Fjárlög 1994

70. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 21:31:02 (3102)


[21:31]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur farið ítarlega í ýmis atriði framhaldsnefndarálits minni hluta fjárln. við 3. umr. fjárlaga. Ég þarf ekki að endurtaka margt um þau vinnubrögð sem verið hafa. Þau voru til umræðu við 2. umr. málsins en við 3. umr. var að hefðbundnum hætti rætt um tekjuhlið, B-hluta stofnanir og 6. gr. ( EgJ: Og málþóf enn.) Varðandi útgjaldahliðina er það ljóst samkvæmt þeim ákvörðunum sem fjárln. hefur tekið að verið er að viða í nokkur myndarleg fjáraukalög að ári eða auknum hallarekstri sérstaklega með ákvörðunum í heilbrigðiskerfinu varðandi Ríkisspítalana og varðandi sjúkratryggingar eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. rakti mjög ítarlega í sinni ræðu.
    Tekjuhlið fjárlaga er einn aðalþátturinn við 3. umr. málsins og að venju var hún send til umsagnar efh.- og viðskn. og fylgir álit hennar með áliti meiri hlutans samkvæmt þingsköpum. Tekjuhliðin hvílir á grunni m.a. þess skattafrv. sem verið hefur til meðferðar í hv. efh.- og viðskn. Hv. varaformaður fjárln., 1. þm. Vesturl., orðaði það svo áðan að stjórnarandstaðan hafi þyrlað upp pólitísku moldviðri varðandi tekjuhliðina. Þar á hann vafalaust við þær brtt. sem hafa verið kynntar af 1. minni hluta efh.- og viðskn. og fjalla m.a. um eitt þrep í virðisaukaskatti og auknar barnabætur og vaxtabætur, tekjuskatt félaga, tryggingagjald, virðisauka á ferðaþjónustu og fólksflutninga, eignarskatt og vörugjald.
    Það hefur verið reiknað út af Þjóðhagsstofnun að þessi pakki, ef samþykktur yrði, mundi styrkja stöðu ríkissjóðs verulega. Ég held að það hafi verið það sem við fjárlaganefndarmenn, hvort sem það var meiri eða minni hluti, urðum varir við í okkar starfi að ekki veitti af. Ýmsum úti í þjóðfélaginu finnst það ekki skynsamlegt sem ríkisstjórnin er að gera um þessar mundir. Ég er með í höndunum eintak af Morgunblaðinu sunnudaginn 19. des. Það er nýkomið úr pressunni og var að koma inn um dyrnar áðan. Um þá tillögu sem ríkisstjórnin er að keyra í gegnum þingið á lokadögunum segir í fyrirsögn í leiðara: ,,Hvers konar stjórnarhættir eru þetta?`` --- Það er ekki stjórnarandstaðan sem setur svona fyrirsagnir heldur er þetta Morgunblaðið sem hefur talist vera hlynnt þessari ríkisstjórn. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Það er alveg ljóst að innan stjórnarflokkanna er engin raunveruleg samstaða um að fara þessa vitlausu leið. Í samtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum dögum sagði Vilhjálmur Egilsson, varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, að hann teldi aðrar leiðir betri en væri bundinn af samþykkt ríkisstjórnarinnar. Í grein í Morgunblaðinu í gær sagði Sighvatur Björgvinsson, viðskipta- og iðnaðarráðherra, m.a.: ,,Nær væri að allir tækju höndum saman um frekari vaxtalækkanir en að krefjast lækkunar virðisaukaskatts á matvæli sem bæði skilar lægri fjárhæð í vasa lágtekjufólks en lækkun vaxta auk þess sem tveggja þrepa virðisaukaskattur er nánast ávísun á aukin skattsvik.``
    Þótt hér hafi einungis verið vitnað til eins þingmanns Sjálfstæðisflokks og eins ráðherra Alþýðuflokks er alveg ljóst að innan stjórnarflokkanna er víðtæk andstaða við þessa leið. Samt verður hún farin. Þótt öll efnislög rök hnígi í aðra átt skal hún farin. --- Síðan segir: ,,Hvers konar stjórnarhættir eru þetta?``
    Það er svo sannarlega að Morgunblaðið tekur undir það sem hv. 1. þm. Vesturl. kallar pólitískt moldviðri vegna tekjuhliðar fjárlaga.
