Tekjustofnar sveitarfélaga

66. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 01:17:54 (3006)

[01:17]
     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Hv. 2. þm. Vesturl. hefur gert grein fyrir áliti minni hluta félmn. í þessu máli en þar sem framvinda þessa máls hefur verið allmerkileg síðan það kom fyrir félmn. vil ég fara nokkrum orðum um þetta mál til viðbótar því sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vesturl.
    Þetta mál er dæmigert fyrir vinnubrögðin á Alþingi undanfarnar vikur. Það er í rauninni ekki við þingmenn að sakast í þessu efni. Þetta frv. er viðamikið, tekur á viðkvæmum þætti skattamála og var seint komið fram þrátt fyrir að nál. sem það byggir á væri komið fram miklu fyrr. Það varð til þess að félmn. var í afar þröngri stöðu til að vinna að þessu máli. Það var reynt að fara yfir það eftir föngum í nefndinni og ég held að það megi segja það með fullum rétti að við stjórnarandstæðingar töfðum ekki fyrir þessu

máli. ( RG: Það er rétt, Jón.) Það er rétt, segir hv. formaður félmn. Hins vegar var gripið inn í þetta mál með nokkuð einkennilegum hætti af hæstv. ríkisstjórn og mun ég koma nánar að því máli síðar.
    Tekjustofnar sveitarfélaga eru viðamikill málaflokkur og viðkvæmur og hefur löngum verið til meðferðar hjá löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu og samtökum sveitarfélaga og sveitarstjórnarmönnum. Núverandi tekjustofnalög eru frá árinu 1989 en þá var samþykkt löggjöf á Alþingi um tekjustofna sveitarfélaga sem mörkuðu nokkur tímamót og bættu mjög fjárhagsstöðu sveitarfélaganna í landinu. Ég held að það blandist engum hugur um að með þeim lögum sem sett voru í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar var staða þeirra styrkt mjög.
    Hins vegar tókst ekki þá að breyta aðstöðugjaldinu en í því var nokkuð innbyggt óréttlæti þar sem tekjur sveitarfélaga af aðstöðugjaldinu voru afar misjafnar. Ekki síst átti það við í Reykjavík þar sem það var t.d. þannig árið 1991 að aðstöðugjaldið var 27.500 kr. á íbúa í Reykjavík en 18.551 á Akureyri sem er þjónustukjarni og höfuðborg Norðurlands og veitir að mörgu leyti svipaða þjónustu og í Reykjavík þó í smærri stíl sé auðvitað. Það þarf ekki að rekja það að í skjóli þessara tekna var bruðlað mikið í Reykjavíkurborg og sú saga hefur verið rakin margoft hér þannig að ég þarf ekki að endurtaka hana.
    En þar kom að aðstöðugjaldið var fellt niður og það var m.a. til þess að tryggja samkeppnisstöðu atvinnuveganna og samræma skattlagningu því sem gerist í nágrannalöndunum. Aðstöðugjaldið hafði ýmsa galla og auðvitað kosti líka en það var samkomulag um að fella það niður og taka upp bráðabirgðafyrirkomulag í staðinn sem átti að gilda í eitt ár. Það bráðabirgðafyrirkomulag var þannig að sveitarfélögin fengu aukinn hluta í staðgreiðslunni og þeim var bætt aðstöðugjaldið frá ríkinu miðað við 80% innheimtu. Það er kannski nokkur tilviljun að þetta innheimtuhlutfall var miðað við innheimtuhlutfallið í Reykjavík. Það er það viðmið sem a.m.k. stærri stjórnarflokkurinn í þessu stjórnarsamstarfi hefur. Það er litið yfir í ráðhúsið eins og ég kem nánar að.
    Það var allmikil óánægja ýmissa sveitarfélaga sem höfðu hærra innheimtuhlutfall en 80% með þetta fyrirkomulag. M.a. voru ýmis stærri sveitarfélög með allt upp í 97% innheimtu.
    En nú er þetta frv. komið og það kveður á um það að hækka útsvarið upp í 9,2% og taka upp fasteignaskatt í tveimur þrepum og það hærra á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það að taka upp fasteignaskatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði er auðvitað til að losa ríkissjóð við að leggja þennan skatt á. Þessi skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði hefur verið mikið vandræðabarn sérstaklega hjá Sjálfstfl. í gegnum tíðina og hefur komið árvisst inn á þessum tíma og er nú falinn inni í þessu tekjustofnafrumvarpi sveitarfélaga.
