Fjárlög 1994

70. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 21:58:46 (3104)


[21:58]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég hef áhuga á að segja hér nokkur orð um Lánasjóð íslenskra námsmanna og hef áhuga á því að hæstv. menntmrh. heyri mál mitt. Nú veit ég að hann er í húsinu og geri í sjálfu sér ekki kröfu til að hann komi í þingsalinn ef hann telur ekki ástæðu til þess sjálfur.
    Nú er óneitanlega komin nokkur reynsla á þau lög sem sett voru 1992 um Lánasjóð ísl. námsmanna og voru allumdeild hér á hv. Alþingi. Það er því ekki óeðlilegt að maður líti á þá reynslu og reyni að átta sig á hvort þarna hafi verið staðið rétt að verki eða ekki. Ég er reyndar sannfærð um það nú, eins og ég var þá, að þessi lagasetning væri mjög af hinu slæma fyrir námsmenn og í raun fyrir þjóðina sem slíka þar sem með þessum lögum væri hættan sú að þeir sem eiga ekki ríka að geti ekki farið í nám.
    Til okkar í hv. menntmn. hafa komið forsvarsmenn frá lánasjóðnum og gumað mjög af því hvað þeir séu búnir að spara mikla peninga fyrir sjóðinn. Því er ekki að neita að útlán eru minni og þeir færri sem nýta sér þessa þjónustu. En ég lít svo á að það séu ekki endilega meðmæli með sjóðnum því hann eigi fyrst og fremst að vera til að þjóna námsmönnum og gera þeim kleift að stunda sitt nám og lánin eigi að vera framfærslulán. Í gögnum sem við fengum frá formanni lánasjóðsins kemur fram að þeir meta það svo að að óbreyttum úthlutunarreglum á árinu 1991 hefði fjárþörfin til námsaðstoðar verið u.þ.b. 4 milljarðar og 800 millj. kr. en verði 2 milljarðar og 660 millj. kr. Þeir telja sig þess vegna spara 2 milljarða með þessum nýju lögum.
    Þeir segja einnig að þessar nýju úthlutunarreglur sem settar voru á grundvelli nýrra laga hafi bætt mjög árangur námsmanna. Formaður sjóðstjórnar leyfði sér að halda því fram að niðurstaðan væri sú að full námsframvinda hafi hækkað úr 30% skólaárið 1991--1992 í 64% á síðasta skólaári. Það eru algjörlega óásættanleg vinnubrögð að setja fram þessar tölur þar sem það sem lagt er til grundvallar er á þann veg að það er ekki samanburðarhæft. Námsmenn hafa í blaðagreinum komið fram með rök sem sýna fram á að þarna hafi formaðurinn farið með rangt mál. Það er ýmislegt sem má benda á í því sambandi og vil ég í örstuttu máli lesa nokkur af þeim atriðum sem námsmenn hafa bent á, með leyfi forseta.
    Í fyrsta lagi voru margir meistara- og doktorsnemar skráðir með 75% námsframvindu skólaárið 1991--1992 en á síðasta ári voru þeir skráðir með 100% námsframvindu þrátt fyrir að námsframvinda þeirra hafi ekki breyst milli ára. Í öðru lagi var námsframvinda laga- og læknanema við Háskóla Íslands skráð sem fullnægjandi í tölunum á síðasta skólaári en var áður ekki tekin með. Í þriðja lagi var árangur í haustprófum við Háskóla Íslands vegna skólaársins 1991--1992 í mörgum tilfellum ekki skráður hjá LÍN. Þar af leiðandi voru margir með of lágt skráða námsframvindu skólaárið 1991--1992. Í fjórða lagi má segja að formaðurinn, Gunnar Birgisson, hafi ekki mikla hugmynd um námsframvindu þeirra námsmanna sem taka ekki lengur námslán. Því þessar nýju reglur hafa leitt það af sér að námsmenn taka ekki námslán í sama mæli og áður var. Það er kannski ekki mikið því formaðurinn hefur sjálfur sagt að þeir sem taki námslán muni aldrei geta komið sér upp þaki yfir höfuðið. Eða svo ég endurtaki þetta alveg orðrétt, með leyfi forseta: ,,Fólk sem fer í langt nám á námslánum mun verða í vaxtafjötrum allt sitt líf og aldrei lifa mannsæmandi lífi.`` Það eru því kannski ekki mikil meðmæli með því að námsmenn taki lán í þessum lánasjóði.
