Prestssetur

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 23:45:37 (2984)


[23:45]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það vakti nokkra athygli við 1. umr. þessa máls að ég bað um orðið og setti þá á nokkra ræðu um þetta efni, nákvæmlega það efni sem hér er verið að ræða um. Þá ræddi ég það fyrst og fremst á þeim forsendum að það væri um að ræða stefnubreytingu og því var ekki hafnað. Það sem ég tel að hafi hins vegar gerst núna og ég fagna og ég tel skynsamlegt, er það að Alþingi ákveður að blanda sér ekki í þá vinnu sem nú er í gangi á vegum kirkjueignanefndar. Ég tel með öðrum orðum að nefndin sé algerlega óbundin í þeim efnum, að hvaða niðurstöðu hún kemst í þessu sambandi, og þar til hún kemst að niðurstöðu og hefur lagt hana fyrir Alþingi, þá gildir sú skipan þessara mála sem verið hefur, án þess

út af fyrir sig að menn séu að taka afstöðu til þess hvort hún eigi að gilda um aldur og ævi. Það kemur málinu ekki við. Aðalatriðið er að menn eru að lenda þessu með miklu skynsamlegri hætti heldur en horfur voru á og ég vil segja það fyrir mitt leyti, m.a. með hliðsjón af orðum hv. 2. þm. Vestf., að ég treysti mér vel til að styðja frv. um prestssetur eins og það lítur út núna. Ég segi hins vegar ekki það sama um frv. um kirkjumálasjóð. Ég treysti mér ómögulega til þess að greiða því atkvæði eins og það lítur út enn þá.