Skattamál

70. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 23:21:41 (3111)


[23:21]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Framsóknarmenn hafa verið stuðningsmenn þess að tvö þrep væru í virðisaukaskatti, matur og menning væri í lægra þrepi og önnur vara í efra þrepi. Þegar virðisaukaskattskerfið var tekið upp féllumst við á þá málamiðlun að innlend matvælu yrðu sett í neðra þrepið með þeim hætti að þau yrðu niðurgreidd og í reynd væri þar um 14% virðisaukaskatt að ræða. Þetta var gert þá til samkomulags þeirra stjórnarflokka, stutt sérfræðingaliði sem hélt því fram að virðisaukaskattskerfið væri sjálfstætt skattkerfi. Annaðhvort hefðu menn virðisaukaskatt eða menn hefðu hann ekki sem kerfi.
    Við höfum misháan tekjuskatt til tekjujöfnunar og við trúðum því að það væri mjög mikill munur á neyslumynstri manna hvað matvæli snerti eftir því hvort þeir væru láglaunamenn eða hvort þeir væru með tiltölulega há laun. Það verður að segjast eins og er að það kom mér mjög á óvart að sjá sett upp dæmi þess efnis að samkvæmt neyslukönnunum væri munurinn á þessu sá, væri horft á allan þorra manna, ekki þá alhæstu toppa í launum, að lægsti hópurinn væri með um 20% af sínum ráðstöfunartekjum, útgjöldum sem færu í matvæli, en sá hæsti um 24%. Ég þurfti að láta segja mér það tvisvar að þetta væri rétt. En þetta eru þær niðurstöður sem blasa við. Mér er sagt og það þori ég ekki að fullyrða, því það hef ég ekki skjalfest, að hjá ASÍ hafi menn notast við það að hjá lágtekjumönnum hér færu upp í 46% í matarinnkaup.
    Það er mikil nauðsyn að fá úr því skorið með neyslukönnunum, hvor aðferðin, hvor niðurstaðan er rétt því að þar skilur í sjálfu sér algerlega á milli. Ef það er rétt að 46% hjá stórum hópum heimila í landinu fari í matvælakaupin, þá er hægt að segja að virðisaukaskatturinn með tveimur stigum sé til tekjujöfnunar. Sé það aftur á móti svo að skekkjan sé aðeins á milli 20 og 24%, þá er miklu ódýrara að nota þá aðferð að hafa eitt virðisaukaskattsþrep og endurgreiða, því það er vitað að það kostar stórfé í auknu eftirliti að fylgja því eftir að hafa tvö þrep í virðisaukaskatti. Hversu mikið þarf að setja í slíka aðgerð og slíkt eftirlit ætla ég ekkert að fullyrða um. En við viljum ekki leggja á skatta, allir, trúi ég, sem eru þannig að það þarf að kosta mjög stóru til að fylgjast með þeim. Við viljum helst að það sé hægt með tiltölulega skilvirku eftirliti að standa sómasamlega að þeim hlutum.
    Nú er það á allra vitorði að matarskattur sem slíkur er hreint ekki vinsælt fyrirbrigði. Það má því hverjum heilvita manni vera ljóst að Framsfl. lætur sig ekki dreyma um neinar vinsældir út á það tiltæki að taka nú ákvörðun í þá átt að leggja til að það verði hætt við að færa erlend matvæli niður í 14%. Við erum ekki trúaðir á að það sé hægt hókus, pókus að segja: Þetta er vinsælt mál, þetta slær í gegn. Ég hef ekki trú á því. En í hvaða stöðu erum við? Við erum í þeirri stöðu að hæstv. fjmrh. er búinn á tveimur árum að skapa halla á ríkissjóði upp á 20 milljarða. Hæstv. fjmrh. er á þessu ári með fjárlagafrv. sem gerir ráð fyrir 10 milljarða halla. Það væri bjartsýni að gera ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. slyppi með minna en 40--50 milljarða halla á sínum stjórnarferli með sömu stefnu. Það er nú einu sinni svo að við framsóknarmenn erum ekki meiri kjarkmenn en það að þetta gerir okkur hreinlega hrædda. Þetta er slík ævintýrasigling að ég held að það sé betra að fara á bíl bremsulaust niður Kambana en að sitja við það farartæki þar sem svona er farið að.
