Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

69. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 16:03:32 (3081)


[16:03]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var beint til mín fjórum spurningum af hv. þm. Svarvari Gestssyni. Fyrst varðandi úthlutunarnefndirnar og um að það verði bætt inn ákvæðum um að samráð eða samþykki Atvinnuleysistryggingasjóðs þurfi til til að sameina nefndirnar. Ég tel það nú liggja í hlutarins eðli að slíkt samráð verði haft en ef það næst samstaða um það á milli 2. og 3. umr. að skoða það mál sérstaklega þá mun ekki standa á mér í því máli ef menn geta náð saman um einhvern texta í því skyni.
    Varðandi það að bæta inn fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í stjórn sjóðsins tímabundið eða í eitt ár þá þykir mér það ekki óeðlilegt vegna þess að þarna er ákveðið fjármagn sem sveitarfélögin eru að setja inn í sjóðinn. Það er ljóst að umfang þess mun aukast verulega á næsta ári því um er að ræða að settar verði 1.200 millj. kr. í þessu skyni þannig að mér þykir ekki óeðlilegt að það sé með þessum hætti.
    Um það hvort þessi breyting hafi verið borin undir ASÍ þá er mér ekki kunnugt hvort svo er eða ekki. En ég ítreka það sem fram kom reyndar í máli þingmannsins að ASÍ unir þeim breytingum sem hér eru lagðar fram. Því vil ég svara til varðandi það að fresta breytingunum sem hér eru lagðar til nema 20. gr. að það ætti reyndar að vera hæstv. heilbrrh. að svara því þar sem þessi málaflokkur er enn í hans umsjá. En ég sé ekkert sérstakt tilefni til þess.
    Varðandi málefni vörubílstjóra þá tel ég fulla ástæðu til að skoða þeirra mál og hef reyndar gert það í ráðuneytinu vegna þess að fulltrúar vörubílsjóra hafa komið á minn fund og þetta mál er í athugun í ráðuneytinu og ég tel full efni til að skoða sérstaklega þeirra mál.