Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

69. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 16:25:11 (3090)


[16:25]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umfjöllunar í 2. umr. um ráðstafanir í ríkisfjármálum hefur nú farið í gegnum hendurnar á hv. efh.- og viðskn. og eins og fram hefur komið í ræðum fyrri ræðumanna í þessum stóli í dag þá fór þetta frv. til umsagnar hv. heilbr.- og trn.
    Hv. heilbr.- og trn. sendi frá sér bréf til formanns efh.- og viðskn. þar sem hún lét í ljós álit sitt á einstökum þáttum frv. og ætla ég örlítið hér á eftir að gera grein fyrir því. Það er ljóst að brtt. sem meiri hluti efh.- og viðskn. flytur hér, þar sem gert er ráð fyrir að 10. gr. frv. falli brott, tengdist tekjutengingu ekkjulífeyris og í nál. meiri hlutans er þetta rökstutt með því að með nýsamþykktum lögum um félagslega aðstoð hafi fengist heimildir til tekjutengingar. Þetta er alveg hárrétt og er að nokkru leyti alvarlegt, enda gerði stjórnarandstaðan miklar athugasemdir við þetta atriði og flutti brtt. í þinginu einmitt við þetta atriði, að fá inn í lög um félagslega aðstoð svo víðtæka heimild til tekjutengingar eins og þar fékkst. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. nýsamþykktra laga. Þar segir: ,,Þar er heimilt að tengja greiðslu bótanna við tekjur.`` Með þessu fæst mjög víðtæk heimild til tekjutengingar á öllum bótaflokkum er fram koma í nýsamþykktum lögum um félagslega aðstoð.
    Hvað þýðir þetta í raun og veru? Þetta þýðir það að með reglugerð hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. fengið heimildir til þess að tekjutengja alla bótaflokka nýsamþykktra laga um félagslega aðstoð er áður voru inni í almannatryggingalögunum.
    Nú var það svo að meðan þessir bótaflokkar voru inni í almannatryggingalöggjöfinni, þá var það

alveg klárt hver var skerðingarprósentan sem bæturnar áttu að skerðast gagnvart tekjunum. Með þessu ákvæði, eins og það er núna komið inn, er það ekki tekið fram hver skerðingarprósentan má vera. Þess vegna má alveg hugsa sér að hægt verði að setja reglugerð á grundvelli þessara laga um að fyrir hverja einustu krónu, sem viðkomandi einstaklingur ynni sér inn og hefur bótarétt, mundu bæturnar skerðast samsvarandi. Ég trúi því auðvitað ekki að það verði niðurstaðan vegna þess að yfirleitt var það svo meðan þessir bótaflokkar voru inni í almannatryggingalöggjöfinni, að þeir skertust yfirleitt um 40% þegar tekjur voru komnar umfram ákveðið hámark. En ég tek undir það með hv. 9. þm. Reykv. sem talaði hér fyrr í umræðunni að þetta er auðvitað lýsandi um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og þeirra ráðgjafa er hún hefur í þessu máli. Og hér kemur í þingsalinn hv. 5. þm. Austurl., formaður hv. heilbr.- og trn., við ræddum mjög oft í þeirri ágætu nefnd að þessar víðtæku heimildir væru að mörgu leyti stórhættulegar. --- En vinnubrögðin segja auðvitað sína sögu því að í upphafi þings er þetta frv. um félagslega aðstoð, sem nú er orðið að lögum, lagt fyrir með þessu heimildarákvæði og síðan í bandorminum sem kemur inn í þingið svona rétt fyrir jólin og er verið að samþykkja með hraði í gegnum þingið. Þar er þetta ákvæði einnig inni og síðan kemst nefnd að því að þetta sé óþarft vegna þess að nú sé nýbúið að setja lög í þinginu sem heimili þetta. ( GunnS: Þetta er gott.) Nei, það er ekki gott, hv. formaður heilbr.- og trn., af þeirri ástæðu, sem ég var að lýsa áður en hv. þm. gekk í salinn, að eins og lagagreinin er orðuð og stjórnarandstaðan gerði ítrekaðar athugasemdir við í nefndinni eru skerðingarákvæðin mjög rúm og í raun og veru, ef menn vildu, væri hægt að skerða þarna krónu á móti krónu. En nú hefur þetta verið tekið út úr því frv. sem hér er til umfjöllunar.