    Það er því miður svo að hv. 5. þm. Norðurl. v. er erlendis en allir muna það þegar formaður Verslunarráðs skrifaði hv. 5. þm. Norðurl. v. og öðrum þingmönnum og skoraði á sjálfan sig að samþykkja ekki þennan skatt. En nú á að skjóta þessu yfir á sveitarfélögin. Auðvitað flækir það málið að vera að blanda þessari skattheimtu saman. Hér er um kerfisbreytingu að ræða hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Hér er verið að færa aðstöðugjald af fyrirtækjum yfir á einstaklinga og með því er hluti af skattheimtunni færður á fyrirtækin. Með því að flytja skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði yfir á sveitarfélögin er verið að opna fyrir hærri fasteignaskatta á fyrirtækin og verið að opna fyrir það að þessi skattheimta verði hækkuð í 1,25% eftir eitt ár. Það er orðað þannig að það eigi að laga þessa skattheimtu að fasteignagjöldum í sveitarfélögum. Það þýðir auðvitað ekkert annað en það að þessi gjöld verða 1,25% eftir ár. Þetta er í brtt. meiri hlutans í ákvæði til bráðabirgða, c-lið, þar sem stendur svo, með leyfi forseta:
    ,,Bráðabirgðaákvæði þetta gildir þar til félmrn. og Samband ísl. sveitarfélaga hafa unnið að nánari útfærslu málsins með það að markmiði að þessi sérstaki viðbótarskattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði falli að núverandi fyrirkomulagi við álagningu fasteignaskatts sveitarfélaga.``
    Hér er verið að taka upp það sem á að vera frambúðarfyrirkomulag fyrir fyrirkomulag sem átti að gilda til bráðabirgða í eitt ár. Það er dálítið einkennilegt að það skuli verið að skjóta slíkum bráðabirgðaráðstöfunum þarna inn.
    En það er fleira einkennilegt í máli þessu. Samskipti ríkis og sveitarfélaga hafa verið upp og ofan í gegnum tíðina. Samband ísl. sveitarfélaga hefur reynt að koma þeim samskiptum á eðlilegan grundvöll og fyrir rúmlega ári gerði Samband ísl. sveitarfélaga samning við ríkið um ýmis fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eftir að allmikið hafði gengið á á undan, svo ekki sé meira sagt, í þeim samskiptum. En það þótti ástæða til að gera annan samning núna í ár til þess að reyna að ganga frá þessum viðskiptum til frambúðar og þann 10. des. sl. undirrita hæstv. fjmrh., hæstv. félmrh. og formaður og framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga samning sem snerta fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga á árinu 1994.
    Það er í fyrsta lagi fé til Atvinnuleysistryggingasjóðs og eflingar atvinnulífs á vegum sveitarfélaga. Í öðru lagi reglur Atvinnuleysistryggingasjóðs. Í þriðja lagi réttur starfsmanna sveitarfélaga til atvinnuleysisbóta þar sem m.a. er gert ráð fyrir að fulltrúar sveitarfélaga og starfsmanna þeirra taki sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Í fjórða lagi um endurgreiðslur virðisaukaskatts þar sem m.a. er ákvæði um að virðisaukaskattur á akstri fatlaðra og skólaakstri á vegum sveitarfélaga verði endurgreiddur. Mér er kunnugt um að þarna kom til umræðu endurgreiðsla á virðisaukaskatti af almenningsvögnum í sveitarfélögum en það var ekki frá því gengið í þessum samningi. Í fimmta lagi um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Innheimtustofnunin hefur séð um greiðslu barnsmeðlaga og er nýbúið að afgreiða þangað aukafjárveitingu upp á 250 millj. sem ætlunin er að komi ekki til greiðslu á næsta ári. Og í sjötta lagi er grein um fjárhagsleg samskipti. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Aðrar breytingar en að ofan greinir stendur ekki til að gera á verkaskiptingu og fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga í tengslum við fjárlagagerð fyrir árið 1994.``
    Svo mörg voru þau orð. En það líða ekki nema fjórir dagar þangað til bregður svo við að við fáum í félmn. bréf sem var undirritað hvorki meira né minna en af þremur ráðherrum, hæstv. forsrh., hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Forsætisráðherra, félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra leggja til við hv. félmn. Alþingis að heimild sveitarfélaga til útsvarsálagningar í tekjustofnalögum þeirra verði bundin við 8,4% lágmark. Ríkisstjórnin hefur samþykkt þessa málsmeðferð fyrir sitt leyti og hjálagt fylgir afstaða Sambands ísl. sveitarfélaga sem gerir ekki athugasemd við þessa málsmeðferð.``
    Einnig kom í ljós um svipað leyti að það hafði verið ákveðið að endurgreiða virðisaukaskatt af almenningsvögnum upp á 70--80 millj. kr. Hvað hefur gerst á þessum dögum þegar var búið að undirskrifa það mjög virðulega að ekki stæði til að gera neinar breytingar á verkaskiptingu og fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga fleiri en um ræðir í þessari yfirlýsingu. Jú, það gerðist að kippt var í spottann hjá Reykjavíkurborg. Ég minnist þess að hæstv. forsrh. þegar hann var í sínu fyrra starfi sem borgarstjóri kallaði stundum þingmenn Sjálfstfl. á teppið úti í Pósthússtræti. Ég hygg að núv. borgarstjóri hafi lært af honum þá list og hóað í sína menn og útkoman úr því varð að ríkisstjórnin, þessi frjálshyggjustjórn sem telur frelsi og sjálfstæði stofnana og fyrirtækja vera númer eitt, leggur til að lögbinda skattheimtu á sveitarfélögin og banna þeim sveitarfélögum að slá af útsvarinu sem þykjast hafa efni á því.
