Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 11:36:43 (3038)


[11:36]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er sjaldgæft að heilum sjónvarpsþætti úr sænska sjónvarpinu sé lýst úr ræðustól eins og gert var hér áðan af hv. ræðumanni. Það var helst að heyra á honum að það ætti að skattleggja allar erlendar og innfluttar vörur vegna þess að það væri hætta á hormónum og salmonellusýkingum í erlendum varningi. Ég held að það sé ekki hægt að rugla þessu tvennu saman, annars vegar virðisaukaskatti og hins vegar vörnum gegn sjúkdómum og hormónum og vísa því á bug.
    Ég býst við að hv. þm. líði dálítið illa. Það liggur hér fyrir og ég hef í höndum yfirlýsingu annars vegar stjórnarfundar Stéttarsambands bænda og hins vegar Framsfl., sem er núverandi stefna flokksins, og báðir þessir aðilar hafa lýst yfir stuðningi við tveggja þrepa virðisaukaskatt. Framsfl. segir nú að það sé nauðsynlegt að hafa eitt þrep, annað sé slys, en hv. þm. heldur því fram í sinni ræðu að í raun vilji Framsfl. tvö þrep, það sé einungis verið að leggja til frestun og að endurgreiðslurnar séu í raun tvö þrep. Hann lagði mikla áherslu á það í sinni ræðu sem lýsti því hvernig honum líður þegar hann hefur verið pyntaður til að fylgja varaformanni flokksins. Ég tek það fram að stjórnarfundur Stéttarsambands bænda varar einmitt við þessum endurgreiðslum og tekur það skýrt fram í sinni yfirlýsingu.
    Loks um skattana í Svíþjóð. Þar er ólíku saman að jafna. Þeir lækkuðu skattinn úr 25% niður í 12% eða þar um bil og skatturinn á íslensku gistinguna mun ekki vera sambærilegur vegna þess að gengið hefur breyst, aðstöðugjald hefur verið þurrkað út, tryggingagjald verið lækkað og áhrifin eru margfalt minni en áhrifin í Svíþjóð þrátt fyrir þá lækkun sem þar hefur átt sér stað. Þetta veit hv. þm. auðvitað.