    Í 11. gr. þessa frv. er verið að opna fyrir almenna gjaldtökuheimild á sjúklinga sem leggjast inn á sjúkrastofnanir jafnvel þótt tilgreint sé eins og núna er í brtt. frá hv. efh.- og viðskn. að þessi þáttur eigi eingöngu við um sérhæfðar meðferðarstofnanir. Staðreyndin er bara sú að það er útilokað að gera greinarmun á því hvað er sérhæfð meðferðarstofnun og hvað er almenn sjúkrastofnun því að á öllum sjúkrahúsum er um sérhæfðar meðferðardeildir að ræða. Á þessi gjaldtaka þá ekki að gilda um það? Ef svo er ekki, þá er með þessu frv. verið að gera upp á milli þeirra stofnana sem nú sjá um áfengismeðferðina í landinu, Ríkisspítalana og SÁÁ, vegna þess að segja má að Ríkisspítalarnir sem stofnun eru ekki sérhæfð áfengismeðferðarstofnun að öðru leyti en því að geðdeild þeirrar stofnunar er sérhæfð í áfengismeðferð. Því spyr ég --- en nú er því miður enginn hér sem getur svarað fyrir ríkisstjórnina í þessum efnum þó svo ég treysti reyndar hv. formanni heilbr.- og trn. best í þeim efnum og ætla því að spyrja þann ágæta þingmann, hv. þm. Gunnlaug Stefánsson: Er það svo að þetta eigi einvörðungu að gilda um SÁÁ en ekki Ríkisspítalana?
    Ef þetta á að gilda um Ríkisspítalana og SÁÁ, þá er náttúrlega sá texti sem er í frv. og brtt. algerlega merkingarlaus vegna þess að þá er bara að stíga næsta skref, þ.e. að skilgreina endurhæfingardeild Ríkisspítalanna sem sérhæfða meðferðarstofnun og láta þá sem þar eru greiða fyrir þjónustuna sem þar er veitt. Þegar að þessu kemur, hv. formaður, þá fer það svo að hver deildin á fætur annarri lendir í því að af þeim sjúklingum sem þar eru verður tekið gjald. Þá er komið að þessu sem var sigur Alþfl. á síðasta flokksþingi eða sigur félagshyggjuarmsins í Alþfl. á síðasta flokksþingi. (Umhvrh.: Það er bara Gunnlaugur.) Er það bara Gunnlaugur einn, hæstv. umhvrh. Össur Skarphéðinsson? Er það svo að hv. 5. þm. Austurl. sé orðinn eini þingmaður í Alþfl. sem er í félagshyggjuarminum? (Umhvrh.: Hann er í dyggri forustu.)
     (Forseti (VS) : Hæstv. umhvrh. er beðinn að setja sig fremur á mælendaskrá.)
    En þetta var talið eitt af því stærsta sem hefði komið fram á flokksþingi Alþfl. fyrir tæpum tveimur árum síðan ( Gripið fram í: . . .  fékk svo góðan félagsskap fyrir austan.) að það hefði verið ákveðið að ekki kæmi til greina að leggja skatt á þá sjúklinga er legðust inn á sjúkrahús. En hér er verið að stíga fyrsta skrefið í þá átt. Og öll félög, öll læknafélögin og sérgreinafélögin á því sviði, vara við því að þetta skref sé stigið.
    Ég hef látið gera útreikninga á því hvað þetta muni þýða fyrir fólk. Það er bara staðreynd og það kom mjög skýrt fram í máli þeirra sérfræðinga sem komu í heimsókn í hv. heilbr.- og trn. að þeir töldu að það væri útilokað að skilgreina nákvæmlega t.d. það fólk sem kemur inn á geðdeild Ríkisspítalanna hvort sjúkdómurinn stafar af því að viðkomandi er sjúkur sem alkóhólisti eða haldinn jafnvel einhverjum öðrum sjúkdómi, hvort sem það eru andlegir eða líkamlegir kvillar. Þá er spurningin bara í hvaða rúmi viðkomandi lendir, hvort gjaldmælir verður við það rúm eða ekki. Það verður því algerlega í hendi þess sem er á vakt hverju sinni að skilgreina hvar viðkomandi einstaklingur lendir.