    Þetta er nokkur miðstýring og ekki beinlínis í anda frelsisins. En ég hygg að ástæðan sé sú að ríkisstjórn vill taka þann kaleik af borgarstjórn Reykjavíkur að hækka útsvarið. Og það er náttúrlega mjög þægilegt fyrir borgarstjórnina í Reykjavík fyrir kosningarnar að segja að það hafi verið samþykkt lög á Alþingi um að þeir yrðu að hækka útsvarið. Þar með er náttúrlega tryggt að enginn getur verið neðan 8,4%. Það skyldi nú ekki vera að þetta væri sú prósenta sem Reykjavíkurborg hyggst leggja á. Ég er hins vegar svartsýnn að þeir komist af með þetta því bruðlið hefur verið svo mikið á undanförnum árum og fjárhagsstaða borgarinnar farið svo versnandi að ég hygg að það muni vera hæpið.
    En þetta er náttúrlega alveg makalaus framvinda og ekki hæstv. ríkisstjórn til sóma að standa svona að málum.
    Ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., sem hér eru viðstödd umræðuna, hvort þessi lýsing mín sé ekki nokkurn veginn sannleikanum samkvæmt, hvort þetta sé ekki ástæðan fyrir þeim vendingum sem voru á þessum fjórum dögum frá því að samningurinn góði var gerður og þangað til bréf kemur frá þremur hæstv. ráðherrum um ekki svo litla breytingu, um hreinlega að lögbinda lágmarksútsvar og greiða 80 millj. í endurgreiðslu af virðisaukaskatt hjá strætisvögnum.
    Það er margt óljóst varðandi þetta frv. og hefði áreiðanlega verið réttasta málsmeðferðin í þessu að láta það fyrirkomulag sem var í ár gilda eitt ár í viðbót þó að það væri gallað og gefa sér tíma til þess að fara betur yfir málið. Það er allsendis óvíst með hvaða hætti Jöfnunarsjóður sveitarfélaga kemur inn í þessa mynd þegar búið verður að endurskoða reglugerð um hann eftir áramótin. Það hefur beðið vegna þess að það var beðið eftir úrslitum úr kosningum um sameiningu sveitarfélaga. Endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir í því fyrr en á næsta ári. Til nefndarinnar kom 10. des. minnisblað frá Húnboga Þorsteinssyni í félmrn. um þessi mál. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Á sl. ári vann nefnd að endurskoðun á ákvæðum reglugerðar sjóðsins um tekjujöfnunar- og þjónustuframlög. Þetta verkefni var vel á veg komið þegar ákvörðun var tekin um niðurfellingu aðstöðugjaldsins. Þótti þá rétt að gera hlé á þessari vinnu þar til fyrir lægi með tekjustofna í stað aðstöðugjaldsins og einnig þar til fyrir lægi hversu miklar breytingar verða á sveitarfélagaskipaninni í tengslum við átakið í sameiningu sveitarfélaga. Stefnt er að því að halda endurskoðun reglugerðarinnar áfram nú eftir áramótin.``
    Þetta mál er náttúrlega fullkomlega óljóst og í óvissu hverjar lyktir verða og hvernig sveitarfélögin standa að vígi eftir þessa breytingu.
