Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 09:01:50 (3020)


[09:01]
     Kristín Ástgeirsdóttir (frh.) :
    Virðulegi forseti. Það gerist margt á sólarhringum eins og þessum. ( Gripið fram í: Ekki nógu margt.) Það er rétt hjá hv. frammíkallanda að það hefði fleira mátt gerast í ríkisfjármálunum, fyrst og fremst góð tíðindi náttúrlega sem við vildum fá að heyra, og fáum væntanlega aðeins að heyra af hér á eftir.
    Ég vil í upphafi nefna að mér þykir málflutningur í þessu máli vera allsérstakur og málum vera þannig uppstillt eins og við séum að taka einhverja grundvallarafstöðu til þess hvort það eigi að koma á tveggja þrepa virðisaukaskattskerfi eða ekki. Ég lít ekki svo á að ég sé að taka hér einhverja framtíðarákvörðun um það hvort slíku kerfi verði komið á heldur fyrst og fremst það að við erum hér að fjalla um ákveðna aðgerð út frá kjarasamningum sem gerðir voru sl. vor. Það er fyrst og fremst í ljósi þess sem ég hef tekið mína afstöðu og tel að hér sé um að ræða breytingar sem eru mjög illa undirbúnar og hefðu þurft miklu lengri undirbúning og rannsókn þannig að menn gerðu sér grein fyrir afleiðingum þess sem verið er að gera auk þess sem ég er algerlega sannfærð um að hér er fyrst og fremst verið að flytja peninga til hinna efnameiri í þjóðfélaginu þó sú lækkun sem vonandi verður á matvælum, innfluttum matvælum fyrst og fremst, muni auðvitað skila sér til allra. En þó vil ég líka ítreka það sjónarmið að ég er ekkert sannfærð um að það eigi að lækka virðisaukaskatt á öllum matvælum. Ég tel að það sé hægt að beita skattlagningu til neyslustýringar og ég verð að segja það alveg eins og er að ég sé enga sérstaka ástæðu til þess að vera að lækka virðisaukaskatt sérstaklega á alls konar innfluttum pakkamat sem er mjög vaxandi í verslunum m.a. hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég sé enga sérstaka hollustustefnu í því og teldi frekar að það ætti að reyna að snúa dæminu við og þróa neyslu landsmanna í átt til meiri hollustu og skattlagning er eitt af því sem hægt er að beita í þeim efnum. Þannig að ég mótmæli því að hér sé verið að taka einhverja endanlega ákvörðun um tveggja þrepa virðisaukaskatt og ég vitna í það sem segir í nál. 2. minni hluta efh.-

og viðskn., með leyfi foreta:
    ,,Það hefur um árabil verið skoðun undirritaðra nefndarmanna og stjórnmálasamtaka, sem þeir eru fulltrúar fyrir, að það beri að lækka verð á matvælum, einkum þeim sem vega þyngst í matarkaupum fjölskyldnanna í landinu. Breytingar á sköttum, svo og endurgreiðslum, koma auðvitað sterklega til greina þegar leitað er leiða til lækkunar matarverðs. Ríkisstjórnin hefur hins vegar staðið þannig að verki við undirbúning og afgreiðslu þess máls sem hér er til umræðu að ógjörningur er að styðja það.``
    Þetta er mergurinn málsins. Það er staðið þannig að verki hér að það er ekki hægt annað en að láta ríkisstjórnina bera ábyrgð á þessu mái.
    Ég vil líka rifja það upp sem ég sagði í gær að það er verið að færa peninga úr einum vasa í annan og að gefa með annarri hendinni og taka með hinni. Í mínum huga er það alls ekki ljóst hvað kemur út úr því dæmi og sannast að segja efast ég um að sú lækkun sem verður á matvælum vegi upp á móti þeirri hækkun sem verður á tekjuskatti, útsvari og öðru því sem mun bitna á landsmönnum á næstu vikum og mánuðum.
    Ég hafði hugsað mér að eyða töluverðum tíma af minni ræðu í ferðaþjónustuna og flutninga. En sem betur fer hafa þau tíðindi gerst að ríkisstjórnin hefur nú séð að sér og ætlar að draga til baka það atriði að leggja virðisaukaskatt á flutninga og hluta af ferðaþjónustunni og ég fagna því vissulega. Við munum væntanlega ræða það mál betur hér á eftir. Mér þykir vera órói hér í salnum, virðulegur forseti.