    Það kemur fram í áliti 1. minni hluta efh.- og viðskn. að með þessum ráðstöfunum sé hægt að styrkja stöðu ríkissjóðs um allt að 1 milljarði kr. og hefði svo sannarlega ekki veitt af því þessi fjárlög eru afgreidd með um 10 milljarða kr. halla. Ég vil enn minna á það að fjárlög fyrir ári voru afgreidd með 6,2 milljarða kr. halla og enda í 14 milljörðum a.m.k.
    Í orðum mínum við þessa umræðu vil ég koma örlítið að Lánasjóði ísl. námsmanna. Fjárveitingar til hans eru lækkaðar. Það hefur gjarnan verið látið í veðri vaka að það sé vegna þess að allt sé í fína lagi varðandi úthlutanir námslána og þennan rekstur allan. Hv. stjórnarliðar hafa viljað nokkuð loka augunum fyrir afleiðingum þess lánakerfis sem tekið var upp. Ég vil láta nægja að rekja nokkur raunhæf dæmi um afleiðingar nýrra laga og reglna um Lánasjóð ísl. námsmanna.
    Fyrsta dæmið er af einstæðri móður með eitt barn á framfæri sem hafði gengið vel í námi. Hún tók þá ákvörðun strax haustið 1992 að hætta námi þar sem hún treysti sér ekki til að framfleyta sér og barni sínu á bankalánum þangað til LÍN afgreiddi námslánið eftir áramót. Þetta eru raunveruleg dæmi. Einstæð móðir með eitt barn á framfæri hættir námi á miðju haustmissiri 1992 þar sem fyrirsjáanlegt var að hún mundi ekki uppfylla fáránlegar kröfur Lánasjóðs ísl. námsmanna um einingaskil til að hljóta fullt lán. 75% lán

hefði engan veginn dugað henni fyrir framfærslu fjölskyldunnar. Námsframvinda hennar var fullnægjandi að mati Háskóla Íslands. Þetta er raunverulegt dæmi.
    Sambýlisfólk, sem bæði voru í námi skólaárið 1991--1992 og með eitt barn á framfæri, treysti sér ekki til að taka bankalán fyrir framfærslu fjölskyldunnar skólaárið 1992 og 1993 og hætti stúlkan því námi þar sem ljóst var að tekjur manns hennar yrðu meiri en hennar að námi loknu.
    Einstæð móðir hættir námi að loknu haustmissiri 1992 þar sem barnið veiktist á próftíma sem gerði það að verkum að hún varð að sleppa tveimur prófum og fékk því einungis afgreitt 75% námslán frá Lánasjóði ísl. námsmanna. Hún var því stórskuldug við bankann og fór að vinna fyrir þeim skuldum. ( ÓÞÞ: Þetta er réttlæti vorra tíma.) Þannig mætti lengi rekja. Þannig væri hægt að rekja miklu fleiri dæmi sem liggja fyrir um þetta mál.
    Það er kannski einmitt fyrir þetta sem lánþegar eru færri og lánasjóðurinn hefur þurft minni fjármuni til sinna útgjalda. Ég held að þó að það sé í sjálfu sér jákvætt að spara þá er ekki alveg sama hvernig maður sparar og hvar er sparað og það verður að huga að afleiðingunum.
    Til fjárln. komu forráðamenn svokallaðra B-hluta stofnana. M.a. komu á fund nefndarinnar forsvarsmenn Atvinnuleysistryggingasjóðs sem er að verða einn af stærstu sjóðum í landinu. Hann veltir milljörðum króna. Þar kom fram að reglum um sjóðinn hefur verið breytt m.a. þannig að sjálfstæðir atvinnurekendur eiga rétt á bótum úr sjóðnum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Einnig kom fram að í ár eru komnar 100--200 umsóknir um atvinnuleysisbætur úr sjóðnum en aðeins 25 af þessum uppfylla tilskilin skilyrði.
