Tekjustofnar sveitarfélaga

66. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 02:25:33 (3016)


[02:25]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson spurði um rökin fyrir því að kveðið væri á um lágmarksútsvar. Hann nefndi einnig að með því væri verið að skerða sjálfsforræði sveitarfélaga. Það er ekki verið að skerða það meira en svo að Samband ísl. sveitarfélaga leggst ekki gegn þeirri hugmynd um að það verði kveðið á um lágmarksútsvar. Það færir rök fyrir því og ég get tekið undir þau. Þar kemur fram að veigamestu rökin fyrir því að lögbinda lágmarksútsvar eru þau að mismunur á útsvarsálagningu sveitarfélaganna verði minni og útsvarsgreiðslur íbúa landsins verði jafnari.