    ( Forseti (PJ) : Hafið hljótt á fundinum.)
    Ég held að það sé ekki ástæða til að fara ítarlegar út í aðra þætti þessa frv., þ.e. breytingar á tollalögum og vörugjöldum. Þar er um allnokkrar breytingar að ræða og það er mjög ánægjulegt að það náðist samkomulag um að lækka vörugjöld á málningu þannig að samkeppnisstaða þeirrar vörutegundar batnar á markaðnum og er þá komið meira samræmi varðandi innlenda framleiðslu á byggingarvörum.
    Ég ætla þá aðeins að víkja að þeim tillögum sem 2. minni hluti leggur til til breytinga á þessu frv. hér, þ.e. sú leið sem við hefðum viljað fara til að bæta og jafna kjörin í landinu. Það er auðvitað fyrst að nefna það sem er lykilatriði í þessu máli sem er að endurgreiðslum á virðisaukaskatti á öllum mikilvægustu matvælunum verði haldið áfram þannig að verði þeirra verði haldið sem næst því að þau beri 14% virðisaukaskatt. Inn í þetta tökum við m.a. fisk, sem er auðvitað mjög mikilvæg neysluvara, en mun hækka í verði nái þessar tillögur fram að ganga. Síðan leggjum við til að virðisaukaskatturinn lækki úr 24,5% í 23%. Samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar skilar þessi lækkun á virðisaukaskatti, sem nær auðvitað til allra þeirra þátta sem eru virðisaukaskattskyldir, álíka lækkun á verðlagi og í rauninni álíka kjarabótum. Mjög svipuðum kjarabótum og hin leiðin. Það má nefna að það er annar þáttur en matvæli sem vegur mjög þungt í kostnaði heimilanna og það er það sem snýr að húsnæði, húshitun o.fl. sem ríkisstjórnin lagði á virðisaukaskatt á þessu ári, reyndar 14% virðisaukaskatt og muni ekki lækka með þessari aðgerð, en menn gleyma því alltaf að það eru aðrir þættir sem vega mjög þungt í kostnaði heimilanna. Föt og barnaföt og ýmislegt sem að því snýr mundi lækka. En með lækkun af þessu tagi yrði komist hjá þessari miklu röskun í skattkerfinu sem fram undan er og hefði þurft miklu, miklu meiri og betri undirbúning eins og ég hef margoft nefnt.
    Til þess að jafna kjörin þá leggjum við til 350 millj. kr. til viðbótar í barnabótaauka sem kæmi þá auðvitað barnafjölskyldum helst til góða. Við leggjum til að það verði hægt á ferðinni til að lækka tekjuskatt félaga og það er í rauninni furðulegt hve langt ríkisstjórnin gengur í því að lækka skatta á atvinnulífinu miðað við það ástand sem við búum við og hún gerir það auðvitað á alla línuna eins og alltaf þegar hún grípur til aðgerða þá er ekki verið að meta hverjir standa vel og hverjir illa heldur er alltaf lækkað á alla línuna og Eimskip og ,,kolkrabbinn`` fær bara að græða í friði.
    En til að létta nú örlítið á hinu þrautpínda atvinnulífi þá leggjum við reyndar til að það verði hætt við að hækka tryggingagjaldið og það snýr að því að þetta er launatengt gjald og á að skila ríkissjóði 560 millj. kr. en ef þetta gjald verður hækkað þá mun það skila sér út í verðlagið með einum eða öðrum hætti. Þarna er einmitt komið enn eitt dæmið af því, sem ég nefndi hér áðan, þar sem er verið að taka með annarri hendinni og gefa með hinni.
