Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 09:30:56 (3027)

[09:30]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. hér áðan að honum finnst þessi umræða hafa staðið óþarflega lengi. Ég held ekki að það sé vegna þess að það eru svo margir tímar, ég held að það sé fyrst og fremst vegna þess að það hefur sviðið undan þessari umræðu. Og að hæstv. fjmrh. er það fyllilega ljóst að ríkisstjórnin er hér ekki á réttri leið. Það er ekki stórmannlegt af hæstv. ríkisstjórn að skjóta sér á bak við samninga aðila vinnumarkaðarins. Ef það er svo að það er hægt að ná þeim markmiðum sem stefnt var að í kjarasamningunum á betri hátt og hagkvæmari en var á servéttunni sem var rennt yfir borðið þegar þessi lína var lögð þá eiga menn að sjálfsögðu að hafa kjark til að skoða þá leið og hrinda henni í framkvæmd. Ég er ekki búinn að sjá það að kjarasamningum hefði verið sagt upp út á hreint tæknilegt atriði.
    Virðulegur forseti. Ég minni á að það er ljóst að aðgerðir ríkisstjórnarinnar núna eru illa undirbúnar og illframkvæmanlegar með svo skömmum fyrirvara eins og gert er ráð fyrir. Ég minni einnig á að 2. minni hluti efh.- og viðskn. setur fram heildstæðar tillögur sem felast í eftirfarandi atriðum, með leyfi forseta:
    1. Þeim endurgreiðslum á virðisaukaskatti sem verið hafa seinni hluta þessa árs á innlend matvæli verði haldið áfram.
    2. Almenna virðisaukaskattprósentan verði lækkuð úr 24 í 23%. Þessi aðgerð, með því að viðhalda endurgreiðslum, skilar launafólki sömu niðurstöðu hvað varðar tekjujöfnun og lægra vaskþrep á matvæli.
    3. Til frekari tekjujöfnunar fyrir þá lægstlaunuðu verði varið 200 millj. kr. í vaxtabætur og 350 millj. í barnabótaauka.
    4. Tekjuskattur félaga verði hækkaður úr því sem áætlað er nú 33% í 35% sem gefur ríkissjóði 150 millj. kr. í auknar tekjur.
    5. Hætt verður við að hækka tryggingagjald á atvinnulífi upp á 0,35% sem hefði kostað atvinnulífið 560 millj. og að sjálfsögðu hefði farið að verulegu leyti beint út í verðlagið.
    6. Hætt verður við að taka upp virðisaukaskatt á ferðaþjónustu en hún greiði áfram sama tryggingagjald og aðrar greinar. Þetta kostar ríkissjóð 250 millj. kr. Þetta er þó það atriði sem ríkisstjórnin er að fallast á að taka upp.
    7. Engar breytingar verða á vörugjaldi sem bætir stöðu ríkissjóðs um 165 millj. kr.
    8. Til þess að ná dæminu saman verður fjármagnseign gerð eignarskattskyld eins og aðrar eignir en um leið verða skattleysismörk eignarskatts lækkuð um sem svarar einni millj. kr. af hjónum og hærra þrep afnumið en þar er um að ræða hinn illræmda og margumrædda ekknaskatt. Þessar aðgerðir í heild gefa ríkissjóði um 600 millj. kr. í auknar tekjur.
    9. Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að skipuð verði nefnd þingflokka á Alþingi, aðila vinnumarkaðarins og fjármálaráðherra. Hún á að kanna kosti og galla tveggja þrepa virðisaukaskatts og aðrar aðgerðir í skattamálum sem geta orðið til tekjujöfnunar.
    Virðulegur forseti. Samandregið þýða þessar tillögur eftirfarandi: Þær þjóna betur því markmiði að jafna tekjur en þær hroðvirknislegu aðgerðir sem ríkisstjórnin boðar auk þess sem þær styrkja stöðu innlendrar matvöru gagnvart innflutningi. Verðlagsáhrifin eru meiri, verðlag lækkar um 1,1% á móti 0,9 samkvæmt því sem ríkisstjórnin leggur til. Hætt verður við afar umdeilda skattlagningu á samgöngur og ferðaþjónustu. Staða ríkissjóðs batnar að mati Þjóðhagsstofnunar. Í því mati er þó ekki tekið tilliti til aukins kostnaðar við skattheimtu og aukin undanskot ef tillögur ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga. Auk þess fellur verulegur kostnaður á atvinnulífið við framkvæmd tveggja þrepa virðisaukaskatts.

