Réttarfar, atvinnuréttindi o.fl.

66. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 00:24:56 (3000)


[00:24]
     Frsm. 1. minni hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti á þskj. 387 fyrir hönd 1. minni hluta allshn. og við leggjum til að frv. verði samþykkt óbreytt.
    Nefndarálitið er um frv. til laga um breytingu á ýmsum lögum sem varða réttarfar, atvinnuréttindi o.fl. vegna aðildar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.
    Nefndin fjallaði um málið á 116. og 117. löggjafarþingi og fékk á fund sinn fjölmarga aðila og nefndinni bárust einnig umsagnir frá mjög mörgum aðilum. Að öðru leyti, um innihald þessa nefndarálits, vísa ég til þingskjalsins, en undir nefndarálitið rita Sólveig Pétursdóttir, Gísli S. Einarsson, Björn Bjarnason og Eyjólfur Konráð Jónsson, með fyrirvara.
    Með þessu frv., virðulegi forseti, eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum á sviði dóms- og kirkjumála landsins til að laga þau að þörfum vegna aðildar Íslands að EES. Eins og kemur fram í almennum athugasemdum við frv. má rekja flestar breytingarnar sem eru lagðar þar til til fjögurra atriða sem tengjast EES.
    Í fyrsta lagi er talsverður hluti þessara breytinga lagður til vegna reglna EES um réttindi manna sem eru þegnar einhvers samningsríkisins til fjárfestinga, atvinnustarfsemi, ferða og dvalar í öðrum samningsríkjum.
    Í öðru lagi eiga nokkur ákvæði frv. rætur að rekja til reglna á EES um viðurkenningu samningsríkjanna á sérfræðimenntun og starfsþjálfun sem hefur verið fengin í einhverju ríkjanna. Í frv. koma áhrif þessara reglna aðallega fram í tillögum um breytingar á lögum þar sem embættispróf frá Háskóla Íslands hefur verið áskilið fyrir starfsréttindum. Breytingarnar miða að því að sambærileg próf frá öðrum löndum geti verið metin jafngild, en það ætti þá undir stjórnvöld sem veita viðkomandi starfsréttindi, að leggja mat á hvort menntun og þekking þess sem hefur erlent lagapróf verði talið samsvara því sem fengist með íslensku lagaprófi.
    Í þriðja lagi tengjast nokkur ákvæði frv. reglum um EES sem varða leyfisbundna þjónustustarfsemi og ráðgera að leyfishafar í einu samningsríki geti starfað í öðrum. Þessar reglur varða nánar tiltekið málflytjendur, fasteignasala, skipasala og niðurjöfnunarmenn sjótjóna.
    Í fjórða lagi eru loks lagðar til breytingar á gildandi lögum sem tengjast svokölluðum EES-samningi eða samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Þessi fjögur meginatriði skýra meira eða minna flest ákvæði frv. Mér þykir þó rétt að víkja hér í stuttu máli að hverjum kafla þess og þá einkum með hliðsjón af þessum meginatriðum.
    Í I. kafla frv., þar sem lagðar eru til breytingar á reglum um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóna, er tekið mið af þremur af áðurnefndum fjórum meginatriðum að baki frv. Með reglum I. kafla er þannig lagt til að eldri reglur sem setja íslenskt ríkisfang eða lögheimili um tiltekinn tíma að skilyrði fyrir þessum starfsréttindum breytist þannig að lögheimili hér nægi eitt út af fyrir sig. Það er í annan stað ráðgert að skilyrði um íslenskt embættispróf í lögum verði fellt niður sem afdráttarlaust skilyrði. Loks er lagt til að maður sem hefur fengið löggildingu til þessara starfa í öðru ríki EES geti fengið sams konar löggildingu hér á landi með tiltölulega greiðum hætti.
    Í II. kafla frv. er ráðgerð ein breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, sem felst í fyrirmælum um refsinæmi þess að maður gefur rangan framburð fyrir EFTA-dómstólnum, en þessi breyting er afleiðing af ákvæðum áðurnefnds EES-samnings.
    Í III. kafla eru tillögur um breytingar á lögum um málflytjendur frá 1942 sem eru gerðar til að laga lögin að reglum EES að þrennu leyti. Í fyrsta lagi er lagt til að það skilyrði fyrir að hljóta málflutningsleyfi hér á landi, að viðkomandi njóti íslensks ríkisborgararéttar eða hafi átt hér lögheimili tiltekinn tíma, verði fellt niður.