    Sé það hins vegar svo að þessi gjaldtaka eigi einvörðungu að snúa að SÁÁ mun þetta þýða í stórum dráttum, svo ég styðjist bara við þær forsendur sem sérfræðingar gáfu okkur upp í hv. heilbr.- og trn. að reynsla þeirra af innheimtu göngudeildargjalda á geðdeild Ríkisspítalanna fyrir áfengissjúka er sú að innheimtuhlutfallið er ekki hærra en 30% af greiðslunum. Þetta þýðir að ef leggja á 25 millj. kr. á SÁÁ á næsta ári en þar eru 2.600 innlagnir og aðeins þriðjungur sjúklinganna greiðir gjaldið, þurfa þeir að greiða 30 þús. kr. fyrir innlögnina. ( Gripið fram í: Til að ná hvaða upphæð?) Til þess að SÁÁ geti staðið undir því að reka stofnanirnar með því að áætla þeim 25 millj. kr. í sértekjur. Þeir einstaklingar sem geta greitt gjaldið og hægt er að ná í segir reynslan okkur að þurfi að greiða 30 þús kr.
    Finnst hæstv. umhvrh. og hv. þm. Alþfl. --- Jafnaðarmannaflokks Íslands það ekki býsna hátt innlagnargjald á sjúkrahús? Ekki síst í ljósi þess ef menn hafa það í huga að þetta var það stóra sem félagshyggjuarmur flokksins náði fram á flokksþinginu að kæmi alls ekki til greina. Svo þegar foringi þess hóps er mættur og tekinn við sem hæstv. heilbr.- og trmrh., þá er þetta hans fyrsta verk í þeim fjárlögum er hæstv. ráðherra leggur fyrir Alþingi.
    Í 12.--20. gr. frv. er fjallað um Atvinnuleysistryggingasjóð. Hv. þm. Svavar Gestsson fór rækilega í þau vandamál er snúa að þeim aðilum er nú hafa rétt á bótum frá sjóðnum í dag. Á fund hv. heilbr.- og trn. komu fulltrúar frá ASÍ og fulltrúar frá VSÍ. Fyrir fundinn hafði þessum samtökum verið sent frv. eins og það lá þá fyrir. Það var lítið að græða á umræðunni er þar fór fram vegna þess að flest svörin voru á einn veg: Um þetta hefur allt saman verið samið. Það eru engar athugasemdir við þetta. Við erum búnir að lofa ríkisstjórninni því að þetta megi vera með þessum hætti.
    Það er nefnilega nákvæmlega sama staða og er uppi hérna núna. Það er ekki hægt að gera neinar breytingar á skattamálum. Það er verið að fara út í óskynsamlegar aðgerðir í þeim efnum en af því að ASÍ-forustan segir: Við viljum hafa þetta með þessum hætti, þá þorir ríkisstjórnin ekki. Þetta er því orðin ótrúlega samtrygging þarna á milli. Annars vegar segir ríkisstjórnin: Við viljum hafa þetta svona og ASÍ segir: Það er gott. Við skulum hafa þetta með þessum hætti. Síðan koma þeir frá ASÍ og segja: Við viljum hafa þetta svona. Þá segja þeir í ríkisstjórninni: Já. Þetta er fínt. Við verðum að hafa þetta svona.
    En á hverjum skyldi þetta allt saman bitna? Jú. Á þeim sem Alþýðusamband Íslands á að vera að berjst fyrir, fólkinu sem býr við lægstu launin og erfiðustu aðstæðurnar. En í samtryggingaráformum Alþýðusambandsins við ríkisstjórnina þá er þetta látið bitna á þessum hópi.
    Í brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. er gert ráð fyrir því að á næsta ári, árinu 1994, muni einn fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga sitja í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þegar frv. lá fyrir hv. heilbr.- og trn. var ekkert um þessa tillögu vitað. Aftur á móti lagði sá fulltrúi sem mættur var frá Vinnuveitendasambandi Íslands þunga áherslu á það að eðlilegt væri, þar sem vinnuveitendur væru nú að fara að greiða enn stærri hluta af framlagi til Atvinnuleysistryggingasjóðs en áður, fengju þeir einn fulltrúa til viðbótar í stjórn sjóðsins. Þessum skilaboðum kom minni hluti heilbr.- og trn. til skila til hv. efh.- og viðskn. Við því hefur ekki verið orðið samkvæmt því sem fram kemur í tillögu til breytinga á frv. frá meiri hluta efh.- og viðskn.
    Fulltrúar stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs mættu til fundar við hv. heilbr.- og trn. Í máli þeirra kom fram að hvað eftir annað á undanförnum árum síðan þessi ríkisstjórn tók við hafa fjárveitingar sjóðsins í flestum tilfellum ekki dugað fyrir þeim útgjöldum sem gert er ráð fyrir að sjóðurinn greiði. Það er ríkisábyrgð á sjóðnum. Aukafjárveitingar hafa verið tryggðar í fjáraukalögum en yfirleitt ekki nóg til þess að standa undir útgjöldunum. Það hefur því gengið verulega á eignir sjóðsins síðan árið 1991.