    Flm. eru ekki að loka á að seinna og með betri undirbúningi verði tekin upp tvö þrep í virðisaukaskatti en benda á að allar upplýsingar sem komið hafa fram á síðustu dögum benda til að slík aðferð hafi nánast engin áhrif til tekjujöfnunar umfram endurgreiðslur af hluta vasksins á innlend matvæli sem nú eru í gildi.
    Þetta er nú að mínu mati kjarni málsins. Og ég held reyndar að það sé nokkuð langt síðan að stjórnarandstöðuflokkur hefur komið fram með eins heildstæðan pakka í fjármálum ríkisins til að takast á við það sem er fram undan.
    Ég vil einnig benda á það sem kemur fram í áliti Þjóðhagsstofnunar um þessar tillögur. En þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Umræddar tillögur hafa með ýmsum hætti áhrif á kaupmátt. Þannig hefur minni verðbólga í för með sér aukinn kaupmátt, í sömu átt ganga að sjálfsögðu hækkanir bóta. Á móti vegur hins vegar að skattar á eignir eru hækkaðir. Í tillögunum felast því tilfærslur á skattlagningu á þá leið að kaupmáttur launa og hvers kyns bóta eykst nokkuð en ráðstöfunarfé eignamanna minnkar. Þegar á heildina er litið eru hins vegar áhrif á kaupmátt ráðstöfunartekna ekki veruleg. Ég vil sérstaklega ítreka það sem hér kemur fram að í tillögunum felast tilfærslur á skattlagningu á þá leið að kaupmáttur launa og hvers kyns bóta eykst nokkuð en ráðstöfunarfé eignamanna minnkar.
    Virðulegur forseti. Nú veit ég ekki hvort hæstv. fjmrh. heyrir orð mín og ég hefði viljað, hæstv. forseti, hafa einhverja hugmynd um það hvort hæstv. fjmrh. er hér einhvers staðar eða . . .  
    ( Forseti (PJ) : Hæstv. fjmrh. er hér í dyrunum.)
    Virðulegur forseti. Ég var búinn að heyra að hæstv. fjmrh. væri orðinn þreyttur á þessari umræðu sem hann kallar nú reyndar tilraunir til slysavarna og viðurkennir þá væntanlega að hér sé ríkisstjórnin ekki á alveg réttri braut. Hæstv. ráðherra sagði reyndar í nótt að það að halda áfram að gefa sveitarfélögunum kost á að leggja áfram skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði væri heilbrigðismál þannig að honum er þessi þáttur, slysavarnir og heilbrigðismál, greinilega hugleikinn núna. En þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að einu sem tengist þessum skattabreytingum en ég hafði ekki almennilega gert mér grein fyrir fyrr en í nótt einfaldlega vegna mikilla starfa í efh.- og viðskn. þá hafa menn nú ekki alveg áttað sig á hvað væri að gerast annars staðar í þinginu. En hér er allt í einu komin upp tillaga þar sem er komið fram að því er mér skilst að frumkvæði ríkisstjórnarinnar sem bannar aðilum að lækka skatta. Þar sem er þetta furðulega gólf á útsvarið. Að sveitarfélög megi ekki lækka skatt, megi ekki leggja á lægra útsvar en 8,4%. Eina skýringin sem ráðherrar gátu gefið hér á göngum var sú að þetta væri til þess að forða því að Akurnesingar flyttust unnvörpum upp í Skilmannahrepp en þar ku útsvar hafa verið milli 2 og 3% á síðustu árum.
