Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

69. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 15:01:23 (3077)


[15:01]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. ( Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir þessi svör sem hann hefur gefið en það er auðvitað öllum ljóst að við erum í miklu tímahraki að ræða mjög stór og viðamikil mál. Og þetta frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994 er eitt þeirra. Það lætur kannski lítið yfir sér við fyrstu sýn en í því er að finna allmörg mikilvæg atriði sem vert er að ræða og skoða nánar. Engin ástæða er til að afgreiða þetta mál í einhverju hasti.
    Ég mun byrja á því að gera grein fyrir nál. minni hluta efh.- og viðskn. en undir það álit skrifa ásamt mér hv. þm. Halldór Ásgrímsson, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhannes Geir Sigurgeirsson.
    Nál. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin fjallaði um frv. á tveimur fundum og er sú meðferð málsins mjög í anda þeirra vinnubragða sem einkennt hafa ríkisfjármálin á þessu þingi. Mál koma allt of seint fram og tíminn sem gefst til að vinna þau er allt of naumur. Það kom t.d. í ljós í meðförum nefndarinnar á málinu að veruleg ástæða hefði verið til að athuga betur hvaða afleiðingar hin svokölluðu þrátt-fyrir-ákvæði hafa haft fyrir þær stofnanir og sjóði sem hafa orðið að þola skerðingu lögbundinna framlaga árum saman. Til slíkrar könnunar gafst enginn tími.
    Frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum er óvenjulítið að þessu sinni og ræðst það af því að ýmist náðist ekki samkomulag í ríkisstjórnarflokkunum eða ákveðið var að taka út úr frv. illa undirbúin niðurskurðaráform sem mætt höfðu mikilli andstöðu í þjóðfélaginu. Frv. felur þó í sér nokkur mjög alvarleg áform og framlengingu á fyrri ákvörðunum sem stjórnarandstaðan mótmælir nú sem fyrr. Það er lýsandi fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar að þeir sem þurfa að þola niðurskurð og gjaldtöku eru grunnskólabörn, námsmenn í framhaldsskólum, ekkjur og áfengissjúklingar, auk menningarstarfsemi af ýmsu tagi sem ekki fær sín lögbundnu framlög.
    Grunnskólinn.
    Þriðja árið í röð er frestað framkvæmd nokkurra ákvæða grunnskólalaga sem samþykkt voru af öllum þingflokkum vorið 1991. Menntmrh. lýsti því yfir haustið 1991 að um tímabundna aðgerð væri að ræða. Hætt er við að sú aðgerð verði varanleg haldi svo fram sem horfir. Í stað þess að fækka börnum í bekkjum, eins og stefnt er að í grunnskólalögunum, er heimilt að fjölga börnum í bekkjum, kennslustundum er ekki fjölgað svo sem ráð var fyrir gert og sveitarfélögum er ekki gert skylt að koma á máltíðum í skólum. Á árinu 1994 er þessi niðurskurður 160 millj. kr. og á skólaárinu 1994--1995 verður hann um 350 millj. kr. Það er ljóst að þessi síendurtekni niðurskurður hefur haft alvarlegar afleiðingar sem m.a. lýsa sér í verulegri launalækkun kennara, atvinnuleysi í þeirra röðum, allt of stórum bekkjum og niðurskurði í kennslu sem skólakerfið mátti þó síst við. Niðurstaða nýlegrar könnunar á læsi íslenskra barna sýnir að þörf er á sókn í skólakerfinu í stað samdráttar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem borist hafa frá menntmrn. var heimildin til að fjölga í bekkjum notuð 34 sinnum skólaárið 1992--1993 og 16 sinnum til viðbótar skólaárið 1993--1994. Hér er um aðgerðir að ræða sem bitna á börnum landsins, framtíð þeirra og þjóðarinnar, aðgerðir sem stjórnarandstaða hefur mótmælt harðlega og mótmælir enn.
    Skólagjöld.
