Prestssetur

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 23:54:10 (2988)


[23:54]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að þingheimur geri sér ljóst að sú brtt. sem hér hefur verið flutt og á bersýnilega þó nokkurn stuðning, er efnisleg brtt. og efnisleg lending í málinu og hún er væntanlega flutt og verður vonandi samþykkt vegna þess að á bak við það eru efnisleg rök, en ekki þau að stjórnarandstaðan hafi á einhvern hátt verið að misnota aðstöðu sína hér í lok þingsins. Ég vísa þeim ummælum hv. formanns allshn. algerlega á bug, að stjórnarandstaðan sé á nokkurn hátt að misnota aðstöðu sína hér í lok þingsins. Ég satt að segja kann ekki við málflutning af þessu tagi og ef það er svo, þá verður meiri hlutinn að gagnrýna sjálfan sig fyrir það að láta stjórnarandstöðuna komast upp með það að knýja fram hluti sem eru kannski vitlausir, vegna þess að tíminn er naumur. Það gengur auðvitað ekki fyrir stjórnarliðið að setja málin upp með þessum hætti. Það er algerlega útilokað, hæstv. forseti, og ég mótmæli því harðlega.
    Hins vegar vil ég segja, að mér sýnist á öllu og hefur sýnst í þessu máli, eins og oft áður, að allshn. vinni vel og miðað við allar aðstæður hafi hún komist yfir ótrúlega mikil og nákvæm fundahöld í þessu máli. Hún verður þó að viðurkenna, eins og aðrir þingmenn, að það var ekki fyrr en tekið var á málum með sérstökum hætti í gærdag að þingheimur áttaði sig á því hvað hér var á ferðinni og þess vegna er niðurstaðan með þeim hætti sem hún birtist okkur í þessari ágætu málamiðlunarbrtt. hæstv. kirkjumrh.