Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 10:46:56 (3033)


[10:46]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sú ræða sem hér var flutt var ákaflega athygliverð því hv. ræðumaður rifjaði það upp að Kvennalistinn hefði verið á móti svokölluðum matarskatti. Þetta er þeim mun athygliverðara sem Kvennalistinn og Framsfl. styðja það ekki opinberlega nú að matarskatturinn svokallaði sé lækkaður. Það var einnig athyglivert sem kom fram hjá hv. þm. að í raun og veru skipti ekki máli þótt reglugerðir séu ekki tilbúnar um þessar mundir því við þekkjum það annars staðar úr verslunarrekstri að það er hægt að búa við tvö skattþrep.
    Loks vil ég, eftir að hafa vakið athygli á því að Kvennalistinn virðist vera klofinn í þessu máli, segja frá því að það var samdóma álit aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar að aðstöðugjaldið hefði skilað sér í betri afkomu útflutningsfyrirtækjanna annars vegar og í vöruverði hins vegar. Það var mælt og allir aðilar voru sammála um að það hefði skilað sér sem svaraði til 1,5% í vöruverði. Það var mjög vel viðunandi og nokkurn veginn sama talan og búist hafði verið við.
    Þetta vildi ég láta koma fram þegar hv. þm. efaðist um það að áhrif af afnámi aðstöðugjaldsins hefði skilað sér.
    Varðandi gistinguna vil ég segja það að lokum að ekki má gleyma því að nú um stundir er raungengi íslensku krónunnar með þeim hætti að ferðaþjónustan, sem er auðvitað samkeppnisiðnaður, ef svo má að orði komast eða útflutningsgrein öllu fremur, býr núna við almenn mjög góð skilyrði miðað við það sem oftast hefur gerst í þeirri grein. (Forseti hringir.) Þar að auki, virðulegi forseti, og það eru mín lokaorð, vil ég minna á að oftast er með gistinguni seldur matur og matur hefur verið virðisaukaskattsskyldur allan tímann.