    Það er ekkert nýtt að sitt sýnist hverjum í þessum sal og sérhver aðili notist við þá vitsmuni sem honum eru gefnir til að taka sínar ákvarðanir. Hæstv. fjmrh. var settur í þennan stól út á þá vitsmuni sem hans flokksbræður töldu að hann hefði. Svo var gert samkomulag. Samkomulag við ASÍ og VSÍ --- um hvað? Um að hæstv. fjmrh. megi ekki nota

sína vitsmuni í skattamálum. Þeim skuli stungið undir stól og vitsmunir hvers dregnir upp í staðinn? Forseta ASÍ og vitsmunir framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, Þórarins V. Þórarinssonar. Það er nú svo. Í hvaða kokteilhlutföllum? spyrja menn e.t.v. Ég veit ekki hvort það eru helmingaskipti, helmingurinn frá Benedikt og helmingurinn frá Þórarni. Við höfum engar upplýsingar um það, almennir þingmenn. Það getur verið að þetta sé meira að segja 99% frá öðrum. Þá væri niðurstaðan sú að hæstv. fjmrh. sem í upphafi fór af stað í þeirri trú að hann mætti notast við eigin vitsmuni situr uppi með það að í skattamálum á hann að notast við vitsmuni Benedikts Davíðssonar. Eða öfugt, að í skattamálum eigi hann að notast við vitsmuni Þórarins V. Þórarinssonar. Hvernig er þá farið fyrir öðrum?
    Hæstv. viðskrh. og iðnrh. skrifar grein í Morgunblaðið. Hann kveinkar sér. Hann situr uppi með nákvæmlega sömu örlög. Í skattamálum á hann að notast við vitsmuni Benedikts Davíðssonar og Þórarins V. Þórarinssonar. Og svo kemur sá sem yfirleitt verður aldrei hræddur og ávallt glaður, formaður Verslunarráðsins, hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson. Hann situr í nákvæmlega sömu súpunni. Honum er meinað að notast við eigin vitsmuni í skattamálum. Hann á að notast við vitsmuni Benedikts Davíðssonar og Þórarins V. Þórarinssonar. Og okkur er sagt þótt þögnin ríki, fleiri hafa ekki skriftað opinberlega, að það sé bara heill hópur manna í þeirri stöðu að þó að stjórnarskráin gefi þeim rétt til að fara eftir eigin sannfæringu, að þeir séu ekki bundnir af neinu öðru en eigin sannfæringu, þá sé búið að gera þá að taglhnýtingum eins og farið var með þarfanaut á milli bæja í gamla daga. Þeirra örlög eru bara þau að notast líka við vitsmuni þessara manna í skattamálum. Og nú spyrja menn e.t.v.: Hvernig stendur á þessu?
    Þá komum við að því að 1938 voru sett lög um stéttarfélög og vinnudeilur og ég er búinn að lesa þessi lög lið fyrir lið. Þessi lög fjalla um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði. Þau fjalla um það að það sé heimilt að hafa verkalýðsfélög í landinu sem geri kröfur á hendur atvinnurekendum, semji fyrir hönd launafólks um ákveðna samninga. En félagsdómur hefur dæmt að það sé ólöglegt athæfi, gersamlega ólöglegt athæfi að gera kröfur undir þeim kringumstæðum á einhverja aðra en viðsemjendur, í þessu tilfelli Vinnuveitendasamband Íslands. Þá finna þessir háu herrar það upp að það sé settur nýr liður í samningagerð. Hann er kallaður á fínu máli ,,forsenda fyrir samningum``. Og forsenda fyrir samningum á að vera það að ríkið geri þetta, ríkið geri hitt. Það er forsenda fyrir samningum. Og niðurstaðan er sú að Alþingi Íslendinga, þeir 63 þingmenn sem hér eru og bera alla ábyrgð á skattamálum þjóðarinnar sitja uppi með það að aðilar úti í bæ sem enginn hefur kosið til að semja skattalög fyrir þessa þjóð, enginn dregur til ábyrgðar fyrir skattalög þessarar þjóðar, enginn skammar fyrir halla á ríkisfjármálum, þessir aðilar setja kosti og þeir þurfa ekki að vaka hér í kvöld til þess að ræða þessi mál. Það er náðugt að hafa þá stöðu. Er þá ekki ábyrgð þessara manna stór? Því miður, hún er engin. Ábyrgð þessara manna er engin. Það lögsækir þá enginn fyrir þetta. Sagan mun dæma þá menn eina í þessum efnum sem bera ábyrgð á því að ríkisskuldir Íslands stefna í þá stöðu að velferðarkerfið íslenska hrynur vegna þess að afborgunarbyrði ríkisins og vaxtabyrði ríkisins verður slík að skattheimtan getur aldrei risið bæði undir vaxta- og afborgunarbyrðinni og velferðinni. Verða þá þessir menn úti í bæ ekki sóttir til saka og spurt: Berið þið ábyrgð? Þið gerðuð þetta. Nei, þá fletta menn upp stjórnarskránni, stjórnsýslulögum og þeirri staðreynd að það eru aðeins þeir sem hér sitja sem bera ábyrgðina.