    En nú ætlar ríkisstjórnin að hafa forgöngu um það að þau sveitarfélög sem geta lagt á lægra útsvar en annars staðar séu lögþvinguð til þess að leggja á 8,4% útsvar. Hæstv. félmrh. kom hér í nótt og sagði: Þetta er allt í lagi, sveitarfélögin geta þá lækkað önnur gjöld eins og vatnsskattinn og gatnagerðargjöldin og ýmislegt annað. En í ýmsum dreifbýlisbyggðarlögum þar sem er engin vatnsveita og lítið um gatnagerð en menn hafa séð ástæðu til þess að vera ekkert að leggja mjög há útsvör á þar grípa menn ekki til þessarar ráðgerðar. Þannig að ég vil biðja hæstv. ráðherra, af því að þetta tengist þessum ríkisfjármálum í heild, að gefa mér haldbæra skýringu á því hvernig í ósköpunum stendur á því að Sjálfstfl., sem lofaði því fyrir síðustu kosningar að lækka skatta, ætlar nú að banna sveitarfélögunum með lögum að lækka skatta. Ef einhver hefði sagt þetta innan Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar að það ætti að banna Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum með lögum að lækka útsvar ef það væri tækifæri og aðstaða til þess, ef einhver sjálfstæðismaður hefði sagt þetta fyrir síðustu kosningar, ég veit ekki hvað hefði verið haldið um hann. Eða hvað segir hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson um það? ( EKJ: Ekki neitt.) Hefði ekkert verið sagt um það? (Gripið fram í.) Ég er ansi hræddur um að viðkomandi maður hefði bara verið útskúfaður úr samfélagi sjálfstæðismanna. En þetta er nú svona og ekki dettur mér í hug að ýja að því að þetta sé vegna þess að Reykjavíkurborg sem árum saman gumaði að því að leggja á lægra útsvar en aðrir vilji að Alþingi tryggi það með lögum að þá geti önnur sveitarfélög, kannski hér í nágrenninu, ekki sýnt fram á lægra útsvar en borgin og þá afhjúpist það að lágt útsvar í Reykjavíkurborg byggðist á því að borgin skattlegði atvinnulífið umfram öll önnur sveitarfélög með aðstöðugjaldi. Þetta finnst mér nokkuð mikilvægt atriði í þessu.
    Mönnum hefur í þessari umræðu verið nokkuð tíðrætt um afstöðu Framsfl. og það svona gekk um gangana í gær að ef Alþb. tæki viðbótarumræðu í skattamálunum þá væri það til þess að taka eins og tveggja tíma syrpu á Framsfl. En ég vil taka það fram að þegar ég stóð í verulegri baráttu á haustþingi 1989 fyrir lægri skattlagingu á matvælum þá beindist mín umræða alla tíð að því að það yrði sett lægra þrep á innlend matvæli en aðrar vörur. Ég beygði mig fyrir þeim rökum að það væri ekki tæknilega framkvæmanlegt, það yrðu þá að vera öll matvæli. Ég beygði mig þá fyrir þeim rökum að það væri e.t.v. skynsamlegra að gera það þannig að endurgreiða virðisaukaskattinn af þessum þætti. Það er einmitt eitt meginatriðið í tillögum okkar 2. minni hluta að viðhalda víðtækum endurgreiðslum á innlend matvæli. Ég vil benda á í þessu sambandi að ef tillögur ríkisstjórnarinnar gengju fram um áramótin þá mundi verðlag á mikilvægum málaflokkum eins og öllu kjöti, mjólk, rjóma, osti og eggjum ekki breytast neitt. En verð á innfluttum vörum mundi lækka um allt að 8,4%.
