Tekjustofnar sveitarfélaga

66. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 01:52:48 (3008)


[01:52]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Frú forseti. Í umsögn Alþýðusambands Íslands um þetta mál stendur, með leyfi forseta:
    ,,Til þess að bæta sveitarfélögum tekjutap sitt vegna afnáms aðstöðugjaldsins um síðustu áramót hyggst ríkisstjórnin færa 1,5% af tekjuskattsprósentu yfir til sveitarfélaganna með því að hækka hámarksálagningu útsvars úr 7,5 í 9,2%. Það skýtur nokkuð skökku við að útsvarsheimildin skuli hækkuð um 1,7% en tekjuskattur aðeins lækkaður um 1,5%, sérstaklega ef þess er gætt að ekki stendur til að breyta lögum um úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Samkvæmt þeim reglum sem nú gilda verða sveitarfélög að fullnýta tekjustofna sína til að geta fengið úthlutun úr Jöfnunarsjóðnum og því eru stjórnvöld að setja verulegan þrýsting á sveitarfélögin að hækka útsvar sitt um 1,7% og auka þannig skattbyrðina um 0,2% eða 400 millj. kr.!``
    Hæstv. fjmrh. heldur því fram að þessi skattlagning sé 55 millj. kr. en miðað við 9,2% álagningu

þá er ljóst að þessi skattbyrði er a.m.k. 400 millj. kr.