Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

69. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 15:34:48 (3078)


[15:34]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hefði viljað fara fram á það við hæstv. forseta að hún kannaði hvort hæstv. heilbrrh. eða staðgengill hans er í húsinu. Sömuleiðis hefði ég gjarnan viljað fá að spyrja hæstv. umhvrh. einnar spurningar við tækifæri.
     (Forseti (VS): Þannig háttar til að hæstv. heilbrrh. mun vera veikur í dag, en hæstv. umhvrh. er í þinghúsinu ef hv. þm. sættir sig við það svona fyrst um sinn.)
    Já, ég sætti mig prýðilega við það, hæstv. forseti, og þakka fyrir þessi skjótu viðbrögð en mér þætti betra ef hæstv. ég held iðnrh. og viðskrh. sem gegnir fyrir heilbr.- og trmrh. gæti hugsað sér að vera hér viðstaddur umræðuna. Er það ekki rétt að hann gegni fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh.? Ef hægt væri að koma því áleiðis þá þætti mér vænt um það.
    Varðandi frv. í heild þá ætla ég út af fyrir sig ekki að segja margt. Ég ætla að víkja hér örfáum orðum að þeim þáttum sem snúa aðallega að heilbr.- og trmrn. Við höfum á síðustu dögum tekið hér lotur í sambandi við menntmrn. sérstaklega, þ.e. niðurskurðinn í skólum, grunnskólum og skólagjöld Tækniskólans og í sjálfu sér er ekki ástæða til þess að fara sérstaklega yfir það í löngu og ítarlegu máli auk þess sem talsmaður minni hlutans, hv. 18. þm. Reykv., hefur gert mjög skýra og góða grein fyrir málinu í heild og þar á meðal því sem lýtur að menntamálum sérstaklega.
    Ég vildi kannski aðeins áður en lengra er haldið vekja athygli þingsins á þeirri brtt. sem meiri hlutinn gerir en í nál. á þskj. 445 segir um hana: ,,Þá er jafnframt lagt til að 10. gr. verði felld brott þar sem í nýsamþykktum lögum um félagslega aðstoð er veitt lagaheimild til að tengja greiðslu ekkjulífeyris við tekjur.``
    Mér þætti fróðlegt að vita, hæstv. forseti, hvernig eiginlega þetta ákvæði komst inn í þennan bandorm. Er það ekki rétt hjá mér að þetta sé frv. um félagslega aðstoð sem hefur verið lengi hér inni í þinginu eða hvað? ( Gripið fram í: Frá því í haust.) Frá því snemma í haust. Og það er flutt af hæstv. heilbrrh. er það ekki? Frv. er búið að liggja hérna frá því í haust og svo er fjallað um þennan bandorm í ríkisstjórninni á fundi eftir fund og niðurstaðan er svo sú að flytja þar sérstakt ákvæði í þessum bandormi um ekkjulífeyri að það eigi að skerða hann og það er talað um það, sagði hv. 18. þm. Reykv. hérna áðan, að þetta ætti að skila 50 millj. kr. þó að ég satt að segja botni ekkert í því hvernig það má vera en mér skilst að það sé svo eða er sagt að það sé þannig.
