem fylgdi með frv. sem sérstakt fskj. Athugasemdir mínar gengu út á það að í samræmi við þær reglur sem menn hefðu virt hér á undanförnum árum og þær skoðanir sem væru bæði réttar og eðlilegar varðandi meðferð ríkiseigna, væri ekki rétt að veita heimild til sölu prestssetra og réttinda sem þeim tengjast nema Alþingi veitti sérstakt samþykki fyrir því. Ég óskaði eftir því að fá að gera hlé á ræðu minni og umræðunni yrði frestað svo að tími gæfist til þess að ræða við hæstv. ráðherra um stöðu málsins og nauðsynlegar breytingar á frv.
    Nú hefur það gerst síðan þetta var að hæstv. kirkjumálaráðherra hefur hér lagt fram brtt. á þskj. 443 þar sem skýrt er tekið fram að ekki sé heimilt að selja prestssetur eða réttindi sem þeim tengjast nema með samþykki Alþingis. Þetta er alveg skýrt og ótvírætt og í samræmi við þær venjur sem hér hafa verið. Ég fagna því að þessi brtt. er fram komin. Ég tel þess vegna ekki þörf á því að segja neitt meira um málið vegna þess að brtt. talar alveg skýru máli og ég tel að það sýni bæði vit og vilja að taka tillit til þeirra athugasemda sem fram komu í nótt og flytja þá brtt. sem hér hefur verið flutt. Í sjálfu sér sé ég þess vegna ekki þörf á því að halda áfram minni ræðu um málið og er reiðubúinn að ganga til afgreiðslu á frv. í ljósi þeirrar brtt. sem fram hefur komið.