    Það var einu sinni fjmrh. sem sagði úr þessum stól: ,,Ríkissjóður á fáa vini.`` Ég held að það hafi verið satt. Ríkissjóður á fáa vini. Engu að síður hafði sá fjmrh. þrek til að fylgja því eftir að hallalaus fjárlög væru í þessu landi af því að hann ætlaði að skila starfinu í hendurnar á næsta manni þannig að hann þyrfti ekki að skammast sín fyrir það. En í dag stjórna þessu landi menn sem segja úr þessum stól með kokhreysti, vitna í Jón forna og benda á fagrar ljóðlínur í hans texta:
        Að halda sitt strik, vera í hættunni stór,
        að horfa ekki um öxl, það er mátinn.
    En hvernig skyldi þá sigling Alþfl. vera í skattamálum Íslands? Halda þeir sitt strik,

mennirnir sem játa í Morgunblaðinu að þeir séu ekki frjálsir menn þegar þeir greiði atkvæði hér, þeir láti menn úti í bæ stjórna höndum sínum til þess að gera allt annað en þeir vildu sjálfir. Eru það mennirnir sem halda sitt strik? Eru það mennirnir sem eru stórir í hættunni? Nei, það eru litlir menn á spjöldum sögunnar. Ég held að Alþfl. þyrfti að rifja upp gömlu hugsjónirnar og fara að meta það hvort ráðherrastólar eru eilíflega svo mikils virði að það sé hægt að fórna öllum prinsippum til að sitja í þeim.
    Ég viðurkenni það að þessi þrýstingur er gersamlega óþolandi, þrýstingur frá mönnum utan úr bæ á það hvernig eigi að skipa sköttum þannig að hægt sé að standa eðlilega að því að hafa jafnvægi í tekjum og útgjöldum ríkisins, þessi þrýstingur er gersamlega óþolandi. Það getur vel verið að almennir alþingismenn neyðist til þess að taka upp slaginn fyrir félagafrelsi og því að skylduaðild verði afnumin í verkalýðsfélögunum ef forustumenn verkalýðshreyfingarinnar misnota vald sitt á þennan hátt. Það getur líka verið að það þurfi að kenna forustumönnum vinnuveitenda þá staðreynd að það er engin lausn í vinnudeilum að segja: Við getum ekki borgað þessa hluti. Ríkið á að borga þá. Það verður að vera skilningur á því að hér hefur hver við sitt vandamál að glíma.
    Framsfl. lætur sig ekki dreyma um neinar vinsældir af þeim tillögum sem hann hefur lagt fram á þessu þingi um skattamál. Við höfum vissulega þá sögu eins og komið hefur fram hjá hv. þm. Inga Birni Albertssyni að við höfum trúað því að það væri skynsamlegt til tekjujöfnunar í landinu að hafa tvö þrep. En þegar okkur er bent á þá staðreynd að samkvæmt neyslukönnunum er þetta rangt, sú leið er skynsamlegri að endurgreiða fé til barnmargra fjölskyldna og þeirra sem minna mega sín frekar en rjúfa það kerfi með tveimur þrepum og nota niðurgreiðslur á innlend matvæli til þess að halda þeim áfram í 14%, þá hljótum við að verða sem einstaklingar, sem þingmenn og flokkur að gera það upp við okkur. Við höfðum ekki nægileg gögn í höndunum til þess að standa að því að halda því fram að það væri örugglega betra að hafa þrepin tvö. Í það minnsta er lágmarkskrafa hjá okkur í dag að fara fram á það að neyslukönnun fari fram til að fá úr því skorið. Eru það 46% af útgjöldum heimilanna sem fara í matarkaupin? Eru það 20% eða 24% eins og okkur hefur skilist að væri hið rétta?
    Sumir trúa því að það sé svo gaman að sitja á Alþingi að menn geri það af gamni sínu að ætla að tala laugardagskvöld í staðinn fyrir að vera komnir heim. Menn halda að á bak við slíkt sé e.t.v. sú hugsun að menn af einhverri sérstakri ástæðu líti svo á að þetta sé það skemmtilegasta sem þeir geta aðhafst. Svo er ekki. En alvara þess máls að láta sér detta það í hug að hafa fyrst rekið ríkissjóð með 20 milljarða halla á tveimur árum, leggja nú fram frv. um 10 milljarða halla og gá ekki að sér í þeim efnum, að vera búnir að brjóta niður tekjustofnakerfi ríkisins að því leyti að virðisaukaskatturinn verður miklu kostnaðarsamari í eftirliti ef þessi breyting fer fram heldur en með því móti að hafa hann í einu þrepi.
