Prestssetur

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 23:49:30 (2986)


[23:49]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst satt að segja nauðsynlegt að hnykkja aðeins á því að þegar málið var upphaflega lagt hér fyrir, þá var það lagt hér fyrir sem hluti af þeirri almennu stefnubreytingu sem nú er verið að framkvæma á grundvelli umræðna á síðasta kirkjuþingi, að kirkjan fái í vaxandi mæli sjálfstæði yfir sínum málum. Og þar var m.a. gert ráð fyrir því að ganga svo langt að prestssetrasjóður, kirkjuþing og dómsmrh. gætu án atbeina Alþingis ráðstafað eigum þessara aðila. Það er það sem menn voru að mótmæla og það er þar sem ég tel að menn hafi dregið í land, ef samþykkt verður sú brtt. sem hæstv. kirkjumálaráðherra hefur hér flutt til málamiðlunar og ég tel að það sé skynsamlegt af honum ( ÓÞÞ: Og útlit er fyrir að verði samþykkt.) að hafa gert það. --- Og útlit er fyrir að verði samþykkt, þar mælir hv. 2. Vestf., sem á sannarlega heiðurinn af því að hafa haldið mönnum vakandi í þessu máli á undanförnum sólarhringum.