    Í frv. er lögð til upptaka skólagjalda í fjórum skólum. Þar er um að ræða búnaðarskólana, Garðyrkjuskóla ríkisins og Tækniskóla Íslands. Skólagjöldum hefur þegar verið komið á í öllum öðrum framhaldsskólum og skólum á háskólastigi. Í þessum fjórum skólum er bæði um að ræða grunndeildir og deildir á háskólastigi og því verður um mjög mismunandi gjöld að ræða. Stjórnarandstaðan hefur verið þeirrar skoðunar að með skólagjöldum sé verið að brjóta þá grundvallarreglu að ríkið bjóði öllum þegnum landsins upp á menntun sem greidd er úr sameiginlegum sjóðum. Stjórnarandstaðan er andvíg þjónustugjöldum af þessu tagi og mun því greiða atkvæði gegn þessum ákvæðum. Það er hins vegar lýsandi fyrir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar að ár eftir ár hefur í fjárlögum verið gert ráð fyrir ,,sértekjum`` Tækniskólans upp á 7 millj. kr. þótt lagaheimildir hafi skort til innheimtu sértekna. Sú breyting, sem hér er lögð til á lögum um Tækniskóla Íslands, felur það í sér að numin verður úr gildi sú skylda ríkisins að greiða rekstur skólans. Minni hluti menntmn. bendir á það í bréfi sínu til efh.- og viðskn. að þessi breyting feli í sér heimild til að taka Tækniskólann út af fjárlögum.
    Atvinnuleysistryggingar og ekknabætur.
    Sú grein frv. sem fól í sér heimild til að tekjutengja ekknabætur verður felld niður, samkvæmt tillögum meiri hlutans, þar sem slíka heimild er þegar að finna í nýsettum lögum um félagslega aðstoð. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fram komu í efh.- og viðskn., verður tekjutengingin með sama hætti og gildir um ellilífeyri. Það er álit minni hlutans að þetta mál hefði þurft mun nánari skoðunar við, þannig að ljóst væri hvernig staða þessa hóps er og hvernig þessi skerðing kemur við hann. Minni hluti heilbr.- og trn. hafnar þessari tekjutengingu enda hafi engin rök komið fram sem styðji þá skoðun að þessi sparnaður sé skynsamlegur.
    Nokkrar breytingar eru gerðar á lögum um atvinnuleysistryggingar, m.a. til að koma í veg fyrir misnotkun. Sumar þessar breytinga orka tvímælis, svo sem það að taka út úr lögunum með öllu rétt til að greiða atvinnuleysisbætur á móti samdrætti í vinnu. Nú er til athugunar að lagfæra þetta. Einnig er ljóst að ráðherra er að taka til sín stóraukið vald frá Atvinnuleysistryggingasjóði og úthlutunarnefndum. Á fundi efh.- og viðskn. um málið kom fram að Samband íslenskra sveitarfélaga er ekki alls kostar ánægt með það ákvæði sem lögbindur 600 millj. kr. framlag sveitarfélaganna til atvinnumála og telur að breytingartillaga meiri hluta heilbr.- og trn. feli í sér óeðlilegar kröfur til sveitarfélaganna. Verði því ekki breytt kallar það á mótmæli og versnandi samskipti sveitarfélaganna og ríkisstjórnarinnar og er þó ekki á bætandi. Þetta mál hefði þurft meiri og betri umfjöllun í nefndinni.
    Sjúklingaskattur.
    Í 11. gr. frv. og þeirri breytingartillögu, sem meiri hlutinn leggur til, er gert ráð fyrir að þeir sjúklingar, sem þurfa á áfengismeðferð að halda, greiði hluta af þeim kostnaði sem meðferðinni fylgir. Þar með er verið að innleiða þá reglu að sjúklingar, sem lagðir verða inn á stofnun til meðferðar, greiði fyrir hana. Þótt um sérhæfða meðferð sé að ræða er ljóst að sá hópur, sem ákvæðið nær til, er oftast illa á sig kominn andlega og líkamlega og ólíklegt að slíkir sjúklingar geti greitt fyrir sjúkrahúsvistun. Þessi gjaldtaka á að skila um 25 millj. kr. samkvæmt frv. en hætt er við að sumir þeirra sem þurfa á meðferð að halda geti ekki greitt gjöldin og leiti sér því ekki lækninga. Það verður þjóðfélaginu dýrt þegar til lengdar er litið. Minni hlutinn mótmælir þessari stefnu og mun greiða atkvæði gegn þessu ákvæði.