    Það sem mér fannst þó alvarlegast var að þessir ágætu fulltrúar stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem þarna mættu, gátu ekki upplýst hvernig áætlað væri að staða sjóðsins yrði á árinu 1994 ef gengið væri út frá þeirri spá sem Þjóðhagsstofnun hefur sent frá sér um 5% atvinnuleysi. Einstakir nefndarmenn gengu eftir því á milli funda í heilbr.- og trn. að upplýsingar fengjust um stöðu sjóðsins. Það var ekki hægt. Það er þess vegna óvíst og algerlega útilokað að svara því hver staða Atvinnuleysistryggingasjóðs muni verða miðað við þær fjárveitingar sem sjóðurinn hefur og samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir til fjárlaga og miðað við spá Þjóðhagsstofnunar um 5% atvinnuleysi á árinu 1994. Það verður miklu meira og er raunverulega bara spá um 5% atvinnuleysi að meðaltali allt árið sem verða mun meira en sú spá gerir ráð fyrir vegna þess að staðreyndin er sú að það er á bilinu 6--7% í dag.
    Í 13.--19. gr. frv. eru gerðar ýmsar breytingar á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð. Ýmist eru þær breytingar til hækkunar eða lækkunar. Það er erfitt að gera sér nákvæmlega grein fyrir því hvor vogarskálin er þyngri í þeim efnum.
    Aftur á móti er tilgangur þeirra sem hafa lagt frv. fyrir að spara fjármuni með 16. gr. þar sem talið er að um misnotkun á bótagreiðslum sjóðsins sé að ræða. Eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði í framsöguræðu sinni með áliti minni hluta efh.- og viðskn. hafa fulltrúar einstakra fyrirtækja haft samband við nefndina og varað við þeim breytingum sem þar er lagðar til. Einstök fyrirtæki hafa nýtt sér þann möguleika sem lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð gefa með því að fá greiddar atvinnuleysisbætur einn og einn dag í viku eða mánuði fyrir það fólk sem er í vinnu hjá fyrirtækjunum. Gott dæmi um þetta er Slippstöðin á Akureyri. Þar hefur verið komið í veg fyrir það með slíkum aðgerðum að kannski 15--20 mönnum hafi verið sagt upp. Þess í stað ef um verkefnaskort hefur verið að ræða hafa starfsmenn fyrirtækisins, mismunandi margir þó, komist tímabundið á atvinnuleysisbætur en aftur í vinnu hjá fyrirtækinu þegar verkefni hafa aukist. Það er mat stjórnenda sjóðsins, heilbrrn. og ég býst við ríkisstjórnarinnar í heild, að þetta ákvæði hafi verið misnotað. A.m.k. er í það vitnað þegar fjallað er um 16. gr. frv. því þar segir, með leyfi forseta: ,,Í ljós hefur komið veruleg misnotkun þessa ákvæðis og er fyrir þær sakir lagt til að ákvæðið falli brott.``
    Það væri fróðlegt að fá svör við því en þau fást sjálfsagt ekki við þessa umræðu þar sem hæstv. heilbr.- og trmrh. er ekki til svara um hvaða fyrirtæki þetta séu sem þannig hafi misnotað þá aðstöðu sem þeim hefur verið sköpuð af hálfu stjórnar sjóðsins og hvaða refsing liggi við því ef upp kemst að um slíka misnotkun hafi verið að ræða.
    Hv. 9. þm. Reykv. Svavar Gestsson kom inn á að það væru einkum tvær stéttir í þessu þjóðfélagi sem ekki fengju bætur frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Á síðasta þingi var gerð veruleg breyting á Atvinnuleysistryggingasjóði sem miðaði í þá átt að frá 1. okt. í ár hefðu sjálfstæðir atvinnurekendur möguleika á bótum frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Það var alveg klárt í umræðunni í þinginu og í umræðunni í hv. heilbr.- og trn. og eftir því var sérstaklega gengið hvaða áhrif þessi breyting hefði fyrir vörubílstjóra og trillusjómenn. Því var svarað til af þeim fulltrúum er mættu fyrir hönd stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs á þeim tíma að það stæði ekki til að gera neinar breytingar á stöðu vörubílstjóra. En vörubílstjórarnir hafa í gegnum árin fengið atvinnuleysisbætur á þeim tíma er ekkert hefur verið að gera fyrir atvinnutækin.
