Tekjustofnar sveitarfélaga

68. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 14:05:37 (3059)

[14:05]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um tillögu sem kemur fram að fyrirmælum þriggja hæstv. ráðherra sem allir eiga það sameiginlegt að vera þingmenn Reykjavíkur. Í þessari tilskipun felst að fyrst að fjárhag Reykjavíkurborgar er svo komið að hún neyðist til að hækka útsvar sitt svo mikið sem fyrirsjáanlegt er, þá skuli öllum öðrum sveitarfélögum gert skylt að hafa eigi lægra en 8,4% útsvar, svo ekki beri jafnmikið á þessari hækkunarþörf Reykjavíkurborgar.
    Í þessu felst líka tímamótasamkomulag milli Sjálfstfl. og Alþfl. í borgarstjórninni í Reykjavík um skattastefnu sem hefði einhvern tímann þótt tíðindum sæta fyrr á þessu kjörtímabili.
    Ég vil, virðulegur forseti, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að það eigi hér eftir sem hingað til að treysta sveitarstjórnarmönnum til þess að ákvarða þennan skatt að lágmarki til, segja nei.