    Þrátt-fyrir-ákvæðin.
    Í þrátt-fyrir-ákvæðum frv. er að finna skerðingar á lögbundnum framlögum sem endurteknar hafa verið ár eftir ár. Það er skoðun minni hlutans að lagasetning af þessu tagi sé afar slæm og að miklu eðlilegra væri að endurskoða þau lög sem hér um ræðir sé það vilji Alþingis að skerða fjárframlög með þessum hætti.
    Minni hlutinn vill benda sérstaklega á eftirfarandi atriði.
    Í fyrsta lagi eru tekjur Ríkisútvarpsins teknar í ríkissjóð. Staða Ríkisútvarpsins er með þeim hætti að mikil þörf er á viðhaldi og endurbótum, einkum á dreifikerfinu sem á að þjóna landinu og miðunum. Með því að taka þessar tekjur traustataki er verið að koma í veg fyrir bætta þjónustu við landsmenn og verið að leggja stein í götu þessarar mikilvægu menningarstofnunar og öryggistækis.
    Í öðru lagi vill minni hlutinn benda á skert framlög til húsfriðunar, en húsafriðunarsjóðs bíða mörg brýn verkefni. Húsafriðunarsjóður skapar vinnu og þau hús sem hann styrkir viðgerðir á vekja áhuga ferðamanna, auk þess sem verið er að bjarga menningarverðmætum. Það er því mikilvægt að hann njóti stuðnings og má benda á það hlutverk sem hann getur gegnt í atvinnusköpun á erfiðum tímum.
    Í þriðja lagi eru framlög til Ferðamálasjóðs skert þegar brýnna er en nokkru sinni að vinna að uppbyggingu í ferðaþjónustu. Þess í stað er sjóðurinn skorinn niður og skattar lagðir á hluta ferðaþjónustu sem er einn fárra vaxtarbrodda í íslensku atvinnulífi.
    Í fjórða lagi ber að nefna þá undarlegu stefnu sem beitt er gagnvart Vegagerðinni. Annars vegar er samið við verkalýðshreyfinguna um aukin framlög til verklegra framkvæmda, þar með talið vegagerðar sem fjármagnaðar eru með stórfelldum lántökum, hins vegar eru svo lögbundin framlög til stofnunarinnar hirt í ríkissjóð. Þetta eru furðuleg vinnubrögð sem vekja enn spurningar um það hvernig framkvæmdarvaldið umgengst landslög.
    Í fimmta lagi ber svo að nefna þá merkilegu stefnumörkun sem felst í því ákvæði að ríkissjóður taki ekki þátt í að greiða kostnað við leit að áður óþekktum tófugrenjum.
    Niðurstaða.
    Það er niðurstaða minni hlutans að þau niðurskurðaráform, sem gert er ráð fyrir í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1994, séu þess efnis að ekki sé hægt að fallast á þau þar sem þau fela í sér aukinn sjúklingaskatt, vanefndir á framkvæmd grunnskólalaganna, skólagjöld og lækkun ekkjulífeyris.``

    Undir þetta nál. rita, eins og ég nefndi áður, sú sem hér stendur ásamt þeim Halldóri Ásgrímssyni, Steingrími J. Sigfússyni og Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni.
    Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að ítreka það sem nefnt er í nál. um vinnubrögð og tengist umræðum hér í dag og undanfarna daga um hvernig staðið er að þessum mikilvæga málaflokki sem ríkisfjármálin eru. það er alveg ólíðandi að gerðar skuli vera breytingar á jafnmikilvægum málaflokkum og t.d. atvinnuleysistryggingum á harðahlaupum og að varla gefist tími til þess að kanna hvað liggur að baki.