    Við framsóknarmenn og sá sem hér stendur barðist fyrir því að sjóðvélar yrðu teknar upp alls staðar þar sem virðisaukaskatturinn átti að innheimtast í verslunum og hjá fyrirtækjum. Hvers vegna? Vegna þess að þær eru innra eftirlit, sams konar eftirlit og eigandinn notar til að fylgjast með sínu starfsfólki. Það mundi kosta strikamerkingar á alla vöru sem færi í gegnum þessa kassa ef eitthvert öryggi ætti að vera í því að hafa tvö þrep í verslununum. Ég ætla ekki að bera það á neinn að þeir séu sakamenn í þeim efnum að þeir séu að stunda skattvik eða slíka hluti. Sérhver er saklaus nema annað sé sannað. Það er meginregla í öllu slíku. En vel að merkja, við skulum gera okkur grein fyrir því að virðisaukaskatturinn er það mikil skattheimta, yfir 24%, að ef einn fær að stinga þessum peningum að verulegum hluta í sinn vasa undir því yfirskini að hann sé að selja varning á 14%-skalanum en hinn lendir í að greiða þá erum við að skapa þann samkeppnisójöfnuð að það er tímaspursmál hvenær sá heiðarlegi lendir undir eða neyðist til að taka upp sömu hætti. Það er nefnilega skylda þingmanna að standa þannig að málum að sá sem stendur rétt að sínum málum og er heiðurlegur sé ekki fyrir fram dæmdur til að tapa í samkeppninni. Og ég trúi því að jafnt kaupmenn sem aðrir séu þeirrar gerðar að þeir vilji réttlæti og þannig leikreglur að þær stuðli að réttlæti.

    Auðvitað er það svo að sitt sýnist hverjum eins og ég sagði hér áðan. Vandinn í þessu máli er aftur á móti sá að hver aðilinn eftir annan hefur lýst því yfir að hann gengi ekki frjáls að þeim kosningum sem fara fram um skattamál. Hann væri undir þeim þrýstingi eða þeim samningum eða hvað sem menn vilja kalla það, frá aðilum úti í bæ sem vissulega bera mikla ábyrgð á sínu sviði en bera enga ábyrgð á skattamálum þjóðarinnar, bera enga ábyrgð á hallanum sem hér hefur verið, að þessir menn eigi að ráða.
    Ég man eftir því einu sinni og nú ætla ég að bæta því við, þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona þrýstingur hefur verið. Ég hef setið sem stuðningsmaður ríkisstjórnar og stundum verið arfavitlaus yfir þeim árangri sem menn hafa náð í þessum þrýstingi. Einu sinni var það baráttumál ASÍ og VSÍ að lækka tolla á bílum mjög mikið. Þeir lækkuðu ekki skattheimtuna í landinu nokkurn skapaðan hlut. Hún var sama prósenta af þjóðartekjum. Almenningur var látinn borga sömu heildargjöldin. En þeir lækkuðu skattana af bílunum. Svo var farið af stað og sett kílógjald á bíla. Og ég ætla að fullyrða það úr þessum stól að kílógjaldið á bíla er hæsti eignarskattsstofn, hæsti eignarskatturinn sem greiddur er í þessu landi, hæsti eignarskattur. Hann er það óréttlátur að maður sem á bíl sem er kannski 30 eða 40 þús. kr. virði þarf að borga himinhátt hlutfall af þessu verðmæti í skatt til ríkisins vegna þess að menn töldu það ekki rétt einhverra hluta vegna, e.t.v. menn sem vildu kaupa sér nýja bíla úr röðum samningamannanna að sá sem keypti dýra bílinn borgaði þetta. Byrðin var færð til í þjóðfélaginu yfir á þá sem minna mega sín. Það er söguleg staðreynd. Það er það sem stendur eftir.
    Herra forseti. Mér er ljóst að það hefur verið mikið álag á þinginu í þessari viku og mikið álag á forseta. Þess vegna stytti ég mál mitt. En það er hægt að taka hér umræðuna í beinu framhaldi af þessu lið fyrir lið og rekja dæmi um mistökin í skattheimtunni á Íslandi vegna þess að þeir sem ábyrgðina bera hafa látið draga það vald úr höndum sér og gleymt því að þeir einir bera ábyrgðina. Það þýðir ekkert að segja: Hinir sögðu mér að gera þetta.