    Hér stendur í umsögn sem barst þann 6. des. frá borgarstjóranum í Reykjavík, sem er tekið æðimikið mark á í herbúðum hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. umhvrh. sem er ekkert ókunnugur í herbúðum Reykjavíkurborgar. ( SvG: Hann var þá fyrir Alþb.) Það er rétt. ( SvG: Það hefur breyst.) Það hefur breyst. Hann hefur ummyndast. ( Umhvrh.: Og umhverfst.) Og umhverfst, hæstv. umhvrh. En hér stendur í þessari umsögn, með leyfi forseta:
    ,,Það er ekki góð stjórnsýsla að breyta í sífellu jafnviðkvæmum og flóknum málum sem skattamál eru. Eðlilegt hefði verið að fá lengri reynslu af tekjustofnalögunum áður en farið var að umbylta þeim. Þetta var að vissu leyti viðurkennt með þeim breytingum sem gerðar voru á tekjustofnalögunum með lögum nr. 113/1992. Þar var kveðið á um að sveitarfélögin fengju á árinu 1993 greiðslur úr ríkissjóði vegna tekjumissisins sem þau urðu fyrir á því ári þegar fallið var frá innheimtu aðstöðugjalds.
    Nú eru uppi ráðagerðir um stórfelldan verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga og tímasett að grunnskólinn verði alfarið verkefni sveitarfélaganna frá 1. ágúst 1995. Þetta hlýtur að kalla á mikla uppstokkun á tekjustofnum sveitarfélaga og tilfærslu skatta til þeirra frá ríkinu. Því er skynsamlegt að láta aðgerðir í skattamálum bíða en halda a.m.k. á næsta ári óbreyttu fyrirkomulagi frá því sem í gildi hefur verið í ár.``
    Og nú er þetta frv. komið til 2. umr. en vegna þess hve þessi mál eru öll óljós, þá treystir minni hluti félmn. sér ekki til þess að standa að því þó að við viðurkennum auðvitað að þessum málum þarf að koma í horf til frambúðar. Það er bara lífsins ómögulegt að standa að þessu eins og þetta er vegna þess m.a. og ekki síst að vegna Jöfnunarsjóðsins er alls óvíst hvernig þetta kemur út fyrir sveitarfélögin.
    Svo er líka annað mál gagnrýnisvert í þessu. Það er að við þessa kerfisbreytingu, sem hefði verið langeinfaldast að gera upp tekjuinnheimtuna á sléttu, þá er lætt inn a.m.k. 400 millj. kr. skattheimtu fyrir ríkissjóð. Það er alls staðar verið að fela skattheimtuna vegna þess að stjórnarflokkarnir og þá sérstaklega Sjálfstfl. og sjálfstæðismenn kosta kapps um að fela alla skattheimtu sem þeir mögulega geta. Um leið og skattinum um verslunar- og skrifstofuhúsnæði var skotið yfir á sveitarfélögin var laumað þarna inn nokkur hundruð millj. kr. skattheimtu fyrir ríkið.
    Þetta er afar gagnrýnisvert. Ef það var ákvörðun um að afla þessara tekna átti að gera það á eðlilegan hátt með þá því skattafrv. sem er til umræðu á Alþingi þessa dagana (Fjmrh.: Þetta er einhver misskilningur.) og ganga hreint til verks í því. Þetta er morgunljóst, eins og sagt er. (Fjmrh.: Hvaða skattheimta er þetta?) Ef hæstv. fjmrh. efast gæti hann kannski gluggað í umsögn ASÍ. Hann tekur töluvert mark á Alþýðusambandi Íslands. Þar er greint frá þessu. ( Fjmrh.: Þetta er allt annað mál.) Ef hann efast, þá er einnig greint frá þessum málum í umsögn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um málið. Hér er því ekki um nein vafaatriði að ræða varðandi þetta mál.
    Ég mun ekki hafa öllu fleiri orð um þetta frv. að þessu sinni. Hér er eitt dæmið um lagasetningu sem unnin er af miklum flýti á hv. Alþingi. Það væri sæmra að vanda sig meira og gefa sér aðeins meiri tíma. Ég held að það gildi um fleira en þetta frv. sem er til umræðu. Ég held að það sé oft mikil árátta að breyta lögum og stundum breytinganna vegna. Það gildir að vísu ekki um þetta. Ég studdi breytingu á aðstöðugjaldinu á sínum tíma, og taldi það rétt skref en ég tel að það verði að vanda vel það fyrirkomulag sem á að gilda til frambúðar í staðinn. En ýmsir þættir þessara mála, t.d. skatturinn á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, eiga aðeins að gilda til eins árs.