Skattamál

70. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 23:06:59 (3108)


[23:06]

     Frsm. 4. minni hluta efh.- og viðskn. (Ingi Björn Albertsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég spurði mjög einfaldrar spurningar. Ég spurði einfaldlega hvort þessi stefna flokksins mundi gilda í næstu kosningum eða hvort það á virkilega að vera svo, eins og hv. þm. var að segja hér, að þeir mundu endurskoða afstöðu sína og það verði kannski komin önnur stefna eftir nokkrar vikur. Mig fýsir að vita og ég er alveg klár á því að þjóðina fýsir að vita hvort flokkurinn ætlar að halda við þessa stefnu. Hann getur varla viðhaldið þessu snarvitlausa kerfi, eins og hann kallar það, sem er verið að setja á hér nú. Þannig að það er mjög æskilegt að það komi alveg skýrt fram og ég trúi því ekki að framsóknarmenn séu eitthvað feimnir við að viðurkenna það, að komist þeir til valda þá muni þeir hverfa aftur til eins stigs, eins þreps í virðisaukaskattkerfinu. Ég tel að það eigi alveg skilyrðislaust að segja þjóðinni frá því að þetta verði stefnumál flokksins í næstu kosningum og þá viti fólk að hverju það gengur.