    Þá kemur það allt í einu á daginn núna við meðferð málsins hér í nefnd, í hv. efh.- og viðskn. og kannski heilbr.- og trn., ég skal ekki um það segja, að þetta sé í raun og veru óþarfi hér af því að þetta sé í lögum sem verið sé að samþykkja um félagslega aðstoð. Mér sýnist að þetta bendi til þess að ríkisstjórnin viti ekkert hvað hún er að flytja hérna og það er spurning hvort það væri ástæða til þess fyrir menn

að fara yfir málið aðeins víðar, hvort það eru fleiri svona ákvæði hérna inni, sem eru kannski komin inn í einhver önnur frumvörp. Ég satt að segja man ekki eftir því að hafa lent í því hér áður að menn séu að flytja sömu efnisatriðin í tveimur stjfrv. sem eru væntanlega lesin af heilbrrn. eða a.m.k. hæstv. heilbr.- og trmrh. þannig að ég hlýt að vekja athygli á þessu fúski í vinnubrögðum sem kemur fram í því að það er verið að flytja tillögu í frv. um félagslega aðstoð og svo er hún endurflutt í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og hefur sjálfsagt hæstv. heilbrrh. hugsað að sjaldan verði góð vísa of oft kveðin en Alþingi er þeirrar skoðunar, eins og kunnugt er, að það þurfi aðeins einu sinni að samþykkja hvert lagaákvæði á sama þinginu. En þannig háttar til af því að hæstv. iðnrh. og viðskrh. er kominn hér sem gegnir fyrir heilbr.- og trmrh., gerði það hér áðan . . .   (Gripið fram í.) Þá verðum við bara að fella umræðuna niður, hæstv. forseti. Ef það er ekki hægt að svara um þessi atriði af hálfu ríkisstjórnarinnar þá verður bara að fella þessa umræðu niður. Það er útilokað að taka þetta mál hér í gegnum þingið án þess að heilbr.- og trmrh. standi fyrir sínu máli. Þegar heilbr.- og trmrh. getur ekki komið betur frá sér málum heldur en gert er í þessum textum, það verður einhver að svara fyrir það. Það er svoleiðis alveg með ólíkindum að ráðuneytið flytur hér í haust tillögu um frv. um félagslega aðstoð, flytur svo aftur sams konar ákvæði inn í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem er svo dregið til baka af því að það er óþarfi.
    Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég tel reyndar, úr því að hæstv. fyrrv. heilbrrh. er hérna, þá ætla ég að leyfa mér að vekja athygli hans á einu atriði meðan hann stöðvast hér inni. Það er það að í ákvæðum frv. um atvinnuleysistryggingar er gert ráð fyrir því að ráðherra geti einn lagt niður úthlutunarnefndir. Nú háttar svo til að atvinnuleysistryggingarnar eiga að fara til félmrh. um áramótin. Þess vegna gæti ég út af fyrir sig alveg sætt mig við það ef hæstv. félmrh. gæti mætt hér á fundinn til þess að standa fyrir málinu ef þess er kostur og þætti vænt um ef hæstv. forseti léti kanna það.
     (Forseti (VS): Forseti mun gera ráðstafanir.)
    Ég ætla þá ekki að taka tíma hæstv. iðnrh. og viðskrh. lengur heldur víkja þá máli mínu núna að hæstv. umhvrh. sem er svo vinsamlegur að koma hér í salinn áður en ég ræði Atvinnuleysistryggingasjóð við hæstv. félmrh.
    Í 37. gr. þessa frv. er ákvæði sem snertir umhvrn. Þar segir svo í síðasta málslið, með leyfi forseta: ,,Ríkissjóður tekur ekki þátt í kostnaði við leit að áður óþekktum tófugrenjum nema veiðistjóri samþykki leitina fyrir fram.``
    Nú brestur mig skilning á þessu máli. Sjálfur hef ég aldrei legið á greni en það kann að vera að hæstv. umhvrh. hafi einhvern tíma gengið til grenja í Grímsstaðamúlanum þegar hann var í sveit á Mýrum á yngri árum, ekki skal ég um það segja. En hitt veit ég að þetta er algerlega óskiljanlegur texti. (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega það. ,,Ríkissjóður tekur ekki þátt í kostnaði við leit að áður óþekktum tófugrenjum``, þ.e. ríkissjóður tekur þátt í kostnaði við leit að þekktum grenjum. Ég skil þetta svo. Er það réttur skilningur, hæstv. ráðherra? Út af fyrir sig má hugsa sér að kosta athugun á þekktum grenjum. T.d. er það svo að í Grímsstaðamúla ofan Mýra, sem hæstv. umhvrh. þekkir, eru nokkur greni, hafa verið um áratugi og kannski aldir og það er svo að segja hægt að ganga að þeim. ( Umhvrh.: Árþúsundir.) Og kannski árþúsundir, ég þekki ekki svo langt aftur í tímann. Hæstv. umhvrh. kann þessa sögu örugglega sem gróinn Mýramaður.