    Ef ég kem að einstökum málaflokkum þá er ekki ástæða til að vera með miklar málalengingar um þau efni. Ég sé að hæstv. menntmrh. situr hér og á líklega von á nokkrum umræðum um grunnskólann, en ég er að hugsa um að hlífa honum við því að þessu sinni að mestu leyti. ( ÓE: Þetta er líka orðið nóg.) Nei, það er aldrei nóg talað um skólamálin, nóg, því að þau eru, eins og ég hef oft nefnt, spennandi málaflokkur og mjög mikilvægur, en það breytir því ekki að vissulega er ástæða til þess að gera úttekt á því hvað þessi niðurskurður til skólakerfisins hefur haft í för með sér, hvaða áhrif hann hefur haft á skólakerfið og kannski ekki síst það sem í skólafræðum er kallað ,,skólaandi``, andinn í skólanum, í skólastofunni. Mér þótti það nokkuð merkilegt að við í minni hluta menntmn. reyndum aðeins að afla okkur upplýsinga um afleiðingar þessa niðurskurðar umfram það sem kom fram í upplýsingum menntmrn. Í viðtölum við skólamenn kom fram að það hefur orðið mikill niðurskurður á kennslu og að í sumum grunnskólum, ekki síst á Reykjavíkursvæðinu, er verið að reyna að leysa þau mál með því að koma ýmsum öðrum verkefnum yfir á kennara. Það tekst ekki með kennslu að fylla upp í stöðuráðningar og þá er verið að fara þess á leit við kennara að þeir taki að sér önnur verk. Mér skilst að það séu uppi deilur um greiðslu vegna þessara verka sem ekki teljast til kennslu heldur annarra starfa, svo sem gæslu á skólavöllum og fleira í þeim dúr.
    Það er því alveg ljóst að þessi niðurskurður hefur náð til kennaranna og þeirra launakjara sem máttu ekki við niðurskurði. Yfirvinna hefur dregist mikið saman. Það er einmitt mjög mikilvægt að velta fyrir sér þeirri spurningu hvaða áhrif svona niðurskurður hefur á vinnuandann. Ég get rifjað það upp að ég varð sem framhaldsskólakennari vitni að þeim verkföllum sem BHMR lagði út í með stuttu millibili þar sem menn annars vegar upplifðu það að þær launabætur sem náðust voru teknar til baka á örskömmum tíma og hins vegar að þáverandi ríkisstjórn setti bráðabirgðalög á gerða kjarasamninga. Sú reynsla hafði alveg gríðarleg áhrif á vinnuandann. Það er einmitt það sem skiptir svo miklu máli þegar verið er að taka stjórnvaldsákvarðanir að menn geri sér grein fyrir afleiðingunum. Það er ekki bara um að ræða afleiðingar fyrir börnin, sem skiptir þó að mínum dómi mestu máli að það er verið að skerða möguleika barna til menntunar og draga úr kennslu sem skólakerfið má þó síst við, heldur hefur það líka áhrif ef andinn í hópi kennara er slæmur.
    Ég ætla enn að ítreka það sem hér hefur margoft verið tíundað um þessi skólagjöld. Þessi þjónustugjalda- og gjaldtökustefna er vond stefna og við munum greiða atkvæði gegn þessu nú sem fyrr.
    Það átti sér stað nokkuð merkileg þróun varðandi 7. gr. frv. Það kom í ljós að landbn. var öll sammála um að það væri óeðlilegt og vont að leggja sérstakt gjald á landbúnaðinn við þær aðstæður sem við búum við. Það er greinilegt að meiri hlutinn á Alþingi ætlar að verða við þessari ósk og það er lagt til að þessi grein falli niður þrátt fyrir að landbrn. hafi sent fulltrúa á okkar fund til þess að biðja um miskunn því það þarf að ná þessum peningum inn á annan hátt. En mér fannst þetta mikilvægur sigur í þessu máli því það snertir líka þann anda sem ríkir í landbúnaðinum þar sem menn búa við samfelldan niðurskurð og samdrátt, auk þess sem menn sjá fram undan miklar breytingar á stöðu landbúnaðarins með auknum innflutningi. Það er því ekki á bætandi að vera að leggja nýja skatta á bændur. Auk þess voru uppi spurningar um hvort þessar tekjur mundu yfir höfuð skila sér.