    Minni hluti fjárln. er þeirrar skoðunar að þessi skilyrði þurfi endurskoðunar við. Það er alveg ljóst að ýmsar starfsstéttir, sem hafa rekið sjálfstæðan rekstur, búa við tímabundið atvinnuleysi og eiga ekki auðvelt með að losa sig við sín atvinnutæki og hætta, t.d. vörubílstjórar, smábátamenn sem eru atvinnulausir stóran hluta ársins, eða t.d. bændur en í sveitum er og hefur verið um langt árabil mikið dulið atvinnuleysi. Þessar reglur þurfa endurskoðunar við. Ég vil undirstrika við þessa umræðu að það er full þörf á þeirri endurskoðun.
    Það hefur komið fram varðandi Ríkisútvarpið að þar dragast tekjur saman vegna samdráttar í þjóðfélaginu og vegna þess að auglýsingar eru kannski það fyrsta sem mörg fyrirtæki spara í sínum rekstri. Auglýsingatekjur hafa því farið minnkandi. Auðvitað má ekki sofna á verðinum með það að veikja Ríkisútvarpið um of vegna þessa tekjumissis því m.a. dreifingarkerfi þess er mikið öryggistæki sem þjóðin má ekki vera án. Það má ekki sofna á verðinum í þeim efnum. M.a. á eftir að taka veigamiklar ákvarðanir varðandi uppbyggingu langbylgjunnar varðandi Ríkisútvarpið.
    Ef ég vík aðeins aftur að Atvinnuleysistryggingasjóði þá kom það í ljós í viðtölum við forráðamenn sjóðsins að allar ákvarðanir varðandi sjóðinn eru unnar án samráðs við stjórn hans og eru það náttúrlega alleinkennileg vinnubrögð.
    Það hefur verið rakið með Rafmagnsveitur ríkisins að fjármagn til uppbyggingar raforkukerfis í sveitum hefur verið af mjög skornum skammti undanfarin ár og er náttúrlega dæmi um yfirvofandi hættuástand ef það kerfi er látið grotna niður.
    Þess má geta að forráðamenn ríkisstofnana komu á fund fjárlaganefndar, t.d. forstjóri Áfengisverslunar ríkisins sem skýrði nefndinni frá minnkandi sölu á ýmsum áfengistegundum. Það má e.t.v. rekja til þess að mikið hefur verið um að gert sé upptækt ólöglegt brugg hérlendis. Það væri full þörf á því að fara yfir þær reglur og refsiákvæði sem gilda í þessu sambandi.
    Eitt af því sem nefndin fór yfir fyrir 3. umr. var 6. gr. fjárlaga og vil ég gera hana örlítið að umtalsefni. Á 6. gr. eru alls konar heimildir til ráðherra að gera ýmsar ráðstafanir sem kosta peninga og er ákveðin sérstök upphæð til þessara þarfa. Þetta eru einkum heimildir til þess að kaupa eða selja ríkiseignir. Sú ásókn færist í vöxt hjá ráðherrum að ná sér í rúmar opnar heimildir á þessari 6. gr. Dæmi um slíkar heimildir er að finna sem meiri hluti fjárln. lét yfir sig ganga að setja inn á 6. gr.

