Málefni aldraðra

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 11:59:03 (3048)


[11:59]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hérna liggur fyrir er eins og kom fram í máli hv. 9. þm. Reykv. flutt að ósk borgarstjórnar Reykjavíkur og kemur núna inn í þingið alveg á síðustu dögum fyrir jól. Málið hefur örlítið verið kynnt óformlega fyrir heilbr.- og trn. Það var gert fyrir fáum dögum. Menn tóku þokkalega í þetta þar en þegar betur er að gáð og málið er skoðað örlítið dýpra þá finnst mér ýmsar spurningar vakna sem vert er að fá svar við áður en menn ganga út í slíkar grundvallarbreytingar í einu sveitarfélagi, grundvallarbreytingar frá því sem viðgengst í öðrum sveitarfélögum.
    Að mörgu leyti er mjög vel að öldrunarþjónustunni búið í Reykjavík, þ.e. að öllum þeim þáttum öldrunarþjónustunnar öðrum en snýr að hjúkrunarheimilunum. Í þeim málaflokki einangruðum er í raun og veru algert neyðarástand. Það eru á bilinu 150--180 manns sem bíða eftir því að komast inn og bráð nauðsyn er til að koma inn á hjúkrunarheimilin því að í mörgum heimahúsum er mjög slæmt ástand í þessum efnum.
    Það hefur verið gagnrýnt af mörgum á undanförnum árum að það hafi verið óskynsamlegt þegar síðasta verkaskipting ríkis og sveitarfélaga fór fram að skera í sundur heimaþjónustuna, þ.e. að heimilishjálpin sé í höndum sveitarfélaganna en heimahjúkrunin í höndum ríkisins. Þarna þurfi að koma á auknu samstarfi og ég tek undir það, sérstaklega held ég að þetta eigi við hér í höfuðborginni.
    Þetta frv. gengur einmitt í þá átt að höggva þetta enn frekar í sundur heldur en slá þessum hlutum saman eða auka samstarfið þannig að ég vil m.a. skoða þetta mál út frá því sjónarhorni. Hitt er svo aftur annað mál að frá árinu 1987 varð alger stefnubreyting í heilbrigðismálum í höfuðborginni. Meðan borgarstjórnarmeirihlutinn átti að taka þátt í greiðslu hluta af rekstrarkostnaði heilsugæslunnar í sveitarfélaginu var hann á móti uppbyggingu heilsugæslustöðva og lagði áherslu á að sjálfstætt starfandi heimilislæknar sinntu þessari þjónustu. Heimahjúkrun á þeim tíma var að mínu viti alveg í molum. Með þeirri

stefnubreytingu, þegar mótuð var sú stefna að byggja upp heilsugæslustöðvar í hverfum borgarinnar þegar ríkið tók yfir allan reksturskostnaðinn en borgin eða sveitarfélögin greiddu aðeins 15%, varð algjör breyting. Það er búið að byggja hér gríðarlega upp. Það er verið að taka hverja heilsugæslustöðina á fætur annarri í notkun og hefur verið gert á undanförnum árum. Það merkilegasta er að starfsfólkið hafði áhyggjur af því um áramótin 1989 og 1990 þegar verkaskiptingin fór fram, að nú væri verið að flytja þessa þjónustu alla yfir til ríkisins. Í framhaldi af því vissi þetta fólk, sem hafði starfað á vegum borgarinnar, mjög lítið um hver framtíðin væri, það væri verið að skerða kjör og þar fram eftir götunum, en í dag fagnar þetta fólk að stórum hluta til þessari breytingu og vill alls ekki snúa til baka. Af hverju skyldi ég segja þetta? Jú, vegna þess að á nýafstöðnum fundi Landssambands heilsugæslustöðva kom fram hjá hjúkrunarforstjórum, sem áður störfuðu undir hæl borgarinnar og starfa núna hjá ríkinu, að þeir vara mjög við að stíga þetta skref til baka.
    Á undanförnum tveimur árum, og það vil ég þakka núv. hæstv. iðn.- og viðskrh. sem þá var heilbrrh., var frá 1991 framfylgt þeirri stefnu er mótuð hafði verið í tíð Guðmundar Bjarnasonar í heilbrrn. Heilsugæslustöðvar hafa verið opnaðar á mörgum stöðum í borginni. Um leið hafa verið settir verulegir fjármunir, og það vil ég einnig þakka hæstv. núv. iðn.- og viðskrh., til þess að sinna heimahjúkruninni í borginni á vegum Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Það hefur ekkert verið hlutverk borgarstjórnar Reykjavíkur síðan 1990 að skipta sér af þessum málum og því hefur tekist vel til. Borgarstjórnarmeirihluti íhaldsins í Reykjavík hefur aldrei haft áhuga fyrir þessum málum í raun. Það er bara staðreynd. Hins vegar eru viss hættumerki nú á lofti. Það er niðurskurður í heimahjúkruninni í fjárlagafrv. fyrir árið 1994 þannig að það er búist við að ekki verði hægt að sinna heimahjúkrun í Reykjavík af eins miklum myndarbrag árið 1994 eins og hefur verið gert á undanförnum fjórum árum. Það sem er alvarlegast er að það er engin leiðrétting komin enn á rekstrargrundvelli sjúkrahúsanna í Reykjavík. Það skortir 730 millj. kr. á sjúkrahúsin þrjú í höfuðborginni til að hægt sé að halda uppi sambærilegri þjónustu og á árinu 1993 --- 730 millj. kr. Ef ekki koma leiðréttingar á þessum hlutum við 3. umr. fjárlaga blasir við algjört neyðarástand vegna þess að það er líka gert ráð fyrir því að skera niður í heimahjúkruninni á Heilsuverndarstöðinni og á heilsugæslustöðvunum.
    Þetta mun leiða til þess að um mitt ár 1994 myndast neyðarástand. Og af því að hæstv. iðn.- og viðskrh., núv. fyrrv. heilbrrh., er enn í ríkisstjórninni þá fyndist mér út af hans verkum á undanförnum árum að hann ætti að skoða þennan þátt mjög gaumgæfilega þó það séu ekki nema fáir klukkutímar í það að endanlega verði gengið frá fjárlagafrv. hér.
    En ég legg áherslu á það, virðulegi forseti, að þetta mál verði ekki afgreitt hér með einhverri fljótaskrift á síðustu klukkustundum þingsins fyrir jól, einfaldlega vegna þess að það þarf að kalla marga aðila til til að ræða málin og það liggur ekkert á öldrunarnefnd eins og hér er gert ráð fyrir, það liggur ekkert á að skipa hana fyrr en að afloknum næstu sveitarstjórnarkosningum og þær eru í lok maí. Hvað fara menn að hlaupa og skipa einhverja öldrunarnefnd í janúar sem verður leyst frá störfum þegar íhaldið tapar borginni í vor? Til hvers? Engin ástæða til þess. Menn bíða með þetta núna fram á vorþingið.