    Ég bendi einnig á að fyrir nokkrum vikum þegar mjólkurframleiðendur og mjólkuriðnaðurinn í landinu gerði óhjákvæmilegar breytingar á markaðsaðstæðum á mjólkurverði þá fór af stað mikil alda sem sagði að þarna væri gengið á móti manneldissjónarmiði. Ef einhver aðili í þjóðfélaginu á í aðgerðum sínum að stuðla að því sem menn telja vera manneldisstefnu á hverjum tíma, sem byggist að vísu alltaf á mati sem kann að vera umdeilanlegt, þá er það ríkisvaldið með sínum aðgerðum. En það sem mundi gerast hvað þetta snertir með þeim breytingum sem ríkisstjórnin vill gera er það að hollustuvörur, sem menn töluðu um við þessa verðbreytingu um daginn, eins og magrari mjólkurvörur standa í stað en smjör, smjörlíki og matarolía lækka um 8,4%. Hollustudrykkur sem mönnum var tíðrætt um í þeirri breytingu, sem er undanrennan, mundi standa í stað í verði en gosdrykkir, sykurdrykkir, lækka um 5%. Það er enginn vafi á því og það staðfestir m.a. úttekt sem hefur fengist frá Þjóðhagsstofnun að þetta mundi auka hlutdeild innfluttra matvæla á kostnað þeirrar innlendu. Þetta getur ekki fallið saman við í það minnsta útflutningsleiðir.
    Ég vil einnig benda á það hér og það er kannski ein af þeim stóru uppgötvunum sem hafa runnið upp fyrir mér í þessu máli og það er ósköp einfaldur sannleikur. Það er það hvað meðaltöl geta verið hættuleg, sérstaklega þar sem dreifingin er mikil sem gerir það að verkum að neysluskattur eins og virðisaukaskatturinn er á margan hátt afar slæmur til þess að jafna kjör, einfaldlega vegna þess að menn sjá svo lítið fyrir um áhrifin því neysla fjölskyldnanna í landinu er nánast eins misjöfn og þær eru margar. Það sjáum við þegar við fáum að kíkja aðeins á þær tölur sem liggja á bak við þær neyslukannanir sem hafa verið gerðar, að dreifingin er svo geigvænleg, er svo gífurleg að meðaltalið segir afar lítið.
    Virðulegi forseti. Ég ætla leyfa mér að minna á það að í tillögum okkar leggjum við til að tekinn sé upp eignarskattur á fjármagnseign. Það er einfaldasta og skilvirkasta leiðin til þess að byrja skattlagningu á fjármagnseign. Það er vægast sagt furðulegt að það skuli ekki vera tekið undir þessa leið af hæstv. núv. ríkisstjórn.
    En í vinnu efh.- og viðskn. hefur ýmislegt komið fram varðandi þær leiðir sem hér er verið að reyna og það lítur út fyrir að menn hafi strax í vor nánast málað sig út í horn því það eru afskaplega fáir aðilar sem sjá orðið tekjujöfnunina í virðisaukaskattinum. Ég bendi á það að þegar forseti ASÍ kemur á fund efh.- og viðskn. segir hann, og ég á það skrifað upp eftir honum orðrétt, og ég ætla að lesa það upp, með leyfi forseta:
    ,,Breyting á virðisaukaskatti er e.t.v. ekki sú leið sem væri best til tekjujöfnunar.`` --- En svo bætti forsetinn við: ,,En almenningsálitið er með því að afnema matarskattinn.``
    Þetta segir mér að þarna eru menn farnir að vinna, ekki á faglegum grunni heldur á pólitískum. Ég vil hins vegar ekki áfellast forustu ASÍ fyrir það hvernig þetta mál er komið. Það er ekki stórmannlegt af hæstv. fjmrh. og núv. ríkisstjórn að gera það og segja: Þetta er nú bölvað klúður en við ráðum ekkert við þetta, það eru Benedikt Davíðsson og Þórarinn V. Þórarinsson sem bera á þessu alla ábyrgð. Það eru ekki þeir aðilar, hæstv. fjmrh., sem axla ábyrgðina á skattlagningu og ríkisfjármálum hér á landi. Það er Alþingi og ríkisstjórn. Það getur enginn aðili tekið þá ábyrgð af Alþingi og ríkisstjórn.