    Nú standa þeir hins vegar frammi fyrir því að í bréfi frá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs eru settar svo þröngar skorður fyrir því hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla til þess að geta fengið atvinnuleysisbætur að það blasir ekkert annað við þessum mönnum en að þurfa að selja atvinnutækið.
    Gagnvart trillusjómönnunum er þetta miklu alvarlegra einfaldlega vegna þess að viðkomandi sjómaður má ekki hafa farið á sjó nema í sárafáa daga, hvort það var vikutími eða svo, á fiskveiðiárinu og þegar hann hefði lagt trillunni og fengið atvinnuleysisbætur, þá gæti hann ekki aftur farið á sjó á því fiskveiðiári nema endurgreiða bæturnar. Það sjá allir að þegar slíkar reglur eru settar, þá er ekki framkvæmanlegt fyrir menn að stunda neina atvinnustarfsemi við slíkar kringumstæður vegna þess að það er verið að ýta mönnum út í það að losa sig við atvinnutækið í þessu tilfelli.
    Þarna þarf því að gera verulega bót á. Og ég fagna yfirlýsingu um þetta efni frá hæstv. félmrh. en frá og með næstu áramótum mun Atvinnuleysistryggingasjóður heyra undir félmrn. þannig að hæstv. félmrh. er í góðri aðstöðu til þess að gera þarna breytingar á. Trillusjómenn höfðu enga möguleika fyrir þessa breytingu að fá atvinnuleysisbætur, en í raun og veru er verið að skerða aðstæður vörubílstjóranna mjög mikið frá því sem áður var.
    Í 20. gr. frv. er fjallað áfram um Atvinnuleysistryggingasjóð og það samkomulag sem gert hefur verið milli ríkisstjórnarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga um að á árinu 1994 skuli sveitarfélögin enn auka framlag sitt til Atvinnuleysistryggingasjóðs úr 500 millj. kr. í 600 millj. kr. Samkomulag er orðið um þetta milli ríkisstjórnarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga. Af þeim 500 millj. sem sveitarfélögin greiddu í sjóðinn af framfærslustyrk sveitarfélaganna til ríkissjóðs, sem þetta er í raun og veru og var 0,5 milljarðar á þessu ári, hafa á þessu ári ekki enn verið greiddar út nema 300 millj. Eftir munu því standa í ríkissjóði um áramótin 200 millj. kr. sem er raunverulega beinn framfærslustyrkur sveitarfélaganna við ríkissjóð. Þrátt fyrir þetta á enn að auka greiðslurnar frá sveitarfélögunum til ríkisins á þessu ári.
    Í sjálfu sér getur það verið skynsamlegt og væri gott ef það fyrirkomulag gengi upp að til að losna við að greiða fólki atvinnuleysisbætur væri komið af stað einhverjum átaksverkefnum sem sneru að nýsköpun í atvinnulífinu, tryggðu störf til framtíðar þannig að um varanlega atvinnu fyrir viðkomandi yrði að ræða. En þegar maður lítur yfir þau átaksverkefni sem styrkt hafa verið af hálfu Atvinnuleysistryggingasjóðs á árinu 1993, þá er maður ekki alveg sannfærður um að þarna sé um skynsamlega ráðstöfun að ræða. A.m.k hefði ekki þurft að hafa alla þessa miðstýringu og þennan kostnaðarsama tilflutning á peningum frá sveitarfélögunum yfir til ríkisins sem síðan eru aftur sendir frá ríkinu til sveitarfélaganna til þess að standa undir þessum merkilegu verkefnum eða hitt þó heldur á mörgum stöðum sem þarna er um að ræða.