    Í öðru lagi felst í reglum III. kafla að skilyrði um íslenskt lagapróf verði breytt með sama hætti og áður var lýst þannig að sambærilegt erlent háskólapróf geti komið að sama haldi.
    Loks er lagt til í þriðja lagi að menn sem hafa fengið málflutningsleyfi í öðru EES-ríki geti notað það leyfi með takmörkuðum hætti til að flytja mál fyrir íslenskum dómstólum að fullnægðu því skilyrði að maður með íslenskt málflutningsleyfi starfi með honum að því en að auki er ráðgert að dómsmrh. geti sett almennar reglur um heimildir til að veita mönnum íslenskt málflutningsleyfi ef þeir hafa fengið sams konar leyfi erlendis.
    Í IV. kafla frv. eru lagðar til lítils háttar breytingar á lögum um prentrétt, nr. 57/1956, en með þeim

er stefnt að afnámi skilyrða um að útgefandi og ritstjóri blaðs eða tímarits svo og sá sem annast dreifingu rits hér á landi þurfi að vera íslenskur ríkisborgari eða hafa átt lögheimili hér um einhvern lágmarkstíma. Þess í stað er miðað við að viðkomandi þurfi að eiga lögheimili hér þegar hann fæst við þessi störf og á það sama einnig við um félag sem hefði með höndum dreifingu ritaðs máls hér á landi.
    Með V. kafla frv. er gert ráð fyrir ýmsum breytingum á lögum um eftirlit með útlendingum en þær eru að verulegu leyti afleiðingar af EES-reglum um frjálsa fólksflutninga. Reglurnar um frjálsa fólksflutninga fela m.a. í sér að aðildarríki að EES verða að tryggja útlendingum frá öðrum samningsríkjum rétt til að kæra ákvarðanir stjórnvalda varðandi m.a. dvalarleyfi og brottvísun úr landi til æðra stjórnvalds. Eftir núverandi reglum laga nr. 45/1965 er slíkur réttur ekki fyrir hendi. Með frv. er ráðgert að tryggja þennan kærurétt með því að ýmsar ákvarðanir sem hafa verið í höndum dómsmrh. til þessa eiga að færast undir útlendingaeftirlitið en ákvarðanir eða úrskurðir þess geta síðan sætt kæru til ráðuneytis eftir reglum 16. gr. frv. Þetta er að mínu mati tímabær réttarbót án tillits til lagabreytinga vegna aðildar að EES enda hefur íslensk löggjöf við núverandi mynd ekki fullnægt kröfum samkvæmt 7. viðauka við Mannréttindasáttamála Evrópu sem Íslendingar hafa fullgilt og áskilur einmitt kærurétt af þessum toga.
    Í VI. kafla frv. er síðan að finna tillögur um breytingar á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966.
    Eins og kemur fram í athugasemdum við frv. leiðir það af þriðja hluta EES-samningsins og viðaukum 5, 8 og 12 að veita verður ríkisborgurum annarra samningsríkja sama rétt til fasteignakaupa hér á landi og íslenskum ríkisborgurum að því leyti sem það er nauðsynlegt til að þeir fyrrnefndu geti nýtt sér þau réttindi sem samningurinn veitir þeim til frjálsra fólksflutninga, staðfestu og þjónustustarfsemi.
    Ákvæði VI. kafla frv. eiga að tryggja þennan rétt þegna annarra EES-ríkja.
    Um reglur þessara kafla tel ég ástæðu til að minnast sérstaklega á fimm atriði.
    Í fyrsta lagi verður að undirstrika að EES-samningurinn á ekki að veita almenna heimild til fjárfestinga í fasteignum hér á landi heldur þarf að heimila þegnum EES-ríkja fjárfestingar hér á landi sem eru nauðsynlegar til að nýta réttindi sín til frjálsra fólksflutninga, staðfestu og þjónustustarfsemi. Reglur VI. kafla frv. ganga heldur ekki lengra en að mæta þessum þörfum.