    Það kom einnig fram í umræðum í efh.- og viðskn. að stóru launþegasamtökin, BSRB og BHMR, eru algjörlega andvíg þeim leiðum sem hér er verið að fara og báðu okkur lengstra orða að taka ekki mark á þeim mönnum sem töluðu um þessa aðgerð undir nafni þjóðarsáttar því þeir sögðu einfaldlega: Þetta er engin þjóðarsátt, það er engin sátt við okkur um þessi mál. En þeir sögðu annað, þeir sögðust finna fyrir því að vegna þess að þeir hefðu gert ákveðin mistök í sinni kjarabaráttu á síðasta vetri þá væru aðrir aðilar, vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin, sem gengju á lagið og nytu þess að rúlla yfir þessi samtök og þeirra vilja. Það er heldur ekki stórmannlegt. En það er því miður staðreynd að vegna þessara mistaka, sem þessir aðilar viðurkenndu að þeir hefðu gert, þá neyttu aðrir aðilar aflsmunar og rúlluðu yfir þeirra sjónarmið án þess að taka tillit til nokkurs hlutar. Þetta eru þó stórir hópar sem eiga það allir sameiginlegt að vera í vinnu hjá hæstv. fjmrh. og maður skyldi kannski ætla að hæstv. ráðherra ætti aðeins að hlusta eftir þeim sjónarmiðum sem koma frá þeim stóra hópi fólks sem er í vinnu hjá ríkinu. Það var afar athyglisvert að hlusta á formann BSRB sem sagði m.a. að hann væri ekkert viss um að það ætti að skila þessu öllu út aftur sem menn væru að tala um. Það væri e.t.v. alveg eins gott að eiga það inni til að bæta stöðu ríkissjóðs.
    Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra kom hér upp áðan og gaf yfirlýsingar um það að ríkisstjórnin væri tilbúin að falla frá afar hæpinni skattlagningu á innanlandssamgöngur. Það var í raun sjálfgefið því ríkisstjórnin var búin að ákveða að endurgreiða vaskinn af almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og það lá alveg ljóst fyrir að ef átti að viðhalda þessari skattlagningu á innanlandssamgöngurnar þá gerðist annað af tvennu að þessar samgöngur hefðu á viðkvæmustu leiðunum lagst af eða ríkið hefði þurft að fara að grípa til endurgreiðslna og styrkja þar einnig. Að mínu mati var þetta því aldrei framkvæmanlegt. En ég ítreka það sem hér hefur komið fram áður að við eigum að halda áfram baráttunni hvað þetta snertir og vinna að því að ekki verði tekinn upp virðisaukaskattur á gistinguna. Við búum þannig að ferðamannaiðnaðinum, þeim vaxtarbroddi sem við höfum, að hann eigi kost á að þróast og dafna. Ég er sannfærður um það, virðulegi forseti, að hæstv. fjmrh. mundi þá komast að því sér til ánægju ef svo færi að hann yrði það einhvern tíma lengur að sú aðgerð mundi skila sér betur í ríkissjóð, með meiri veltu og meiri umsvifum í kringum ferðamannaiðnaðinn og eyðslu ferðamanna hér á landi sem mundi skila sér með auknum tekjum í ríkissjóð. En hæstv. ríkisstjórn kýs að berja höfðinu við steininn. Hún horfir fram hjá öllum vísbendingum sem ganga í þá átt að þetta sé ekki skynsamleg aðgerð.

    Virðulegur forseti. Það er nú svo að þeir sem standa með mér að 2. minni hluta efh.- og viðskn., hv. 1. þm. Austurl. og hv. 18. þm. Reykv., hafa gert mjög vel grein fyrir okkar áliti þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að halda langa ræðu. Mér finnst eðlilegra að það komist fleiri aðilar að. Ef menn eru farnir að tala um að hætta hér fyrir jól þá er ekki ástæða til þess að setja hér á mjög langar ræður en ég vil samt að lokum ítreka þá spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. fjmrh. áðan hvernig í ósköpunum mönnum datt það í hug í tengslum við þessa skattalagaumræðu að banna sveitarfélögum að lækka sitt útsvar. Þetta er svo furðuleg aðgerð, furðuleg ráðstöfun af hálfu ríkisvaldsins, enda hef ég ekki séð nein rök færð fyrir þessu en ég vil gefa hæstv. ráðherra tækifæri til þess að rökstyðja og reyna að skýra út fyrir mér hvernig í ósköpunum stendur á þessu. Ég geri enga athugasemd við það þó að ráðherra mundi beita andsvaraforminu til þess.