    Formaður og framkvæmdastjóri lánasjóðsins færðu okkur þær upplýsingar líka að námsmönnum í íslenskum skólum á háskólastigi hafi fjölgað. Það telja þeir náttúrlega mjög góð rök með því að þessi lög séu af hinu góða þegar fólki fjölgar í námi í íslenskum háskólum og færri taka lán. En staðreyndin er sú að í þeirra upplýsingum komu ekki fram neinar tölur um það hversu mikil fækkunin hefði orðið á meðal námsmanna erlendis. En þar hefur námsmönnum fækkað um 600 eftir því sem ég kemst næst. Það er fyrst og fremst fyrir það að lánin eru á þeim afarkjörum að fólk verður að reyna eins og það getur að vinna með náminu eða búa heima hjá foreldrum sínum og það gefur auga leið að það geta námsmenn ekki gert sem fara í nám erlendis.
    Enn fremur kemur það fram í þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum að sú grein laganna sem var hvað mest gagnrýnd hér við lagasetninguna vorið 1992, þ.e. 6. gr., sem kveður á um eftirágreiðslur lána, að lán séu aldrei greidd út fyrr en námsmaður hefur sýnt fram á námsárangur sparar sjóðnum enga peninga en veldur hins vegar námsmönnum miklum erfiðleikum.
    Þá var talað um að það væri fyrst og fremst vegna umframgreiðslnanna sem þyrfti að koma þessum ákvæðum inn í lög. Það væru 50 millj. kr. á ársgrundvelli sem væru umframgreiddar til námsmanna vegna þess að þeir vanáætluðu tekjur sínar. Það kom jafnframt fram þegar unnið var að þessari lagasetningu að 90% af þessum 50 millj. á ári sé endurgreitt á sama ári en það var eins og þær staðreyndir næðu aldrei eyrum hv. stjórnarsinna og hæstv. menntmrh. Það nýja kerfi sem tekið hefur verið upp með eftirágreiðslunum og býður upp á það að námsmenn þurfa að taka lán á almennum markaði þar til þeir fá lán úr lánasjóðnum geri það að verkum að á milli 30 og 40 millj. koma að auki í lánveitingar vegna þessara fyrirframlántöku, þ.e. vegna lána sjóðsins út af vöxtum. Ef námsmenn sem nýta sér þjónustu sjóðsins hefðu orðið álíka margir áfram þá hefði þetta verið samsvarandi upphæð enda hefur komið fram hjá ýmsum stjórnarsinnum á hv. Alþingi að þeir geri sér ósköp vel grein fyrir því að 6. gr. spari enga peninga.
    Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi hér fram vegna þess að ég hef alltaf borið þá von í brjósti að það yrði hægt að taka upp þessi lög þegar reynslan væri farin að sýna hvað þau leiða af sér og breyta þó ekki væri nema þessari 6. gr. og þá endurgreiðslugreininni sem er á þann veg að námsmenn þurfa að greiða allt að 7% af launum þegar þeir hafa lokið sínu námi. Má jafnvel segja að það geti orðið 10% af ráðstöfunartekjum sem námsmenn þurfa að greiða í lánasjóðinn í formi afborgana eftir að þeir hafa lokið námi og eru komnir út í atvinnulífið.
    Ef hæstv. menntmrh. hefði verið hér hefði verið freistandi að spyrja hann að því hvenær hann hyggist skipa þá nefnd sem hann hefur lofað námsmönnum að skipa sem eigi að fara yfir reynsluna og líta á þá þætti sem eru námsmönnum hvað erfiðastir. Ég vænti þess að það sé með það í huga að það megi hugsanlega ná fram breytingum. Ég veit að hæstv. menntmrh. hefur lofað þessu og mér dettur ekki í hug að hann muni svíkja það heldur sé það frekar spurning hvenær af þessu verði.
    Það mætti nefna fleira, hæstv. forseti. Það heyrist t.d. æðioft að námslánakerfið hér sé það besta á Norðurlöndum. Ég minnist þess einhvern tímann að hafa heyrt hæstv. menntmrh. láta þau orð falla. Nú er svona samanburður alltaf mjög erfiður því það er svo margt sem getur spilað þar inn í. En ég hef séð úttekt í norsku dagblaði sem ber saman námslánakerfin á Norðurlöndunum og segir að íslenska námslánakerfið sé næstlakast en það danska best. Svoleiðis að það er ekki einróma álit að Íslendingar geri best við námsmenn.
    Ég vil svo að síðustu segja að það er kannski spurning um hugarfar þegar menn ræða um Lánasjóð ísl. námsmanna og hvernig hann eigi að vera. Hvort þar eigi kapítalismi að ráða ríkjum eða fyrst og fremst það að líta á sjóðinn sem þjónustuþátt fyrir námsmenn sem eigi að gera þeim kleift að stunda nám, hvort heldur þeir eru af ríkum komnir eða ekki, sem sagt með jafnréttishugsjónina að leiðarljósi. En það álít ég að hafi ekki verið haft að leiðarljósi við þá lagasetningu sem ég hef gert að umtalsefni.