    Þá kemur hinn vandinn. Nú gæti ég allt í einu viljað leita að óþekktu greni, þ.e. leita að greni sem ekki hefði áður fundist. Og vegna þess að það væri dýrbítur sem lægi í fé niðri á Mýrum ofan úr Grímsstaðamúla en hann væri ekki í þekktu greni, þá mundi ég vilja leita að óþekktu greni. Fer ég þá, hæstv. umhvrh., til veiðistjóra og segi: Ég vil fá styrk til að leita að óþekktu greni? (Gripið fram í.) Ég vil biðja hæstv. umhvrh. að skýra nákvæmlega hvað þetta þýðir. Þurfa menn að leita eftir sérstakri heimild til þess að leita að óþekktu greni? Verða kannski gefin út eyðublöð í umhvrn. fyrir leit að óþekktum grenjum, sérstök eyðublöð sem umhvrh. fellst á? Ég held að að sé nauðsynlegt, hæstv. forseti, á milli 2. og 3. umr. að skýra þetta orðalag því að það er svo vitlaust að það er ekki hægt að nota það til neins annars en að hafa gaman af því og það er út af fyrir sig þakkarvert að það skuli vera flutt frv. sem er fyndið í tveimur línum og má heita út af fyrir sig gott miðað við þessa ríkisstjórn að það komi eitthvað frá henni sem er fyndið af og til en það er sárasjaldgæft. Yfirleitt er það grátlegt eða grátbroslegt í besta falli.
    Þá kem ég að Atvinnuleysistryggingasjóði og sný máli mínu að hæstv. félmrh. Í 17. gr. frv. er gert ráð fyrir því að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að sameina úthlutunarnefndir tveggja eða fleiri félaga eða félagasambanda. Úthlutunarnefndirnar eru allt of margar. Það er alger samstaða um það. Það vita allir. En finnst mönnum nú eðlilegt að láta ráðherra hafa reglugerðarvald til þess að leggja í raun og veru niður allt úthlutunarkerfi atvinnuleysistrygginga? Ég spyr hæstv. félmrh. í fullri vinsemd hvort henni finnist það eðlilegt að félmrh. hafi vald til þess að hrinda um koll öllu þessu úthlutunarkerfi.
    Það hefur verið sagt að verkalýðshreyfingin sé treg til þess að fallast á endurskipulagningu úthlutunarkerfisins. Það kann út af fyrir sig vel að vera rétt og getur vel verið að menn séu þar úr hófi íhaldssamir. En það breytir ekki því að hér er um að ræða kerfi sem er kjarasamningur frá 1955 og það gengur ekki að setja inn í blóra við verkalýðshreyfinguna ákvæði af þessu tagi sem hrinda úthlutunarkerfi verkalýðshreyfingarinnar eins og það leggur sig. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. félmrh.: Er ekki hugsanlegt að ná samkomulagi um að við þessa grein bætist orðin ,,að fengnu samþykki stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs`` þannig að setningin orðist svo, með leyfi forseta: ,,Ráðherra getur með reglugerð ákveðið

að sameina úthlutunarnefndir tveggja eða fleiri félaga eða félagasambanda að fengnu samþykki stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.`` Ég tel að það væri eðlilegt að halda svona á málum, m.a. með hliðsjón af því að mér er kunnugt um að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs var ekki spurð um eitt eða neitt áður en þetta frv. var lagt fram. Ég hafði samband við einn stjórnarmann í Atvinnuleysistryggingasjóði einn daginn sem þetta frv. var lagt fram hér í þinginu. Hann hafði aldrei séð frv. eða drög að því og stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur að því er ég best veit ekki fengið tækifæri til þess að fjalla um málið. Og ég harma það að svo er að hlutunum staðið. En ég teldi að það mundi vera mjög til bóta ef í 17. gr. yrði sett inn það ákvæði að þarna þyrfti að fá samþykki stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs líka og mér finnst út af fyrir sig eðlilegt að ráðherrann og stjórnin hafi með þetta mál að gera í sameiningu.