    Í öðru lagi tel ég ástæðu til að geta þess að til að geta nýtt sér þessi réttindi verður maður frá öðru EES-ríki að geta keypt húsnæði hér á landi til íbúðar og fyrir atvinnurekstur sinn. Rétturinn til að öðlast eignarréttindi yfir slíkar fasteignir getur ekki verið bundinn skilyrðum um búsetu hér á landi vegna EES-samningsins en hins vegar má halda utan við þetta þeim eignum sem eru ekki nauðsynlegar til að nýta réttindi samkvæmt samningnum. Má þannig t.d. ákveða með nánari reglum að búseta hér á landi yrði skilyrði fyrir slíkum kaupum á sumarbústað en í 22. gr. frv. er ráðgert að ráðherra setji frekari reglur um það til hvers konar fasteigna þessi réttur íbúa EES taki.
    Í þriðja lagi er þarft að minnast þess að þau lög sem ákvæðum VI. kafla frv. er ætlað að breyta eru aðeins almenn lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna og hafa þau því ekki áhrif t.d. á jarðalög og ábúðarlög sem ganga framar lögum nr. 19/1966 varðandi þær fasteignir sem þær taka til. Í jarðalögum og ábúðarlögum er að finna ýmis skilyrði varðandi búsetu og afskipti þess opinbera að eigendaskiptum að eignum og munu slíkar sérreglur standast ákvæði EES-samningsins að því leyti sem þeim er ekki beitt til mismununar íslenskra ríkisborgara og þegna annarra EES-ríkja.
    Í fjórða lagi vil ég minnast þess að í 23. gr. frv. er ráðgert að gætt verði að því að reglum um þessi réttindi vegna samningsins um EES sé ekki misbeitt við þinglýsingu á skjölum varðandi eignarréttindi yfir fasteignum. Er þá miðað við að synja verði þinglýsingu þar til sýnt er fram á að skilyrði séu fyrir að viðkomandi megi kaupa eignina á þessum grundvelli.
    Loks má nefna í fimmta lagi að jafnframt breytingum á ákvæðum nr. 19/1966 vegna EES-samningsins eru nokkrar breytingar lagðar til á 1. gr. laganna til samræmingar og gleggri framsetningar.
    Í frv. er ekki gert ráð fyrir efnisbreytingum að þessu leyti heldur er verið að einfalda framsetningu reglnanna.
    Með VII. kafla frv. eru síðan gerðar tillögur um breytingar á reglum laga nr. 34/1986 varðandi heimildir til að starfa sem fasteigna- eða skipasali. Er nánar tiltekið ráðgert að fella niður skilyrði um íslenskan ríkisborgararétt til að geta fengið slíkt starfsleyfi hér á landi auk þess að miðað er að því að þeir sem hafa fengið sams konar leyfi í öðru ríki á EES-svæðinu geti leitað eftir leyfi hér á landi án þess að þurfa að þreyta prófraun til fullnaðar til að öðlast réttindin samkvæmt almennum reglum um hana.
    Í VIII. kafla er síðan lagt til að breyting verði á reglum laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði varðandi skilyrði til að hljóta embætti héraðsdómara þannig að erlent háskólapróf í lögum geti komið í stað íslensks embættisprófs ef það verður metið sambærilegt því íslenska og viðkomandi telst að auki hafa næga þekkingu á íslenskum lögum til að geta gegnt slíku embætti. Er þá gengið út frá því að það kæmi í hlut prófnefndar sem lætur uppi umsögn um umsækjendur um héraðsdómaraembætti, skv. 5. gr. laganna, að meta hvort erlent háskólapróf verði talið sambærilegt því íslenska og umsækjandi hafi sýnt fram á næga þekkingu á íslenskum lögum.
    Loks er í IX. kafla frv. lagt til að lítils háttar breyting verði gerð á ákvæðum laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, til að fullnægja þörfum samkvæmt stofnsamþykkt EFTA-dómstólsins þar sem er ráðgert að hann geti leitað eftir því að dómstólar í EFTA-ríkjunum taki við munnlegum skýrslum vitna og

sérfræðinga í tengslum við rekstur máls fyrir honum. Skv. 28. gr. frv. yrði þetta gert eftir almennum reglum laganna um skýrslutöku af vitnum.
    Virðulegi forseti. Fyrsti minni hluti allshn. leggur til að frv. þetta verði samþykkt óbreytt.