    Á fundi okkar þingmanna Reykjavíkur og borgarstjórnar Reykjavíkur var lagður fyrir okkur listi yfir þau átaksverkefni sem styrkt höfðu verið í Reykjavík. Þegar maður lítur yfir hann er ekki að finna að mínu viti neitt það átaksverkefni sem mun skila störfum þegar til framtíðar er litið eða tryggja einhver störf í framtíðinni. Síður en svo. Öll þessi verkefni hefði einfaldlega mátt styrkja beint úr borgarsjóði Reykjavíkur. Til hvers er verið að taka 200 millj. kr. úr borgarsjóði og setja í Atvinnuleysistryggingasjóð, senda síðan 50 millj. kr. af því aftur út úr Atvinnuleysistryggingasjóði til borgarstjórnar og segja við borgarstjórn: Svona getið þið ráðstafað þessu. Þarna er um ekkert annað en bullandi miðstýringu að ræða og verið að flytja til fjármuni algerlega að ástæðulausu að öðru leyti en því að Reykjavíkurborg er skattlögð beint um 150 millj. kr. vegna þess að Reykjavíkurborg mun ekki fá nema um 50 millj. kr. til að standa undir þessum átaksverkefnum en þurfti að borga 200 millj. í sjóðinn. Þegar maður lítur yfir þessi verk, þá hefði verið miklu betra að borga beint úr borgarsjóði Reykjavíkur til þessara átaksverkefna heldur en gera þetta með þessum hætti. Skal ég hér minnast á nokkur.
    Nýlistasafnið. Styrkur upp á 14.976 kr. Hreingerningar í skólum 835.709 kr. Skólabókasöfn 207.487 kr. Nýlistasafnið 54.912 kr. Breiðholtskirkja 232.077 kr. Gangstéttarfláar 520.345 kr. Hreingerningar í skólum aftur 631.006 kr.
    Þegar menn líta yfir þennan lista, sem ég tók nokkur dæmi af, þá hljóta þeir að sjá að mikið af þessum verkum var bara einfaldlega borgarinnar að sjá um eins og hreingerningar í skólum. Að vera að taka fyrst peninga út úr borgarsjóði, senda þá upp í Atvinnuleysistryggingasjóð, senda síðan umsókn frá borginni aftur til Atvinnuleysistryggingasjóðs til að fá þessa peninga aftur til baka. Þetta er náttúrlega alveg ótrúlegt rugl en er reyndar algerlega lýsandi fyrir vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar.
    Tilgangurinn með þessu frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994 er fyrst og fremst sá að tryggja grundvöllinn í fjárlagafrv., tryggja að grundvöllurinn í frv. til fjárlaga, sem verður væntanlega samþykkt hér á hinu háa Alþingi á næstu klukkustundum eða næstu dögum a.m.k., stæðist.
    Ég hef örlítið fjallað um þá þætti er snúa að Atvinnuleysistryggingasjóðnum og áfengismeðferðinni. Samkvæmt fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að spara á bilinu 120--200 millj. kr. í atvinnuleysistryggingunum. Ef menn líta á umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Með ákvæðum 13.--19. gr. [þ.e. um Atvinnuleysistryggingasjóð] eru gerðar nokkrar breytingar á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð. Samanlagt hafa þær ekki áhrif á heildarútgjöld sjóðsins þar sem áhrif til hækkunar og lækkunar standast á. Til hækkunar útgjalda eru ákvæði 15. gr. um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna af elli- og örorkulífeyrisbótum. Til lækkunar eru ákvæði 13. gr. um að heimilt sé að lækka atvinnuleysisbætur um tekjur einstaklings þrátt fyrir að þær séu undir hámarksbótum og ákvæði í 16. gr. Í 14. gr. er aðeins um áréttingu á gildandi reglum að ræða og í 17. og 18. gr. er ráðherra veitt heimild til að sameina úthlutunarnefndir og til að ákveða þóknun til stéttarfélaga vegna úthlutunar atvinuleysisbóta. Loks er í 19. gr. felld niður heimild sjóðsins til tiltekinna lánveitinga sem mun bæta stöðu sjóðsins.``
    Með öðrum orðum er ekkert í þessum lagabreytingum öllum saman, sem hér er verið að gera um Atvinnuleysistryggingasjóð, sem gera ráð fyrir að einhverjar krónur eigi að sparast. Það var þess vegna alveg óþarfi að flytja þetta mál, a.m.k. til að tryggja það að fjárlögin stæðust.
    Í öðru lagi er þetta frv. einnig flutt í þeim tilgangi, það snýr að 11. gr. frv., að tryggja að hægt væri að koma á gjaldtöku við áfengissjúklinga og þannig átti að spara tæpar 20 millj. kr. umfram það sem áður var búið að leggja á viðkomandi stofnanir. Niðurstaðan er sú að þeir sérfræðingar sem eiga að sjá um innheimtuna treysta sér ekki til þess. Þar mun því heldur ekkert sparast. Umræðan um þetta mál, bæði hér fyrr í þinginu, undirbúningur ráðuneytisins og vinnubrögðin af því öllu saman eru því algerlega til einskis.