    Við gerum ekki sérstakar athugasemdir við þær breytingar sem hér er verið að leggja til um orlofið. Þar er um ákveðnar breytingar að ræða sem tryggja það að starfsmenn fái greitt orlof sem þeir eiga inni hjá fyrirtækjum sem verða gjaldþrota. Það er þó sú spurning uppi hver á að bera það tap sem þarna verður. Hér er verið að leggja það á önnur fyrirtæki að greiða í sjóði sem síðan er tekið út til að borga fyrir þá sem hafa orðið gjaldþrota.
    Sama gildir um þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um málefni fatlaðra. Við gerum þar ekki athugasemdir. Menn eru sammála um það og Samtök fatlaðra gera ekki athugasemd við það að peningar séu teknir úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til reksturs. Við sjáum því ekki ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir við það.
    Ég ætla aðeins að nefna þær breytingar sem verið er að gera á lögum um almannatryggingar þar sem líka er tillaga meiri hlutans að fella niður 10. gr. frv. vegna þess að það er litið svo á að búið sé að fá heimild fyrir tekjutengingu ekknabóta í nýsamþykktum lögum um félagslega aðstoð, eins og kom reyndar fram áðan í nál.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í hv. efh.- og viðskn. þá reiknar ráðuneytið með því að hér verði um u.þ.b. 50 millj. kr. skerðingu að ræða. Mér þykir það býsna há upphæð miðað við að það á að fara eftir sömu reglum og gilda um skerðingu ellilífeyris. Mér finnst þetta í rauninni ótrúlega há upphæð en það er sama sagan með þetta og ýmislegt annað. Það gafst enginn tími til þess að fara nánar ofan í þetta. En minni hluti heilbr.- og trn., þar sem stjórnarandstaðan öll á sína fulltrúa, hafnar þessu alfarið og bendir á að hér sé verið að krukka í bæturnar án þess að menn hafi velt fyrir sér röksemdum hvers

vegna, hvernig og hver sé staða þessa hóps. Engin úttekt liggur fyrir í þessu efni frekar en öðru.
    Varðandi atvinnuleysistryggingarnar eru þar vissulega atriði sem þarfnast nánari skoðunar. Það kom fram hjá fulltrúa heilbrrn. sem kom á fund nefndarinnar að stjórn sjóðsins og ráðuneytið eru vissulega tilbúin til að skoða allar ábendingar. Okkur finnst að verið sé að veita ansi mikið vald til ráðherrans. Við verðum vör við það í hverju frv. á fætur öðru að það er sífellt verið að veita ráðherrum meira og meira vald til ákvarðana og til setningar reglugerða. Þetta er stefna sem hið háa Alþingi þarf að vera vakandi yfir og þarf í rauninni að stöðva. Það er undarlegt hversu mikið ósamræmi er í þessum málum. Þegar við í efh.- og viðskn. vorum að fara í gegnum EES-frumvörp í fyrra þá hreinsuðum við miskunnarlaust út ákvæði af þessu tagi þar sem var verið að flytja endalaust vald til ráðherra til reglugerðarsetningar en í öðrum nefndum eru afgreidd frv. sem eru nánast ekkert annað en heimildir til ráðherra til að setja reglugerðir. Það þarf að vera eitthvert samræmi í þessari reglugerðarheimildarstefnu.
    En varðandi þessar breytingar á atvinnuleysistryggingunum þá hefur aðallega verið vakin athygli á 16. gr. frv. þar sem verið er að fella niður 5. mgr. 24. gr. Það var haft samband við nefndina af Slippstöðinni á Akureyri sem benti á að ekki er allt sem sýnist í þessum efnum. Þetta ákvæði felur í sér, eins og segir í grg. frv. á bls. 8, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði þetta geymir heimild til þess að greiða atvinnuleysisbætur í hlutfalli við skertan dagvinnutíma ef skerðingin stafar af samdrætti í starfsemi fyrirtækis. Í ljós hefur komið veruleg misnotkun þessa ákvæðis og er fyrir þær sakir lagt til að ákvæðið falli brott.``
    Þannig var þetta upphaflega en sannleikurinn var sá að fyrirtæki eins og Slippstöðin á Akureyri hefur stýrt sinni starfsemi í tengslum við þetta ákvæði, dregið saman vinnu og í rauninni sent sitt fólk út í atvinnuleysið og sett það á bætur um tíma í þeim tilgangi að þurfa ekki að segja upp fólki. Þarna þarf að vega það og meta hvað er rétt að gera í þessum efnum. En meiri hlutinn leggur til brtt. í þessu efni þar sem reynt er að koma til móts við þetta þannig að stjórn sjóðsins vegi og meti hvernig er verið að fara með atvinnuleysisbæturnar. Ég held að þetta sé að mörgu leyti nokkuð skynsamleg stefna sem Slippstöðin á Akureyri hefur fylgt og þó að dæmi séu um misnotkun þá verða menn að passa sig á að vera ekki of fljótir til að fella niður svona ákvæði.