    Annað atriði sem ég ætla að gagnrýna sérstaklega varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð er í brtt. meiri hlutans sem birtist á þskj. 446. Þar segir, virðulegi forseti: ,,Á árinu 1994 skal einn fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga taka sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs.``
    Getur þetta verið rétt? Hafa aðilar að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs samþykkt það að taka inn fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga? Hefur hæstv. ráðherra rætt þessi mál eitthvað við þá aðila sem eiga menn í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, Alþýðusamband Íslands og slíka aðila? Ég sé hér í gögnum frá minni hluta efh.- og viðskn. að Alþýðusamband Íslands virðist una breytingunum á Atvinnuleysistryggingasjóði sem hér eru lagðar til. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að þar leggist heldur lítið fyrir Alþýðusambandið en látum það vera. En þá bæti ég við: Hefur Alþýðusambandið samþykkt það að taka inn í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs mann frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, aukamann inn í þessa stjórn? Vegna þess að sú breytingartillaga er til orðin eftir að Alþýðusamband Íslands var kallað til viðræðna við hv. efh.- og viðskn. þannig að ég fullyrði að Alþýðusamband Íslands getur tæplega hafa fjallað um þetta mál á sínum fundi eða á sínum vettvangi. Þess vegna er það önnur spurning til hæstv. félmrh.: Hefur þessi breyting verið borin undir eignaraðila Atvinnuleysistryggingasjóðs sem eru verkalýðshreyfingin í landinu og atvinnurekendur?
    Ég bendi á, virðulegur forseti, að í þessum ákvæðum, 12.--19. gr. frv., er í raun og veru engin breyting á forsendum fjárlaga. Þess vegna eru engin rök fyrir því að afgreiða þessi ákvæði núna, það eru engin rök, engin fjárlagarök fyrir því. Engin. Það má halda því fram að það séu rök fyrir því að afgreiða 20. gr. en 12.--19. gr., það er alger óþarfi. Og ég spyr þá hæstv. félmrh. að lokum: Væri hún til í það að taka umræðu bak jólum um 12.--19. gr. þannig að þessu máli verði frestað fyrir utan 20. gr. sem er sú eina sem hangir á fjárlögunum sem slíkum? Það er mín þriðja spurning til hæstv. félmrh. sem mér þætti vænt um að hún svaraði.