    Síðan er kannski ekki síst að nefna það atriði sem ég vona nú að þingheimur muni samþykkja síðar í dag eða í nótt eða á mánudag eða hvenær sem kemur að atkvæðagreiðslu og það er það að atriði að breikka eignarskattsstofninn þannig að hann nái til fjármagnseigna. Jafnframt leggjum við til að hinn umdeildi ekknaskattur verði lagður niður. Gefst nú Sjálfstæðisflokknum loksins tækifæri til að leggja þennan skatt niður. Held ég að frú Þuríður Pálsdóttir verði glöð þegar hún fréttir þetta. En þessi tekjuöflun gefur eitthvað á bilinu 600--800 millj. kr. í auknar tekjur. Við töldum að þessi breikkun á eignarskattstofni mundi skila um 800 millj. en Þjóðhagsstofnun metur það þannig að þetta séu um 600 millj. kr. og ætti nú hæstv. fjmrh. að hlusta vel á þessa tillögu og hafa í huga gagnvart hinum svelta ríkissjóði.
    Síðast en ekki síst leggjum við til það sem við teljum vera mjög skynsamlegt í þessu máli að sett verði nefnd á laggir til að skoða kosti þess og galla að festa hér í sessi tveggja þrepa virðisaukaskatt auk þess sem menn skoði aðrar leiðir í skattamálum sem megi verða til að jafna kjörin.
    Þetta eru helstu atriðin í þeirri leið sem við hefðum viljað fara við þessar aðstæður og tengist því að menn eru í rauninni sammála um það að lækkun á virðisaukaskatti á matvælum sé ákaflega ómarkviss leið til tekjujöfnunar og þarf ekki að ítreka það hér enn einu sinni.

    Að lokum, virðulegur forseti, ætla ég rétt að nefna það að þrátt fyrir ýmis slæm tíðindi og vanhugsaðar aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til þá hafa okkur nú borist þau tíðindi á allra síðustu dögum að þjóðarbúið standi heldur skár en menn höfðu reiknað með. Þar koma til auknar veiðar og meiri útflutningur. Þetta þýðir að það dregur heldur úr ríkissjóðshallanum og það verður að segjast að þetta eru gleðileg tíðindi í þeim samdrætti sem við höfum átt við að búa. En það breytir ekki því að Þjóðhagsstofnun lítur þannig á að það ár sem nú fer í hönd verði það erfiðasta. Fram undan sé erfiðasta árið en síðan muni aftur fara að birta til. Nú er auðvitað ómögulegt að segja hvort þessi spá rætist. Það veltur auðvitað mikið á því hvað gerist út í hinum stóra heimi en við skulum reyna að vera bjartsýn og vona að það rætist úr. En hitt er annað mál að á meðan ríkisstjórnin stjórnar með þeim hætti sem hér hefur tíðkast og heldur áfram að auka hallann á ríkissjóði og gefst upp við allar óvinsælar aðgerðir af því að það eru að koma kosningar þá er kannski ekki á góðu von. En það er auðvitað staðreynd og við verðum öll að horfast í augu við það að með því að ríkissjóður safnar jafnmiklum skuldum og raun ber vitni þá erum við að skapa hér mikinn vanda sem þjóðin mun þurfa að glíma við á komandi árum. Sá samdráttur sem við höfum verið að ganga í gegnum hefur þýtt kjaraskerðingu og hann mun þýða kjaraskerðingu, hjá því er ekki hægt að komast. Og málið er auðvitað það að jafna þeirri kjaraskerðingu á þann hátt að þeir taki meira á sig sem betur hafa og við hlífum þeim sem verst standa. Því miður gerist það ekki í þessu skattafrv. hér. Það er enn einu sinni verið að fara í vasa þeirra sem verr standa eða það er alla vega sú útkoma sem ég fæ út úr þessu dæmi vegna þess m.a. að það var ekki gripið til þeirra aðgerða sem áttu að fylgja þessari lækkun á matarskatti sem kemur sem sagt öllum til góða en skilar þeim fleiri krónum sem hafa meiri neyslu. Mín niðurstaða af þessu öllu saman er sú að ég treysti mér ekki til að styðja þessa breytingu á virðisaukaskatti þó ég sé fylgjandi ýmsum öðrum atriðum í frv. En það eru líka önnur mál sem erfitt er að styðja eins og hækkun á tekjuskatti.
    Ég vil að lokum taka undir það sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson sagði að í öllu þessu mikla fári í kringum virðisaukaskattinn hefur kannski ekki gefist nægilegur tími til að kanna ýmis önnur mál eins og hið nýja markaðsgjald. En í ljósi þeirra staðreynda að það er verið að leggja álögur á allan almenning í landinu þá held ég að við verðum nú að dreifa álögum á atvinnulífið líka.