    Ég ætla ekki að gleyma hinu mikilvæga máli sem felst í 11. gr. og er atriði sem við í minni hlutanum viljum fá út úr þessu frv. Það er sá sjúklingaskattur sem meiningin er að leggja á áfengissjúklinga.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á þessu ákvæði þar sem er verið að þrengja nokkuð ákvæðið frá því sem það var í frv. Það breytir ekki því að hér er verið að opna fyrir það að sjúklingar greiði fyrir meðferð og þetta er stefnubreyting. Þetta er algjör stefnubreyting í heilbrigðismálum og þessu erum við einfaldlega á móti. Það er ekkert sem réttlætir það að taka slík gjöld af áfengissjúklingum frekar en öðrum. Sú hin stóra spurning, sem kom fram í nál., er hvort þeir séu yfir höfuð færir um að greiða þau gjöld. Ég minni enn á þær greinar sem læknar hafa verið að skrifa í dagblöðin að undanförnu. Nú síðast Tómas Helgason yfirlæknir á Landspítalanum þar sem hann einmitt bendir á það atriði að þeir sjúklingar sem eru að stríða við áfengissýki eru oft þannig á sig komnir og þeirra aðstæður slíkar að það er afar hæpið að þeir geti skaffað ríkinu 25 millj. eins og ætlunin er að gera með þessum ákvæðum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla rétt í lokin að ítreka nokkur atriði varðandi þrátt-fyrir-ákvæðin og greina frá því sérstaklega fyrst hæstv. menntmrh. situr hér enn að við í efh.- og viðskn. kölluðum á okkar fund fulltrúa Ríkisútvarpsins og húsafriðunarsjóðs vegna þess að okkur fannst ástæða til að líta sérstaklega á þær skerðingar sem þessir tveir aðilar verða fyrir og reyna að átta okkur á því hvað þetta þýðir. Þessar heimsóknir leiddu það einmitt í ljós að ástæða hefði verið til að fara miklu nákvæmar ofan í þessi skerðingarákvæði sem hér eru á ferð. Hér er bara verið að endurtaka ár eftir ár einhverjar ákvarðanir um skerðingu á lögbundnum framlögum en það þýðir að það er bara verið að safna upp vanda í þessum stofnunum. Það var afar athyglisvert að heyra í fulltrúum Ríkisútvarpsins sem standa frammi fyrir miklum vanda vegna viðhalds og nýframkvæmda í dreifingarkerfi Ríkisútvarpsins sem þurfa að eiga sér stað en stofnunin fær ekki peninga til.
    Það væri fróðlegt í þessu sambandi að spyrja hæstv. menntmrh. hvað hann hyggst gera í þessum málum. Nú veit ég að það er verið að endurskoða útvarpslögin. Eru menn að hugsa þar um breytta tekjustofna Ríkisútvarpsins? Á að leggja þennan framkvæmdasjóð niður eða hvernig er fyrirhugað að haga þessum málum? Ég held að við séum öll sammála um það, þó að innan Sjálfstfl. séu hópar sem vilja leggja Rás 2 niður eða selja hana í frjálshyggjustíl, að Ríkisútvarpið er gríðarlega mikilvæg menningarstofnun og einnig það að Ríkisútvarpið gegnir miklu öryggishlutverki á okkar landi. Þarf ekki að minna menn á það hvernig Ríkisútvarpið hefur þjónað því hlutverki t.d. þegar óveður hafa geisað og allt orðið rafmagnslaust eða ég minnist bara gossins í Vestmannaeyjum 1973 og þegar þurft hefur að koma mikilvægum fréttum til þjóðarinnar. Þetta er gríðarlega mikilvæg stofnun og það verður að sjá til þess að hún búi við góð starfsskilyrði.