    Loks varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð. Lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð var breytt á síðasta þingi. Það átti að vera til bóta fyrir einyrkja og slíka aðila og hefur sjálfsagt verið það. Menn hafa verið að gefa út reglugerðir um atvinnuleysistryggingar og verið að framkvæma þessi nýju lög. Þá skiptir það engum togum að það er ýtt út úr Atvinnuleysistryggingasjóði aðilum sem hafa átt þar rétt á bótum á undanförnum árum aftur og aftur og aftur. Ég nefni tvo hópa. Annars vegar er um að ræða vörubílstjóra sem er geysistór hópur manna, ekki síst hér á Reykjavíkursvæðinu. Þessi hópur hefur oft verið atvinnulaus langtímum saman yfir veturinn en hefur haft vinnu yfir sumarið og þeir hafa lagt bílnum að vetrinum til að þurfa ekki að borga af honum skatta. En hvað gerist nú? Hjá Atvinnuleysistryggingasjóði er sagt við þessa atvinnulausu vörubifreiðastjóra: Þið fáið ekki atvinnuleysisbætur nema þið seljið vörubílinn. Þannig að þess er í raun og veru krafist að til þess að þeir fái atvinnuleysisbætur losi þeir sig við atvinnutækið sem þeir kunna að vinna með. Ég vil spyrja hæstv. félmrh., sem fer með þessi mál frá næstu áramótum, hvort hún telji það eðlilegt að heimta það af þessum vörubílstjórum að þeir selji vörubílana til að þeir geti fengið atvinnuleysisbætur. Þannig hefur verið þrengt að þessu fólki frá því sem það var áður því þessir vörubílstjórar t.d. hér á þessu svæði sem ég þekki til hafa fengið bætur þangað til núna, þá er þeim hent út úr kerfinu. Er þetta í samræmi við vilja ríkisstjórnarinnar ef hún hefur einhvern vilja í þessu máli? Hún hlýtur að hafa það. Það er a.m.k. meiningin að hún hafi það.
    Hinn hópurinn sem hefur verið hent út eru trillusjómenn. Þeir hafa auðvitað lent þannig í því að þeir geta ekki aflað sér lífsviðurværis á sjó og þá hafa þeir nælt sér í atvinnuleysisbætur stundum þarna á milli. Nú er sagt við trillusjómenn: Þið fáið engar atvinnuleysisbætur nema þið seljið trilluna. Þið seljið atvinnutækið þá getið þið fengið atvinnuleysisbætur. Þetta er auðvitað ómögulegt, hæstv. ráðherra, þetta er svo vitlaust eins og allir sjá. Þannig að ég vil biðja hæstv. félmrh. að taka á þessu máli varðandi þá hópa sem ég hef nefnt sem eru atvinnubílstjórarnir, vörubílstjórarnir annars vegar og trillusjómennirnir hins vegar og það getur vel verið að það séu fleiri sem þarna eiga hlut að máli. Ég fullyrði reyndar, hæstv. forseti, að þetta er ekki í samræmi við anda laganna. Þetta er í ósamræmi við anda laganna. Þessi reglugerð stenst ekki í raun og veru ef menn skoða hana vel vegna þess að þegar við vorum að breyta atvinnuleysistryggingasjóðslögunum hér á síðasta þingi þá var tilgangurinn sá að koma til móts m.a. við einyrkjaatvinnurekendur. Þannig að hér er verið að þrengja lögin og framkvæmd þeirra langt umfram þann anda sem var á bak við samþykkt laganna á sínum tíma.
    Þriðja atriðið sem ég ætlaði svo að nefna hér, þá hef ég farið hér yfir atvinnuleysistryggingarnar, það er 11. gr. þessa frv. Það er 11. gr. þessa frv. og er breyting á almannatryggingalögum og þar stendur, með leyfi forseta:

    ,,Þó er heimilt að ákveða í reglugerð að sjúkratryggður taki þátt í kostnaði vegna dvalarinnar.`` Nú sé ég að meiri hlutinn er búinn að breyta þessu og í nál. á þskj. 445 stendur eftirfarandi:
