Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

68. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 13:05:49 (3050)

[13:05]
     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Sjútvn. hélt fund í morgun um afgreiðslu á þessu frv. um ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins til að vega á móti skerðingu þorskveiðiheimilda. Samkvæmt frv. er lagt til að aflaheimildum Hagræðingarsjóðs verði úthlutað endurgjaldslaust til þeirra skipa sem orðið hafa

fyrir mestri skerðingu á því aflamagni sem þeim er úthlutað á milli ára. Samkvæmt þessari heimild sjóðsins er ljóst að þær nægja til að bæta þeim skipum sem orðið hafa fyrir meiri skerðingu á milli fiskveiðiáranna en nemur 9,8% þegar í þorskígildum er talið. Eftir að úthlutun hefur farið fram mun ekkert skip hafa orðið fyrir meiri skerðingu en þessari. Hér er um að ræða rúmlega 780 fiskiskip sem mundu fá úthlutað viðbótaraflamarki ef frv. þetta nær fram að ganga sem ég vona. Eins og allir vita eru aflaheimildir Hagræðingarsjóðs í þessum fisktegundum, þorski, ýsu, ufsa, karfa, grálúðu og skarkola. Það er gert ráð fyrir því að úthlutun fari þannig fram að hverju skipi verði úthlutað viðbótaraflamarki sem nemur þessari skerðingu umfram þau 9,8% í þorskígildum þannig að hlutfallsleg skipting milli tegunda sýni samsetningu tegundanna sem Hagræðingarsjóði var úthlutað.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Nefndin var sammála um að mæla með samþykkt frv. þó að skammur tími væri til afgreiðslu og vil ég leyfa mér að þakka samnefndarmönnum fyrir góða samvinnu við afgreiðslu þessa máls.
    Tveir nefndarmenn voru fjarverandi afgreiðslu málsins en þeir eru Vilhjálmur Egilsson og Steingrímur J. Sigfússon. Anna Ólafsdóttir Björnsson, fulltrúi Samtaka um kvennalista, sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk þessu áliti.
    Undir álitið rita auk mín Gunnlaugur Stefánsson, Stefán Guðmundsson, Árni R. Árnason, Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson og Ólafur Þ. Þórðarson sem mætti í forföllum Halldórs Ásgrímssonar.