    Sama gildir um húsafriðunarsjóð og ég vil vekja sérstaka athygli hæstv. menntmrh. á því sem fulltrúar sjóðsins sögðu um möguleika hans til þess að skapa atvinnu víða um land. Það er mikið vandaverk að halda við gömlum húsum og það kallar á sérþekkingu en þarna er oft um mikið nostur að ræða og það þarf töluvert mikið vinnuafl og þetta er tilvalið, ég tala nú ekki um ef atvinnuleysi er í röðum iðnnema sem læra húsasmíði og slíkt þá er tilvalið að verja peningum til þessa málaflokks. Þetta getur verið eitt af þessum átaksverkefnum sem verið er að vinna að og skila sér eins og þeir nefndu í auknum ferðamannastraumi, fegurra umhverfi og því að það er verið að varðveita menningarverðmæti. Fulltrúar sjóðsins nefndu alveg sérstaklega þá byltingu sem varð á Hofsósi og við hv. þm. Kristín Einarsdóttir urðum einmitt vitni að þegar við fórum þangað í heimsókn. Þar var gert við gamalt pakkhús, mjög sögulegt hús, eitt af elstu húsum á landinu og það þýddi það að allt í einu hófst ferðamannastraumur til þessa litla bæjar þar sem varla nokkur hræða hafði litið við. Allt í einu var eitthvað merkilegt að skoða þarna og þetta eina hús hefur einfaldlega gerbreytt aðstæðum í þessum litla bæ. Þannig gæti þetta orðið víðar, hæstv. menntmrh., og því vil ég sérstaklega ítreka þetta og benda á að þarna eru möguleikar til atvinnusköpunar.
    Við höfum rætt mikið um ferðamálin hér í dag og ég ætla ekki að bæta miklu við það. Ég vil mótmæla enn þessari skattlagningu sem enn er eftir á ferðaþjónustuna og mun valda óbætanlegu tjóni. Það er auðvitað óþolandi að Ferðamálasjóður, sem ætlað er það hlutverk að styðja við bak ferðaþjónustunnar, skuli vera svona skertur ár eftir ár. Menn eiga að veita pening til vaxtarbroddanna þannig að blóðið streymi þar sem vöxturinn er.
    Við nefndum í nefndarálitinu þessi furðulegu vinnubrögð í kringum Vegagerðina. Þetta er svona bókhaldsskollaleikur sem allt er fullt af í þessum fjármálum ríkisins og þá síðast þessi furðulega 37. gr. sem væri nú gaman að ræða við hæstv. umhvrh., um greiðsluna fyrir hin áður óþekktu tófugreni og greinilega er mikið baráttumál í hans ráðuneyti að þurfa ekki að vera að borga fyrir leitarflokka sem fara um heiðar í grenjaleit.
    Ég get rifjað það upp að ég er mikill vinur og aðdáandi íslenska refsins og þykir fremur leitt að menn skuli vera að eltast við hann. Menn hafa ofsótt hann öldum saman og er mál að linni þeim ofsóknum. ( Gripið fram í: Við skulum leita að þekktum grenjum.) Já, það má leita að þekktum grenjum, það er ljóst, og verður borgað fyrir það. Það er ekki hægt að skilja þessa lagagrein öðruvísi.
    Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir áliti minni hluta efh.- og viðskn. sem ég byggi fyrst og fremst á álitum minni hluta þeirra nefnda sem fengu frv. til meðferðar og af þeirri yfirferð má ljóst vera að við höfum mjög margt við þetta frv. að athuga og teljum rétt að ríkisstjórnin beri ábyrgð á því sem hér er verið að gera en munum þó greiða atkvæði gegn ýmsum greinum þessa frv. sem við teljum vera mjög til tjóns.