    ,,Þá er lögð til sú breyting á 11. gr. að þátttaka hins sjúkratryggða í kostnaði sé afmörkuð við dvöl á sérhæfðum meðferðarstofnunum. Með þessu er reynt að gera ákvæðið skýrara hvað það varðar að bráðameðferð drykkjusjúklinga, t.d. á geðdeild Landspítala, falli ekki þar undir.``
    Þá vil ég í fyrsta lagi segja að þetta er úr af fyrir sig framför. Ég hafði að vísu ekki haft hugmyndaflug til þess að láta mér detta í hug að þetta áfengismeðferðargjald yrði tekið vegna bráðameðferðar drykkjusjúklinga, t.d. á geðdeild Landspítala eða á Vogi hjá SÁÁ. Hins vegar verð ég að segja að orðalagsbreytingin sem tillaga er gerð um af hálfu nefndarinnar dugir mér ekki. Því hér stendur, með leyfi forseta:
    ,,Þó er heimilt að ákveða í reglugerð að sjúkratryggður taki þátt í kostnaði vegna dvalar á sérhæfðum meðferðarstofnunum.``
    Nú verð ég að viðurkenna það, hæstv. forseti, að ég er kannski dálítið farinn að ryðga í því hvað eru kallaðar nákvæmlega sérhæfðar meðferðarstofnanir og veit að hér er á eftir mér á mælendaskrá maður eins og hv. 11. þm. Reykv. sem kann þetta sjálfsagt betur en ég í seinni tíð. ( Gripið fram í: Hefur hann meiri reynslu?) Hv. þm. hefur starfað í heilbrrn. þannig að hann þekkir þar nokkuð til. Ég verð hins vegar að segja alveg eins og er, virðulegur forseti, að ég tel að við séum hér á nokkuð hættulegri braut. Ég tel að það sé verið að opna fyrir sjúklingaskatta. Það sé hér á ferðinni stórkostlega alvarlegt prinsippmál þar sem menn verði því aðeins teknir inn á meðferðarstofnanir að þeir hafi efni á að borga. Það gengur ekki það stríðir gegn öllum félagslegum sjónarmiðum, öllum sjónarmiðum jafnaðarstefnunnar. Það stríðir líka gegn heilbrigðissjónarmiðum. Þess vegna skora ég á ríkisstjórnina og þá sem að henni standa hér að beita sér fyrir því að 11. gr. í bandorminum, um innheimtu á þessu sérstaka áfengismeðferðargjaldi, verði felld út.
    Mér hefur borist til eyrna, hæstv. forseti, að það standi til af hv. fjárln. að leggja til einhverjar breytingar á framlögum til SÁÁ, m.a. með hliðsjón af þeirri brtt. sem hér er uppi. Það þekki ég ekki í smáatriðum en mér hefur borist það til eyrna. Ég teldi að það kæmi til greina að leysa þetta mál frá sjónarmiði ríkissjóðs þannig núna að SÁÁ fengi a.m.k. hluta af þeirri upphæð sem hér er á ferðinni, alla vega það sem gert er ráð fyrir við 3. umr. fjárlaga og e.t.v. eitthvað meira til, en að Ríkisspítalarnir verði látnir bera þennan vanda án þess að það séu gerðar sérstakar ráðstafanir til að hækka framlög til þeirra og greinin þannig felld niður, greinin þannig gerð óþörf. Ég sé að hér er í salnum hv. 3. þm. Vestf., sem er í fjárln., og kannski fleiri fjárlaganefndarmenn og hv. 1. þm. Norðurl. e., að ég vil benda á þennan möguleika. Að greinin sé sem sagt einfaldlega gerð óþörf með því að veita einhverja fjármuni á móti niðurfellingu þessa gjalds til SÁÁ en láta Ríkisspítalana bera þann hluta gjaldsins sem átti að ganga til þeirra.
    Þannig tel ég að það væri mjög mikið unnið, bæði almennt séð og einnig að því er varðar hin almennu sjónarmið í heilbrigðismálum, en líka með hliðsjón af því að það þrengist nú mjög um þann tíma sem við höfum í þessari stofnun til að ljúka meðferð mála fyrir jól og ég er sannfærður um að sú niðurstaða að fella út 11. gr. frv. mundi greiða fyrir eðlilegri lendingu mála hér í þinginu núna á næstu klukkutímum og sólarhringum.
    Ég hef hér, virðulegur forseti, lagt fyrir hæstv. umhvrh. og hæstv. félmrh. nokkrar spurningar og ítreka jafnframt áskorun mína um það að 11. gr. um áfengismeðferðargjaldið verði tekin út. Burt með hana.