    Annað tilefnið var að stofna sjóð til markaðsátaks í ferðamálum sem er ágætis verkefni og minni hluti fjárln. tekur undir að full þörf er á að gera átak í þeim efnum. En aðferðin til að ná þessum 40 millj. sem ríkið ætlaði að leggja í sjóðinn voru dálítið einkennilegar, svo ekki sé meira sagt. Rétt eftir að fjárln. var búin að sitja við að útdeila fjármagni og skipta til vega- og hafnamála þá vildi fjmrh. í samráði við samgrh. fá heimild til að skera þessar stofnanir niður flatt upp á 40 millj. og fékk þá heimild hjá meiri hluta fjárln. Það má því búast við að það verði farið að kroppa einhvers staðar í þessar fjárveitingar. Þarna er e.t.v. ekki um miklar upphæðir að ræða miðað við þær fjárveitingar sem eru til Vegagerðarinnar og Vita- og hafnamálastofnunar og fleiri stofnana sem undir samgrn. heyra. En þetta eru auðvitað alveg óhæf vinnubrögð og fjárln. átti að taka á sig ef það átti að skera niður fyrir þessum upphæðum að gera það þannig að það lægi á ljósu hvar ætti að taka þetta og nefndin ákvæði það. En það færist því miður allt of mikið í vöxt að ráðherrar eru að ná sér í einhverjar upphæðir til þess að úthluta með litlu samráði við fjárln. svo ekki sé meira sagt, samanber þennan margumtalaða milljarð sem átti að úthluta til atvinnuaukningar fyrr í sumar.
    Hin heimildin var um ágætismál líka og þarft sem minni hluti fjárln. er alveg sammála að þurfi að gera. Þ.e að greiða þeim sem urðu harðast úti í vondu árferði, sérstaklega á norður- og norðausturlandi og jafnvel víðar, í sumar bætur m.a. vegna þess að fóðurframleiðsla brást á stórum svæðum. Þetta var ótilgreind heimild og ekki tilgreind upphæð í þessu sambandi eða reglur til að úthluta fénu. Auðvitað á fjárln. að fara yfir slíkt og fá þær reglur á borðið til sín, tiltaka upphæð í þessu sambandi og fá um það áætlun og fjalla um þessi mál.
    Ég vil gera þetta að umræðuefni af sérstöku tilefni. Alls ekki fyrir það að minni hluti fjárln. sé að leggjast á móti þessum verkefnum, síður en svo. Þau eru þörf. En þetta eru vinnubrögð sem mega ekki vaxa stig af stigi. Þingið má ekki alltaf sleppa meira og meira af sínu fjárveitingavaldi og lagasetningarvaldi frá sér. Það er mikil ásókn í þetta vald. Framkvæmdarvaldið á Íslandi er sterkt. Þeir hæstv. ráðherrar sem fara með völd hverju sinni, hverjir sem það eru, eru ýtnir menn og vilja ganga inn á verksvið þingsins í mörgum tilfellum. Og mér finnst satt að segja að hv. fjárln. sé ekki nógu vel á verði í þessu og vil þess vegna hafa þessi varnaðarorð.
    Þjóðhagsstofnun kom að venju á fund fjárln. til að fjalla um tekjuhliðina og kom með þær góðu fréttir að það er heldur rýmra en reiknað var með þó langt sé frá því að það sé einhver bein leið fram undan. Ég viðurkenni að það eru ýmsar blikur á lofti en eigi að síður hefur landsframleiðslan verið meiri seinni hluta ársins vegna þess m.a. að sótt hefur verið á ný mið og loðnuafli verið góður.
    En það er alveg ljóst að þetta fjárlagafrv. er afgreitt í nokkurri óvissu. Það er óvissa um tekjuhliðina og það hafa verið valdar slæmar leiðir til að tryggja hana. Besta leiðin í skattamálum hefur ekki verið valin. Það hefur verið sýnt fram á við umræður um skattamál í Alþingi. Það kveður svo rammt að því hvað vitlaus leið hefur verið valin að Morgunblaðið getur ekki orða bundist einmitt í dag. Þegar verið er að afgreiða og ræða um fjárlög vill Morgunblaðið koma þeim boðskap á framfæri að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir séu að velja vitlausa leið þrátt fyrir að flestir séu á móti henni og spyr eðlilega hvað sé að gerast í þjóðfélaginu og hvers konar stjórnarhættir þetta séu.
    Því miður eru veikleikar í útgjaldahliðinni á frv. Ég er sannfærður um það nú eins og áður að við munum standa frammi fyrir myndarlegu fjáraukalagafrv. seinni hluta ársins.